07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. frsm. minni hl. (JBald) var að tala um það, að við meirihlutamenn hefðum ekki annað til brunns að bera í þessu máli en að við álitum ekki annað fært en að samþykkja frv. Það er rjett eftir haft, en hv. þm. (JBald) verður að gæta þess, að það er ekki stjórnin ein, heldur þingið líka, sem hefir með höndum afgreiðslu fjárlagafrv., og það er engu síður skylda þess að sjá ríkissjóði fyrir tekjum, eins miklum og gert er ráð fyrir, að þurfi til allra útgjalda, og hefði ekki fjhn., eða sá meiri hl. hennar, sem leggur til, að frv. verði samþykt, gert það, þá hefði honum borið skylda til, eftir að hafa tekið þátt í afgreiðslu fjárlagafrv., að bera fram annað frv. um tekjuauka.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það væri gott að sjá það, hverjir vildu standa við gefin loforð í þessu máli. Já, það er gott að sjá það; jeg tel samþykt fjárlagafrv. frá þessari hv. deild vera skuldbindingu af hendi hennar, og það er þá gott, að það sjáist, hverjir vilja standa við það loforð, að ríkissjóður fái þær tekjur, sem hann þarf til þess að standast þau útgjöld, sem þingið til þessa hefir ákveðið, að hann skuli hafa á árinu 1928. Jeg varð ekki var við, að hv. 5. landsk. kæmi með mikið af tillögum til lækkunar á útgjöldum fjárlagafrv. á meðan það var hjer á ferðinni; þvert á móti kom hv. þm. með stórfenglegar tillögur til hækkunar á útgjaldahlið frv. (JBald: Það gerði hv. þm. Vestm. (JJós) líka). Mínar till. voru ekkert á móti þeim till. um hundruð þúsunda, sem hv. þm. (JBald) kom með. (JBald: Þess vegna kom hv. þm. (JJós) líka fram með þær í lagaformi). Af mínum till. var ein þess efnis að veita nokkurt fje til styrktar þeim mönnum, sem þurfa að fá sjer gervilimi, en hv. þm. (JBald) var með miklu fleiri, og man jeg þar eftir einni, sem hljóðaði upp á 100 þús. kr. fjárveitingu. Það er máske gott, að það sjáist, hverjir mest leggja til um það, að útgjaldaliðir sjeu hækkaðir, en það verður samt ekki komist undan því að sjá fyrir því, að tekjuliðir fjárlaganna hækki að sama skapi. Eða fyrir hvaða kjósendum skyldi hv. 5. landsk. vera að flagga, þegar hann ber fram brtt. um stórkostlegar hækkanir á útgjaldaliðum fjárlaganna, en þykist svo vera með ólund út af alveg nauðsynlegum tekjuauka? Eða hvað væri þjóðin bættari fyrir því, þó að þessi tekjuliður væri feldur niður og þjóðin yrði svo að greiða það á annan hátt? Jeg get ekki sjeð, eins og þetta mál liggur fyrir og eins og nú er langt liðið á þingtímann, að hv. 5. landsk. hafi nokkuð til brunns að bera, sem geti rjettlætt málstað hans, annað en formið á þessum tekjuauka.