26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

7. mál, fjáraukalög 1925

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg hefi i rauninni ekkert um frv. að segja annað en það, sem nefndarálitið á þskj. 396 ber með sjer. Það má auðvitað deila um það, hvaða umframgreiðslur skuli taka með og hverjar ekki, og eins um samræmið milli þeirra. Jeg ætla ekki að fara langt út í þetta, en get ekki stilt mig um að minnast á atriði, sem snertir mig sjerstaklega, í 9. gr., þar sem tekinn hefir verið upp sá nýi siður að taka upp í fjáraukalög lögboðna fyrirframgreiðslu. Þar sem þetta eru 2 liðir í landsreikningnum og umframgreiðsla á báðum, þá hefði átt að taka þá báða, ef annar var tekinn, en hjer er aðeins annar þeirra tekinn upp. Þetta er fje, sem endurgreiðist ríkissjóði aftur. Yfirleitt hafa lögboðnar greiðslur aldrei verið settar í fjáraukalög. Hinsvegar hefir nefndin ekki sjeð ástæðu til að fella þennan lið niður, og þó enn síður að leggja það til, að tekin verði upp umframgreiðsla á þeim liðum, sem ekki hefir verið tekin upp í frv.

Þær umframgreiðslur, sem nefndin hefir lagt til að bætt verði inn í frv., eru á kostnaði við póstflutning og húsaleiga efnarannsóknarstofunnar, og skilst mjer, að ekki verði um það deilt, að rjett sje að taka þessa liði upp. Auðvitað getur kostnaðurinn við póstflutning ekki verið annað en áætlun, en hinsvegar er hægt að gæta mismunandi mikils sparnaðar, og verður því að teljast rjett að taka upp umframgreiðslu á þessum lið. Jeg held, að það hafi svo ekki verið annað, sem jeg þurfti að taka fram fyrir hönd nefndarinnar.