26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

7. mál, fjáraukalög 1925

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið, en af því jeg hafði skrifað undir nál. með fyrirvara, þótti mjer rjett að láta hv. þdm. vita, í hverju sá fyrirvari væri fólginn.

Það var enginn alvarlegur fyrirvari eða að mig greindi á við nefndina um málið sjálft, heldur hitt, hve mikið vafamál það er altaf, hverjar upphæðir skuli taka upp í fjáraukalög og hverjar ekki.

Eins og hv. frsm. (JakM) benti á, er altaf töluverður vafi á og glundroði í þessu efni. Jeg vildi leyfa mjer að benda á það, að það gæti verið ómaksins vert, að yfirskoðunarmenn landsreikninganna tækju þetta einhverntíma rækilega til athugunar í eitt skifti. Það hefir altaf verið regla þau ár, sem jeg hefi fengist við yfirskoðunina, að taka heldur of en van, svo að allar aukagreiðslur geti verið öruggar. Jeg get því verið með því, að brtt. nefndarinnar verði samþ.