06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

38. mál, landskiftalög

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Frv. það, sem jeg hefi borið fram á þskj. 46, hefir legið lengi hjá landbn. og hefir nú nefndin afgreitt það, svo sem sjá má á þskj. 251. Það er ekki mikið, sem nefndin hefir breytt frv., en þó hafa þær breytingar nokkra þýðingu, og vænti jeg, að hv. þdm. hafi athugað breytingarnar og nál. sjálft. Jeg skal þá leyfa mjer að fara nokkrum orðum um helstu breytingar, sem frv. þetta gerir á núgildandi lögum. Það er þá fyrsta breytingin, að taka sjerstaklega upp í lögin upptalningu þess lands og þeirra landsnytja, sem til skifta geta komið, þótt ekki sjeu allir aðiljar á það sáttir. Önnur aðalbreytingin er það, að talin eru upp sjerstaklega þau hlunnindi og þær landsnytjar, sem ekki geta komið til skifta nema því aðeins, að allir aðiljar sjeu því samþykkir. Þetta er nauðsynlegt ákvæði, því að þó heimiluð sjeu skifti á öllu landi, þá er þó nauðsynlegt að undanþiggja ýms hlunnindi skiftum, því að það er oft ómögulegt að framkvæma á þeim staðbundin skifti án þess að misrjetti eigi sjer stað; því er ekki rjett að heimila slíkt nema allir aðiljar komi sjer saman um það. En ef samkomulag fæst á þann hátt, þá er líka fráleitt að synja um slíkt.

Þá er enn ein breyting, sem frv. þetta felur í sjer á núgildandi lögum, og er það ekki lítilsvert atriði. En það er, að skifta má túni og engi og fleira slíku, þótt því hafi áður verið skift, ef ekki eru til órækar sannanir fyrir því, að þessu landi hafi áður verið skift samkvæmt þessum lögum. Slík skipulagsskifting er sjálfsögð, ef skipulagið er óhagkvæmt eftir gömlu skiftunum. Það eru mikil brögð að því víða á Suðurlandsundirlendinu og í Skaftafellssýslu, að sami maðurinn á tún sitt í mörgum hlutum innan um tún annara. Þá er nauðsynlegt að skifta upp að nýju, en það skilyrði er sett fyrir skiftingunni, að ekki sje raskað hlutföllum ræktaðs lands, nema samþykki aðilja komi til. Það má ekki raska eignaverðmæti hvers aðilja fyrir sig.

Þá er enn ein aðalbreytingin, og það er, eftir hvaða hlutföllum skiftin skuli gerð. Eftir núgildandi lögum eiga skiftin að fara fram eftir stærð jarðar eða jarðarparts eftir jarðamati. En það er vitanlegt, að hlutföll jarðamats á hinum einstöku býlum sameignarjarða hefir breyst meira eða minna við síðasta jarðamat. Það er því augljóst, og hefir líka komið fyrir síðan 1922, að skifti eftir slíku jarðamati geta verið mjög ranglát. Því var nauðsynlegt að leggja annað hlutfall til grundvallar. Frv. þetta stingur upp á því, að skiftin skuli miðuð við lögmæt eignahlutföll lands og landsnytja. Þetta er stærsta breyting þessa frv. á núgildandi lögum, enda hefir nefndin mest um hana fjallað á fundum, og langsamlega mest um hana skráð í nál., og læt jeg mjer nægja að vísa til þess. Nefndin hefir sett ítarlegt ákvæði um það, ef vafi er á um eigna hlutföllin. Það getur verið, að ágreiningur sje um þau og samkomulag náist ekki; þá er ekki annað fyrir en skjóta slíku rjettarspursmáli fyrir dómstólana.

Þá eru og enn í þessu frv. nokkrar smábreytingar, sem nauðsynlegar voru vegna hinna breytinganna. Jeg vona, að menn viðurkenni, að þetta mál sje þarft og gott. Það er í alla staði rjettmætt og hefir þurft rækilegrar íhugunar við. Hjer hafa um það fjallað gætnir og ágætir menn, þar sem eru meðlimir hv. landbn. þessarar háttv. deildar, og hið sama vona jeg, að megi með sanni segja um flutningsmanninn. Jeg hygg, að hv. deild megi treysta því, að vel sje frá málinu gengið.