19.04.1927
Neðri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg þakka hv. meiri hl. allshn. fyrir góðar undirtektir hans í þessu máli.

Jeg verð að kannast við það, að jeg er andstæður þjóðjarðasölu, nema því aðeins, að þær sjeu seldar í vissum tilgangi og sjerstaklega standi á. Og hjer stendur einmitt sjerstaklega á. Það er öllum vitanlegt, að hið opinbera getur aldrei haft nein önnur not þessarar jarðar en að hirða eftirgjaldið af henni, og þarf þó að kosta talsverðu fje til þess að hún sje byggileg og fari ekki í eyði, líklega eins miklu og andvirði hennar nemur. Jeg hygg því, að kirkjujarðasjóði sje gerður mikill greiði með því að selja jörðina.

Jeg hefi ekkert á móti því, þó kaupverðið sje ekki ákveðið í lögunum. Jeg ætlast alls ekki til þess, að ábúanda verði ívilnað að neinu leyti, enda verður það ekki gert, ef mat fer fram á jörðinni. Jeg get því fallist á 1. brtt., og eins 2. brtt., um það, að önnur gr. frv. skuli falla niður, ef prestinum í ögurþingum verður sjeð fyrir sæmilegu aðsetri og til þess varið álíka fje og fæst fyrir þessa jörð, eða meira.