19.04.1927
Neðri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er aðeins stutt athugasemd út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) sagði. Jeg gæti sagt við hann: „Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er“, því að jeg veit ekki, hvort hann er eindregnari gegn þjóðjarðasölu heldur en jeg. Að minsta kosti hefir hann ekki sýnt það í verkinu.

Þar sem ábúendur hafa enga tryggingu fyrir því, að þeir eða niðjar þeirra njóti þeirra umbóta, sem þeir gera á jörðinni, kalla jeg illa fyrir sjeð og verra, að jarðirnar sjeu í eign hins opinbera heldur en einstaklinga, það er að segja, ef þeir sitja þær sjálfir. Og til þess að bæta úr þessu hefi jeg, ásamt tveim öðrum háttv. þingmönnum, borið fram sjerstakt frv. hjer í deildinni. Og það skyldi gleðja mig, ef hv. 4. þm. Reykv. flytti einhverjar tillögur, sem miðuðu til gagns fyrir ábúendur og jarðeigendur.

En það skal jeg segja honum, fyrst hann virðist ekki skilja afstöðu mína, að fyrst búið er að farga flestöllum þjóðjörðum þeim, sem verða seldar, þá sje jeg minsta ástæðu til þess að vera að halda í afdalakot, sem geta lagst í eyði fyrir það.

Hv. þm. (HjV) sagði, að enginn hefði talað meira á móti þjóðjarðasölu en jeg. Það veit jeg nú ekki, en hitt veit jeg, að jeg hefi verið á móti henni og er það enn. Hv. þm. (HjV) gaf einnig í skyn, að jeg óskaði þess ekki, að seldar jarðir kæmust aftur í eign hins opinbera. Þetta er ekki rjett, en jeg sagði, að jeg byggist ekki við, að það myndi verða, síst fyrst um sinn; jeg býst við, að mörgum finnist, að landið hafi ekki fjárráð til þess kaupa þær.