19.05.1927
Sameinað þing: 13. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Undirbúningur alþingishátíðar 1930

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg skal leyfa mjer að skýra í örstuttu máli frá störfum undirbúningsnefndar alþingishátíðar 1930, þeirrar, er kosin var á Alþingi 1926.

Sakir fjarvistar sumra nefndarmanna hófust fundir nefndarinnar ekki fyrri en komið var fram á haust.

Á 1. fundi nefndarinnar tilkynti einn nefndarmanna, Ólafur Thors, að hann myndi ekki taka þar sæti, og gekk hann þá þegar úr nefndinni. Hefir enginn komið í hans stað. En nú hefir nefndin gert þá tillögu til þingflokkanna, að bætt yrði tveimur mönnum í nefndina til bráðabirgða, þeim forsrh. og einum manni, er jafnaðarmenn tilnefni. Þótti það hlýða, að nefndina skipuðu menn úr öllum flokkum, þar sem hjer er um alþjóðarmál að ræða, sem síst af öllu má verða flokksmál. Í annan stað hlýtur nefndin að eiga svo náið samstarf við stjórnina, að æskilegt er, að hún eigi þar fast sæti. En um endanlega skipun nefndarinnar er ætlast til, að tekin verði ákvörðun á næsta þingi, eftir að nýjar kosningar hafa farið fram. — Á þessa tillögu nefndarinnar hafa nú flokkarnir fallist, og taka þeir sæti í nefndinni forsrh. og Pjetur G. Guðmundsson, sem Alþýðuflokkurinn hefir tilnefnt.

Nefndin hefir haldið með sjer 16 fundi, og hefir aðalstarf hennar beinst að því að kynna sjer og ræða ýms atriði málsins, viða að sjer sem flestu því, er um það hefir verið skrifað, o. fl. En hitt hefir ekki þótt tímabært enn, að gera fullnaðarályktanir um einstök atriði.

Nefndin kaus sjer formann Jóhannes Jóhannesson og skrifara Ásgeir Ásgeirsson. — Ennfremur rjeð hún sjer til aðstoðar Jón Sigurðsson, skrifstofustjóra Alþingis.

Um fyrirkomulag á Þingvöllum hallaðist nefndin einum rómi að tillögu, sem fram hefir komið, um að hvert sýslu- og bæjarfjelag á landinu 229 sæi sjálft um aðbúnað fyrir sína eigin íbúa, er hátíðina sækja, en fengi þar afmarkað svæði fyrir sig til þess að reisa á tjöld sín. Skrifaði nefndin hverri sýslunefnd og hverri bæjarstjórn brjef um þetta og æskti þess, að kosnar yrðu nefndir til að athuga málið og undirbúa tilhögun alla, í samráði við aðalnefndina. Til þessa hafa nefndinni borist svör úr 5 sýslum og 5 kaupstöðum, með tilkynningu um nefndarkosningu.

Ennfremur skrifaði nefndin Vestur-Íslendingum um þátttöku þeirra og samvinnu í hátíðahöldunum. Fjekk nefndin svör um hæl og góðar undirtektir. Hafa þeir kosið nefnd til þess að undirbúa Íslandsferð 1930, segja mikinn áhuga vaknaðan fyrir málinu þar vestra og óska samvinnu við aðalnefndina.

Þá hefir nefndin dregið saman flestar þær greinar og ritgerðir, er um málið hafa verið ritaðar í blöðum og tímaritum hjer heima, og ennfremur gert ráðstafanir til þess, að sjer verði sendar úrklippur úr erlendum blöðum af sem flestu því, er um hátíðahöldin verður skrifað.

Nefndin hefir kvatt ýmsa menn til viðtals um ýms mikilvæg atriði, er að hátíðahöldunum lúta, svo sem vegamálastjóra um ýmsar vegabætur, þá formann íþróttasambands Íslands (Ben. G. Waage) og Sigurjón Pjetursson um íþróttir og íþróttasýningar, Pál Ísólfsson um söngvaflokka og lög við þá, borgarstjórann í Reykjavík um gistihús hjer og hýsingu hátíðargesta, þjóðminjavörð um mannvirki og aðgerðir á Þingvöllum, Sigurð prófessor Nordal um bækur og hátíðarit fyrir þjóðhátíðina, o. fl. Svör þessara manna og tillögur má sjá í plöggum nefndarinnar, og skal ekki farið út í þau hjer.

Ýms fleiri mál hafa borið á góma í nefndinni, svo sem hvernig háttað skuli boði til erlendra þinga um að taka þátt í hátíðinni, um að hjer verði haldið hátíðarárið norrænt þingaþing, um sláttu minnispenings, um ýmsar sýningar o. fl. En ekkert hefir enn verið fastráðið í þessum efnum.

VII. Starfslok deilda.

A. Í efri deild.

Á 79. fundi í Ed., fimtudaginn 19. maí, að lokinni dagskrá, mælti