02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Jón Baldvinsson:

Það er altítt, þegar selja á jarðir ríkissjóðs, að bera því við, að þetta sjeu smákot, sem ríkið megi vera fegið að losna við, en svo kemur upp úr kafinu síðar meir, að þetta eru ekki önnur eins smákot og látið var í veðri vaka, þegar verið var að koma frv. í gegnum þingið. Þessi jörð, sem er ætluð til prestsseturs, en hefir ekki verið notuð í því skyni, er sögð allsæmileg sauðfjárjörð, enda hefir þarna verið búið góðu búi. Jörðin liggur skamt frá ágætum afrjettarlöndum. En eins og kunnugt má vera, er það einhver hinn besti og arðvænlegasti atvinnuvegur, sem rekinn er hjer á landi, að reka sauðfjárbú. — Jeg sje ekki, hvaða nauður rekur til þess að selja jörðina og nota fjeð til að kaupa hús handa presti eða býli. Það má líka nærri geta, hversu myndarlegt hús eða býli verður reist fyrir 2000 krónur, eftir því byggingarverði sem nú er. Jeg vil spyrja hv. nefnd, hvort hún hafi athugað, hvað stórt land þetta er. Þó að ríkissjóður fái 2000 krónur, álít jeg miklu betra að eiga jörðina.

Jeg man ekki, hvort í þessu landi eru nokkrar ár, en í nágrenninu eru ár, sem nú er verið að reyna að fá að virkja og koma í samband við hina miklu virkjun í Arnarfirði. Jeg vil biðja hv. nefnd að athuga, hvort ekki sje þarna meira verðmæti en hún veit af; því vissulega mundi jörðin verða verðmæt, ef árnar í Hestfirði yrðu virkjaðar, þó það eigi nú ef til vill nokkuð langt í land. En þó er nú um þetta talað. Jeg vil svo að lokum biðja nefndina að athuga á kortinu landamerki jarðarinnar.