02.05.1927
Efri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

111. mál, sala á Hesti í Ögurþingum

Jón Baldvinsson:

Það er nú upplýst, sem jeg í rauninni vissi áður, að þessi jörð er ekki svo lítil eins og ætla mætti eftir athugasemdunum við frv. Þetta er sæmilega stór jörð og má hafa þar allgóðan búskap, og það er heldur ekki líklegt, að þar verði haft prestssetur, því að prestur myndi naumast setja sig niður þar í útjaðri hrepps. En jeg get ekki horfið frá hinu, að það muni ekki vera nein ástæða til þess að selja þessa jörð; mjer sýnist, að það sje alveg eins hægt og verið hefir að leigja jörðina og gefa ábúandanum tækifæri til að gera þar jarðabætur og láta þær koma upp í afgjald jarðarinnar, nema því aðeins, að hann fái jörðina fyrir lægra verð en rjett er. En það er sannleikurinn um allar jarðir, sem seldar hafa verið, að þær hafa verið seldar fyrir miklu lægra verð en þær hafa gengið kaupum og sölum manna á milli. Jeg myndi því ekki geta samþykt þetta frv., því að jeg álít alls ekki rjett að selja opinberar eignir, og jeg álít, að ríkissjóður hafi altaf orðið fyrir skaða, þegar hann hefir látið jarðir sínar í hendur einstakra manna, og nú er þegar búið að selja mikið af bestu jörðum ríkissjóðs, en ef hann heldur áfram að selja jarðir sínar, þá heldur hann áfram að rýja sig af eignum, og þegar hann selur jarðir sínar, þá gefur hann mikið af andvirði þeirra, og kaupendur nota það stundum ekki til annars en selja jarðirnar aftur fyrir meira verð, sem leiðir af því að ríkissjóður hefir selt þær of lágt.

En hinsvegar á að vera best að búa á jörðum ríkissjóðs, því að hann á að gefa svo góða leiguskilmála, að það sje eins gott fyrir ábúendur að vera leiguliðar hans eins og þeir eigi jarðirnar sjálfir.