30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

67. mál, einkasala á áfengi

Klemens Jónsson:

Jeg vildi aðeins gera þá athugasemd til leiðbeiningar fyrir þá nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, að 1. gr. frv. er svo undarlega orðuð, að þar hlýtur að vera prentvilla eða einhver önnur vitleysa. Það er ekkert mál á fyrri hluta greinarinnar: „Honum skal skylt að útvega frá útlöndum, eftir beiðni, fyrir ríkissjóð, lækna, er rjett hafa til lyfjasölu, og sjúkrahús lyf“, o. s. frv. Næst ber að skilja þetta á þann veg, að forstjóra áfengiskaupa beri að útvega frá útlöndum lækna og sjúkrahús, sem auðvitað nær engri átt.

Þetta hlýtur að eiga að vera eitthvað á þessa leið: Honum skal skylt að útvega frá útlöndum fyrir ríkissjóð eftir beiðni lækna, er rjett hafa til lyfjasölu, o. s. frv.

Jeg hefi aldrei sjeð aðra eins orðun á þskj., og nefndin verður auðvitað að leiðrjetta þetta. Ennfremur ætti fyrir orðið „sjúkrahús“ að koma eignarfall fleirtölu af því orði: sjúkrahúsa. Gæti þó átt að vera: fyrir sjúkrahús.

Jeg vildi vekja athygli á þessu og vænti þess, að hv. nefnd athugi þetta.