03.03.1927
Neðri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg þakka hv. fjhn. fyrir að hafa tekið að sjer þetta litla frv., og hefi jeg litlu við að bæta það, sem hv. frsm. (KIJ) hefir um það sagt. Eftir þeirri skoðun, sem hjer hefir verið ríkjandi 5 síðustu árin, er þetta engin breyting á gildandi löggjöf, heldur gleggra orðalag, svo að hægt sje að vísa útlendum viðskiftavinum á ótvíræða heimild stjórnarinnar í þessu efni. Þetta er borið fram sem breyting á 7. gr. Landsbankalaganna frá 1885, og af því leiðir, að þetta atriði verður að koma til nýrrar athugunar í sambandi við frv. um Landsbankann, sem nú liggur fyrir þinginu og gerir ráð fyrir, að lögin frá 1885 falli úr gildi. Það er því ekki ætlast til, að þetta standi nema þar til lokið er við þá lagasmíð um Landsbankann, sem nú er á ferðinni. Jeg skal að síðustu geta þess, að jeg er fús á að gefa þingnefnd allar nauðsynlegar upplýsingar um, hvaða framkvæmdir eru hugsaðar á þessum grundvelli, hvaða ábyrgð stjórnin hefir í hyggju að taka á sig. Jeg vænti, að hv. þdm. skiljist það, að rjett sje að hlífast við að gera einstakar ráðstafanir bankanna að umtalsefni hjer á opinberum fundi. En sem sagt, jeg er fús á að gefa nefnd allar nauðsynlegar upplýsingar.