03.03.1927
Neðri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg held, að það sje ákaflega gagnlegt fyrir rjetta athugun á þessu máli að gera sjer ljóst, að eitt er það, að stjórnin þarf að hafa heimild til að ábyrgjast lán, og annað hitt, að Alþingi hafi hömlur á notkun þeirrar heimildar.

Jeg hefi ekkert að athuga við það, sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði, annað en það, að það er ekki rjett, að stjórnin hafi ekki heimild til ábyrgða fyrir Landsbankann nema samþykki Alþingis komi til í hvert skifti. Því hefir verið yfirlýst af þrem stjórnum, hverri eftir aðra, að þær teldu sig hafa þessa heimild, og þær hafa allar notað hana. Um þetta er getið í nefndaráliti frá síðasta þingi, og hafði þingið þá ekkert við það að athuga. Það getur ekki gengið að taka upp gagnstæða skýringu nú, þegar stjórnin hefir gengið í ábyrgð fyrir samningsbundnum lánum, því að það væri uppsagnarsök, enda þykist jeg vita, að hv. þm. hafi enga tilhneigingu í þá átt.