07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer kemur það mjög undarlega fyrir, ef það þarf að flýta þessu máli svo mjög, að það eigi að afgreiðast að fullu í dag. Þetta er svo stórt mál, að það er með öllu óforsvaranlegt að afgreiða það til fulls í dag. Hæstv. fjrh. (JÞ) gaf við 1. umr. þessa máls fyrirheit um það að gefa fjhn. upplýsingar, og það hefir hann nú gert. En það var kunnugt, að hæstv. fjrh. hafði brtt. á prjónunum og jeg vissi það, að í morgun var fjhn. ekki búin að taka afstöðu til þessara tveggja brtt. Þá hefir ekki verið gert ráð fyrir slíkum hraða á málinu. Innan stundar verður gefið fundarhlje til þess að fylgja einum af mætustu sonum þjóðarinnar til moldar (Oddi skrifstofustjóra Hermannssyni), svo að enginn tími verður að ræða málið. Jeg álít, að ekki geti komið til mála að ljúka þessu máli í dag. Jeg vil fastlega mælast til þess, að mál þetta verði afgreitt á forsvaranlegan og þinglegan hátt.