07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þar sem aðrir hafa ekki kvatt sjer hljóðs, þykir mjer rjett að svara hv. þm. Str. (TrÞ) að nokkru.

Fyrir hönd hv. fjhn. er eigi hans að kvarta. Jeg hefi í engu gengið fram hjá henni, og vona jeg, að engar kvartanir komi frá hv. nefnd sjálfri um meðferð mína á málinu.

En hv. þm. Str. (TrÞ) leggur alt annað inn í þetta mál en hjer er í raun og veru á ferðum. Öll ræða hans byggist á skökkum grundvelli. Hann talaði um, að þetta væri stærsta málið, sem fyrir þessu þingi lægi, og talaði um það út frá því ranga sjónarmiði. Þetta er misskilningur. Því var rjett lýst við 1. umr. málsins, að hjer er í raun rjettri aðeins um formsatriði að ræða. Það hefir hvað eftir annað verið viðurkent, að landsstjórnin hefði heimild til að ganga í ábyrgðir fyrir Landsbankann. En þegar þessi ameríski banki óskar að sjá skýran lagastaf fyrir þeirri heimild, virðist ekki nema sjálfsagt að verða við þeirri ósk. Og þótt það sje e. t. v. nokkuð há upphæð, sem stjórnin vill fá heimild til að ábyrgjast, þá er þar ekki um annað að ræða en það, að þegar Landsbankanum opnast reikningsviðskifti við þennan banka, er tiltekið hámark fyrir það reikningslán, sem landsstjórnin má ábyrgjast. En þar með er alls ekki sagt, að nokkurn tíma þurfi að nota alt þetta fje. Kjör þau, sem Landsbankinn hefir komist að, eru þannig, að það kostar ekki nema óverulega fjárupphæð að hafa þessa háu upphæð altaf tiltæka, ef hann kynni að þurfa á henni að halda.

Út frá þessu vil jeg strax koma að þeirri spurningu hv. þm. Str. (TrÞ), hvort hjer sje um laust lán eða fast að ræða. Þetta lán er hugsað sem laust lán, innhlaup til að fá fje þann tíma, sem mest af fje landsmanna er bundið í óseldum framleiðsluvörum þeirra. Þess hefir alls ekki verið óskað að útvega fast lán. Það væri alt önnur spurning, hvort það væri nú tímabært að beina nýju lánsfje inn í atvinnuvegi landsmanna. Þá yrði það að sjálfsögðu að vera til þess að auka sjálfa framleiðslumöguleikana. En þetta hefir ekki komið til tals að gera að þessu sinni, og veit jeg, að margir líta svo á, að það sje ekki tímabært í bili. Skal jeg ekki fara lengra inn á það mál.

Hvort alt lánið verður borgað upp á sama ári, fer eftir afkomu atvinnuveganna á árinu. Eins og menn við er atvinnulíf okkar miklum sveiflum undirorpið, þannig, að sum árin verður mikill afgangur, en önnur lítill eða enginn. Þess vegna er óhjákvæmilegt að hafa mikið lánsfje til að nota, þegar afkoman er lakari.

Eftir þessa almennu greinargerð um það, hvers eðlis lánið er, skal jeg víkja að nokkrum öðrum atriðum úr ræðu hv. þm. Str.

Jeg skil ekki ummæli hans um, að stjórnin hefði átt að undirbúa þingið betur undir þetta mál. Það er komið fram fyrir viku og er nú til 2. umr. í fyrri þingdeildinni. Veit jeg ekki betur en að þessi tími hafi verið nægur til að kynna sjer málið, enda munu flestir hv. þm. hafa gert það.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Str., að bankastjóri frá þessum Vesturheimsbanka sje á ferðalagi í Kaupmannahöfn og það sje hann, sem óski eftir ábyrgð ríkissjóðs fyrir þessu láni, sem um er að ræða. Þessi banki í Ameríku hefir skrifstofu í Kaupmannahöfn — jeg veit ekki, hvort hún getur skoðast sem einskonar útibú, en það held jeg þó ekki — og fyrir þessari skrifstofu ræður bankastjóri, eins og yfirleitt tíðkast erlendis hjá öllum stærri bönkum, og það er þessi skrifstofa, sem afgreiðir viðskifti bankans og annast um lán hans á Norðurlöndum. En nú stendur svo á, að þessi bankastjóri er að fara í ferð og hefir óskað eftir þessari heimild, sem felst í frv. og brtt. minni, áður en hann leggur af stað. Þetta voru ástæðurnar til þess, að jeg mæltist til þess við hæstv. forseta, að hann sæi sjer fært, að málið yrði afgr. til 3. umr. í dag. Annars hefði jeg ekki verið að knýja svo mjög á það, að frv. yrði afgr. með afbrigðum frá þingsköpum.

Hitt er ekki mjer að kenna, þó að önnur mál hafi verið tekin á undan og þetta mál hafi verið látið bíða þar til nú.

Það er rjett, að í frv. eins og það fyrst kom fram var farið fram á, að Alþingi veitti stjórninni valdið til þess að ganga í ábyrgð fyrir lánum handa Landsbankanum. Jeg hefi margskýrt frá því, að með þessari heimild er ekki farið fram á annað en það, sem gert hefir verið síðan 1922. Þess vegna skil jeg ekki, hvernig háttv. þm. Str. gerir að aðfinsluefni nú það, sem stjórnin 1923 gerði, þótt jeg hinsvegar gæti trúað, að hann mundi síst skorta vilja til þess að gera hið sama að aðfinsluefni við aðrar stjórnir.

Þá verð jeg að lýsa því yfir, að það gefur rangar hugmyndir að nefna í sambandi við þetta mál ríkisákæru á stjórnina í Noregi, sem verið hefir þar til meðferðar síðastliðið ár. Það er alt annars eðlis og á ekkert skylt við heimild þá, sem hjer er farið fram á. Norska stjórnin, eða hluti hennar, hafði lánað banka einum í landinu allháar upphæðir af ríkisfje og sagt þinginu um sumt af því, en leynt flesta þingmenn um nokkurn hluta lánsins, að því er jeg veit.

Hjer er alt öðru máli að gegna, því hjer er aðeins um atriði að ræða, sem allar stjórnir hafa talið sig hafa lagavald til að framkvæma og þingið viðurkent, ýmist þegjandi eða þá með atkv. hv. þm.

Þá ætla jeg að víkja ofurlítið að því, sem hv. þm. Str. sagði um afkomu bankanna á liðna árinu og fjárhagsástandið yfirleitt.

Það gefur ekki rjetta hugmynd af breytingunum á greiðslujöfnuði þjóðarinnar út á við á umliðnu ári, þegar sagt er, að bankarnir standi það ver að vígi nú en í fyrra, að skuldir þeirra hafi aukist um 15 miljónir króna frá febrúarlokum 1926 til febrúarloka 1927. Til þess að sannfærast um, að þetta sje ekki rjett, þarf ekki annað en að líta á inn- og útflutningsskýrslur þennan tíma, og vantar þá aðeins lítið eitt til, að inn- og útflutningur standist á, og er þar á meðal verð þeirra gufuskipa, sem flutt hafa verið inn á árinu, en sem ekki er ætlast til að greiða að fullu fyr en síðar.

Það verður því að leita að öðrum ástæðum fyrir breytingunum á afkomu bankanna. Og sú fyrsta, sem fyrir manni verður, er þá innieign erlendra viðskiftamanna bankanna. Í febrúarmánaðarlok 1926 áttu erlendir viðskiftamenn miklar innstæður í bönkunum hjer, sem greiddar hafa verið þeim á árinu. Auk þess hefir þurft að inna af hendi afborganir og vexti af eldri lánum. En sem ástæðu fyrir því, að greiðslujöfnuður landsins 1926 sje erfiður og verslunarjöfnuðurinn óhagstæður, bendir hv. þm. Str. á gengishækkunina á árinu 1925. En það hefir verið margsagt af mjer og öðrum, að þar hafi aðrar orsakir verið að verki og þær hver um sig haft margfalt meiri áhrif á fjárhagsástandið heldur en gengishækkunin. T. d. má benda á, að verðfall á afurðum landsins móti gulli nemur um 20% miðað við verðlagið 1925. Og það, að fá 20% minna fyrir afurðirnar heldur en árið áður, hlýtur að koma þungt niður á verslunarjöfnuði landsins 1926. Og þegar þar við bætist, að verklegar framkvæmdir í landinu, svo sem húsabyggingar, hjeldu áfram með jöfnum hraða eins og eftir góðærið 1924, þá þarf engan að furða, þó að afkoma landsins og bankanna hafi orðið sú, er raun ber vitni um.

Það er því ekki á neinum rökum bygt hjá háttv. þm. Str., að það sje vegna gengishækkunarinnar 1925, að stjórnin komi nú til þingsins að biðja um heimild til þess að ábyrgjast lán fyrir Landsbankann. Jeg geri ráð fyrir, að útkoman hefði verið hin sama hvað þetta snertir, þó að krónan hefði verið stöðvuð á meðan sterlingspundið stóð hærra á árinu 1925. Enda eru miklar líkur til, ef haldið hefði verið áfram að kaupa sterlingspundið hærra verði en gert var, að þá hefði innieign erlendra viðskiftamanna bankanna aukist að sama skapi. Menn voru yfirleitt þá búnir að kaupa erlendan gjaldeyri 1925 til þess að borga með útflutningsvörurnar framan af árinu 1926. Þess vegna hefi jeg ekki trú á, að hægt hefði verið að afstýra neinu af þessu, er síðar kom á daginn, með því að halda áfram að kaupa sterlingspundið 26 krónur eða 24 kr.

Þá spurði hv. þm. Str., hver væri ástæðan fyrir nýrri lántöku nú handa bankanum, og gaf um leið svarið: að reikningslán bankans væru uppnotuð. Jeg verð að segja eins og er, að mjer er ekki unt að gefa betra svar í einni setningu en hann gerði sjálfur. En hitt er misskilningur, sem hann var að gefa í skyn í þessu sambandi, að það væru þung spor, sem stjórnin þyrfti nú að stíga með því að koma til þingsins og biðja um ábyrgð þess fyrir nýrri lántöku. Þetta eru ekki þung spor fyrir stjórnina, þótt hún komi til þingsins og biðji um heimild til þess að gera þær ráðstafanir, að atvinnulíf landsins haldi áfram á eðlilegan hátt. Stjórnin þykist ekki með þessu vera að gera neitt það, er hún þurfi að bera kinnroða fyrir. Þvert á móti gengur hún út frá því, að hún sje einmitt að gera skyldu sína, og það eigi að vera sameiginlegt áhugamál allra hv. þm. að styrkja hana í því að ráða á skynsamlegan hátt fram úr þeim vandræðum, er leitt hafa af misjafnri afkomu atvinnuveganna. — Stjórnin er ekki að biðja um neitt handa sjer. Hún er aðeins að bera fram fyrir þingið það, sem rjettir aðiljar telja, að þurfi að gera vegna atvinnulífsins í landinu.

Þá gat hv. þm. Str. þess, að stjórnin hefði engar ráðstafanir gert til þess að halda uppi núverandi verðgildi krónunnar og sagði, að jeg hefði verið spurður um þetta á nefndarfundi, en engu getað svarað. Úr því að hann komst inn á þetta og fer að segja frá því, hvað gerðist á þessum nefndarfundi, þá kemst jeg ekki hjá því að skýra líka frá, hvað gerðist þar.

Það var þá svo, að tveir háttv. þm. spurðu um það á þessum fjárveitinganefndarfundi, við hvaða gengi stjórnin hefði miðað, er hún var að semja fjárlagafrv. fyrir árið 1928. Jeg svaraði því á þá leið, að stjórnin hefði miðað við núverandi gengi. Þá var spurt um, hvort stjórnin byggist við, að sama gengi hjeldist þá, eða m. ö. o., hvort krónan mundi hafa sama verðgildi 1928 og nú. Því kvaðst jeg ekki geta svarað fyrir stjórnarinnar hönd, og það gæti heldur enginn á meðan landið verður að búa við laust gengi óinnleysanlegra pappírspeninga.

Út frá þessu get jeg þó látið í ljós þá skoðun, og það er sannfæring mín, að jeg býst við, að hægt verði að halda uppi núverandi gengi, ef alt fer skaplega og ekkert það kemur fram, sem menn órar ekki fyrir nú. Og jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að stjórnir beggja bankanna sjeu á sömu skoðun.

Þá kom hv. þm. Str. að því, sem jeg hafði búist við, að hann geymdi þangað til hann færi að gegna eldhússtörfum sínum við framhaldsumræðu fjárlaganna. Hann vildi gefa stjórninni það að sök, að hún hefði með of háu kaupgjaldi fyrir vinnu við opinberar byggingar og aðrar framkvæmdir ríkisins orðið þess valdandi að halda uppi háu kaupi í landinu, er ekki svaraði til þess verðs, er fengist fyrir afurðirnar.

Þó að það heyri öðrum ráðherra til að svara þessu, skal jeg aðeins taka fram, að jeg held, að fleiri en framkvæmdastjórum ríkisins hafi missýnst vorið 1926, hvaða kaup mundi fært að greiða þegar fram á sumarið kæmi.

Þá var hann eitthvað að tala um það, að atvinnuvegirnir hefðu fengið auknar skattabyrðar vegna gengisins, að mjer skildist. En jeg kannast ekki við að svo sje. (TrÞ: Jeg sagði ekkert um það). Mjer var heldur ekki vel ljóst, hvað hv. þm. Str. var að fara, en þó get jeg ekki látið vera að benda á í þessu sambandi, að það var ekki óverulegt, sem ljett var sköttum af atvinnuvegunum síðastliðið ár, eins og líka orðið hefir vart nú á þessu ári.

Þá hefi jeg nú svarað hv. þm. Str., til hvers þetta lán sje tekið, og jeg vona, að það nægi til þess að sýna hv. þdm., að sumar spár hans eru bygðar á öðrum grundvelli en hjer er um að ræða.

Þar sem hann óskar upplýsinga um stefnu stjórnarinnar í gengismáli framtíðarinnar, þá get jeg ekki svarað öðru en því, sem jeg hefi lýst yfir í fjárhagsnefndum beggja deilda, að stjórnin hefir ekki hugsað sjer að nota þetta lánsfje eða annað til þess að hækka gengi íslensku krónunnar. Hinu hefi jeg lýst yfir áður, að von mín um að hækka gengi krónunnar byggist eingöngu á bættri afkomu atvinnuveganna.

Þá vildi háttv. þm. Str. líkja þessu láni við enska lánið, sem tekið var 1921. En þar fór hann algerlega villur vegar um, til hvers það lán hefði verið notað. Eins og kunnugt er, var enska lánið notað til þess að greiða áfallnar skuldir bankanna og ríkissjóðs, svo að um eyðslu þess í landinu sjálfu gat því ekki verið að ræða. Og jeg get bætt því við, að ef eitthvað af þessu nýja láni þyrfti að nota til þess að greiða áfallnar skuldir, þá yrði það þó til þess að lækka þær, en ekki til þess að auka.

Aftur á móti get jeg tekið undir það með hv. þm. Str., að það sje ekki rjett að halda uppi óheilbrigðum atvinnurekstri með því að ausa í hann fje á fje ofan. En þessu var ekki til að dreifa um enska lánið. Það skiftist á milli þriggja aðilja, sem allir notuðu það á sama hátt: að greiða með því gamlar skuldir, sem fallnar voru í gjalddaga þegar það var tekið.

Það þarf að gjalda varhuga við að fleygja peningum í þau fyrirtæki, sem rekin eru með tapi ár frá ári. Aftur á móti skyldu menn varast að draga þá ályktun af þessu, að þótt eitthvert fyrirtæki tapi á rekstri sínum eitt kreppuár, þá eigi það að leggjast á höggstokkinn og hætta, því við það gæti atvinnurekstur þjóðarinnar beðið varanlegan hnekki. Jeg skal ekkert um það segja, hvort verslunarstjettin hjer í Reykjavík sje of mannmörg, borið saman við aðrar þjóðir. en hitt vil jeg segja, að jeg tek ekki mikið mark á, þó slíku sje fleygt á meðan ekki liggur fyrir rannsókn nje samanburður á tölum, sem auðvelt hlýtur að vera að afla sjer vitneskju um.

Þá spurði háttv. þm. Str., hvernig þessu láni ætti að skifta milli atvinnuveganna. Því hefi jeg áður svarað, og á þá leið, að það sje ekki meiningin að láta það renna út til atvinnuveganna, heldur sje hjer um venjulegt rekstrarlán að ræða. En þó skal jeg taka það fram, að það er ekki siður stjórnarinnar að blanda sjer í það, hvernig og hverjum bankarnir veita lán. Hjer er það Landsbankinn, sem á í hlut, og stjórnin hefir enga heimild til, og heldur ekki neina ástæðu, að blanda sjer inn í dagleg störf bankastjóranna. En til þess nú betur að tryggja það, að bankastjórarnir misnoti ekki stöðu sína, þá eru tveir endurskoðendur settir þeim til höfuðs, annar kosinn af sameinuðu Alþingi, en hinn skipaður af stjórninni, svo að hann ætti þá að geta aðvarað stjórnina, ef hann yrði var við, að bankastjórarnir stæðu illa í stöðu sinni. Nú vill svo til, að þessi stjórnskipaði endurskoðandi er einmitt háttv. þm. Str., herra Tryggvi Þórhallsson, og í þessi 3 ár, sem jeg hefi átt sæti í stjórninni, hefir það aldrei komið fyrir, þó að erindi hafi borist upp í stjórnarráð uppáritað af endurskoðendunum, að þar hafi nokkru sinni verið um aðfinslur að ræða í garð bankastjóranna. Og á meðan svo er, að endurskoðendurnir geta ekkert fundið að gerðum bankastjóranna, er ekki ástæða til, að stjórnin fari að blanda sjer inn í störf þeirra.

Þá gat hv. þm. Str. þess, að af lánsfje nýja veðdeildarflokksins hefðu 95% gengið til kaupstaðanna, en aðeins 5% til sveitanna. Þetta getur vel verið, en það hefir ekki komið nein umkvörtun til stjórnarinnar um það frá endurskoðendunum, að lánsfje þetta sje ranglega veitt. En ef þetta er rjett, þá verð jeg að líta svo á, að lánsþörfin sje minni í sveitunum en kaupstöðunum. Annars er ekki ósennilegt, að sveitirnar leiti minna til veðdeildar síðan ræktunarsjóðurinn tók til starfa, enda er hann þeirra lánsstofnun og mun á umliðnu ári hafa lánað út til sveitanna á 9. hundr. þús. króna.

Þegar þessi upphæð úr ræktunarsjóði og 5% úr veðdeildinni eru lögð á vogarskálarnar annarsvegar, móti þeim 95%, sem kaupstaðir og kauptún hafa fengið úr 5. flokki, þá verður hlutfallið þannig milli þess lánsfjár, sem hefir farið til fasteignalána í kaupstöðum og sveitum á þessu tímabili, að það verður ekki óhagstæðara fyrir sveitirnar en í raun og veru mátti vænta, eftir öllum kringumstæðum. (TrÞ: Það ber ekki að skoða ræktunarsjóðslán sem fasteignalán, heldur lán til framkvæmda). Það eru fasteignalán yfir höfuð. Getur verið, að eitthvað sje veitt gegn öðrum tryggingum, svo sem ábyrgð sveitarstjórna, en þótt þau sjeu ætluð til framkvæmda, þá er enginn raunverulegur mismunur milli þeirra og veðdeildarlána. Því að öllu venjulegu eru veðdeildarlán einmitt veitt út á nýjar fasteignir og nýjar endurbætur á fasteignum.

Jeg get þess vegna ekki tekið það upp í sambandi við þá ábyrgðarheimild, sem hjer liggur fyrir, hvort stjórnin vilji beina einhverju af því fje, sem þar er um að ræða, til sveitanna. Því að stjórnin hefir yfir höfuð ekki aðstöðu til þess að halda því að Landsbankanum að nota þetta lánstraust, sem þarna stendur til að opna, á neinn hátt meira en stjórn bankans sjálfri þykir rjett. En hitt get jeg vel sagt hv. þm. Str., að stjórnin hefir ákaflega góðan vilja á því að veita lánsfje til sveita, til hvers þess, sem þar er hægt að framkvæma og arðberandi getur talist. En það liggur í hlutarins eðli, að það verður fremur að fara aðra leið til þess að veita lánsfje til arðberandi framkvæmda í sveit heldur en að nota til þess reikningslánsheimild, sem er veitt til eins árs. Sveitirnar þurfa yfirleitt talsvert lengri tíma fyrir þau lán, sem þar eiga að geta myndað nokkurn verulegan grundvöll undir framfarir, þó að hitt skuli fúslega viðurkent, að sveitamenn þurfi líka að geta fengið sín rekstrarlán. Þau fá þeir að mjög miklu leyti hjá Landsbanka Íslands. Þó að ekki sje mjög mikið veitt hverjum einstaklingi sjer í lagi, þá er það stærsta fjelagsfyrirtæki í sveit, sem einmitt hefir mikið af sínu lánstrausti hjá Landsbankanum.

Jeg held jeg hafi nú nokkurnveginn tekið upp þau atriði, sem máli skifta, úr ræðu hv. þm. Str. Ef honum þykir ósvarað einhverju, sem honum er ant um að fá að vita, óska jeg, að hann geri mjer aðvart, því að ekkert af því, sem hann spurði um, er þess eðlis, að ekki megi alveg eins svara því nú og við 3. umr.