07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Við 1. umr. þessa máls gat jeg þess, að jeg hefði enga ástæðu til að vera á móti frv. með brtt., þar sem jeg gengi út frá, að þetta væri aðeins venjulegt reikningslán handa bankanum sjálfum til styrktar honum. En mjer virðist síðan, að þessu skjóti nokkuð öðruvísi við.

Það er aðallega þrent að athuga við þetta. Í fyrsta lagi er meðferð málsins, í öðru lagi er upphæð lánsins, og í þriðja lagi tilgangur þess.

Um meðferð málsins er það að segja, að mjer finst mjög undarlegt, að hæstv. fjrh. (JÞ) skýrir ekki með einu einasta orði í deildinni frá upphæð lánsins og vaxtakjörum, — sem sagt, frá engu aðalatriði, sem lánið snertir. Og fjhn. þingsins, sem hann mun hafa skýrt frá þessu, hefir hann, að því er jeg veit best, bundið þagnarheiti. (Forsrh. JÞ: Ekki gagnvart þingmönnum). Jeg hefi ekki viljað láta binda mig þagnarheiti og þess vegna fengið upplýsingar um málið annarsstaðar; mun jeg koma með þær fram hjer í hv. deild. Bið jeg hæstv. forsrh. að leiðrjetta, ef jeg fer rangt með.

Mjer finst það mjög undarlegt, að þegar um ábyrgð er að ræða, sem skiftir mjög mörgum miljónum, þá skuli ekki mega minnast á það frekar en mannsmorð, hver upphæðin sje, — ekki hjer á Alþingi, sem á að vera sá vettvangur, þar sem þjóðin fái að vita alt um sín stærstu mál. Hver er eiginlega tilgangurinn? Hverju þarf að leyna? Það ætti þó ekki að verða til þess að minka lánstraust landsins, að hægt er að sýna, að við getum fengið stór lán.

Þá er ekkert sagt um vaxtakjörin. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þau sjeu svo ill í sjálfu sjer, að menn mættu ekki vita um þau. En hvers vegna er farið að með þessari leynd? Jeg hefi heyrt, að upphæðin, sem hjer er um að ræða, nemi 2 milj. dollara, eða rúmum 9 milj. króna, og vextir af þessu fje sjeu 51/2%; þóknun, sem greidd er í upphafi, er mjer sagt að sje 1/4%. Nú vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. fjrh., hvort þetta sje ekki rjett. Jafnframt því vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. ráðh., hver hafi haft með höndum samninga fyrir bankann, hvort það hafi verið einungis bankans starfsmenn, sendiherrann í Kaupmannahöfn, eða hvort það eru einstakir milligöngumenn, sem þá fái þóknunina.

Hæstv. fjrh. sagði, að það sje ekki verið að tala um að veita nýju fjármagni inn í landið, heldur aðeins reikningslán til þess að nota á mestu viðskiftamánuðum ársins. En eftir því, sem mjer er sagt, mun þetta ekki allskostar rjett; því að jeg veit ekki betur en að nú þegar hafi Landsbankinn verið að lána fyrir milligöngu hæstv. fjrh. um 1 milj. kr. til Íslandsbanka upp á þetta væntanlega lán. Þetta var þegar í byrjun ársins, áður en mestu viðskiftamánuðir ársins eru komnir. Þá kemur spurningin: Hvers vegna verður að taka lánið? Og verður að taka það fyrir Landsbankann sjálfan, eða er hæstv. fjármálaráðherra að nota Landsbankann sem millilið til þess að taka lán fyrir Íslandsbanka? Jeg beini þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh., hvort upptök að láni þessu sjeu frá Landsbankanum og stjórn hans. Og ef svo er, hvort það sje nauðsynlegt fyrir hann að fá lánið sem stendur — á þessum tíma árs. Jeg hefi heyrt það, að að minsta kosti Landsbankinn standi ekki svo illa að vígi, að hann geti ekki bjargað sjer sjálfur án þess að taka lán fyrst um sinn. Hinsvegar er það á margra vitorði, að Íslandsbanki hefir ekki getað veitt útgerðarmönnum það fje, er þeir þurftu til útgerðarinnar á vertíðinni. Mjer finst það mjög svo varhugavert, ef það er þannig í raun og veru, eins og lítur út fyrir, að lán þetta sje tekið fyrst og fremst vegna þarfar Íslandsbanka og að svo mjög sje þörfin rík, að það sje farið að veita honum meira lán úr Landsbankanum en verið hefir áður en lánið er fengið. Jeg hugsaði satt að segja, að hið opinbera, ríkissjóður og Landsbanki, væri þegar búið að sökkva svo miklu fjármagni í þann banka, að það yrði að minsta kosti ekki án undangenginnar rannsóknar lagt lengra út á þá braut.

Hæstv. fjrh. svaraði ekki neinu fyrirspurn hv. þm. Str. (TrÞ) um það, í hvaða skyni ætti að nota þetta lán. Og hann ljet svo, að það væri ekki að neinu leyti á valdi stjórnarinnar, hverjum bankinn veitti lán. Jeg hygg háttv. þingmönnum muni það ljóst, að hæstv. fjármálaráðherra (JÞ) hefir meiri áhrif á það, hverjum veitt eru lán úr Landsbankanum en nokkur annar, og upphæð lána. Þar með meina jeg ekki lán til einstakra manna, heldur til stærsta lántakandans hjá Landsbankanum, Íslandsbanka, sem hæstv. fjrh. virðist bera mest fyrir brjósti.

Í sambandi við þetta vil jeg loks spyrja hæstv. fjrh. um það, hversu stór reikningslán önnur Landsbankinn hefir. Það gæti gefið nokkra skýringu viðvíkjandi því, hvort það sje venja hjá honum að taka 9 milj. króna lán, eins og sagt er að þetta sje.