07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Halldór Stefánsson:

Af því að mjer virðist mega skilja svo ummæli háttv. frsm. fjhn. (KIJ) í þessu máli, að fjhn. hafi tekið afstöðu til efnisatriða þessa frv., þá vildi jeg lýsa yfir því fyrir mína hönd, að jeg skoðaði það alls ekki þannig. Jeg skildi það aðeins sem formsatriði, að fjhn. bæri fram frv. að ósk stjórnarinnar, og svo var líka frá því skýrt í upphafi. Það hefir verið nokkuð á reiki um þetta mál, eins og sjest af því, að hæstv. fjrh. hefir sjálfur borið fram brtt. við það upphaflega frv., sem hann lagði fram. Þegar menn voru farnir að athuga málið, kom það fljótt í ljós, að ýmsum þótti með frv. færast of ótakmörkuð heimild í hendur stjórnarinnar til lántöku. Og þótti mönnum þá mestu máli skifta að fá að vita sem glegst, á hvern hátt ætti að verja þessu láni. Það hefir nú komið í ljós við þessa umr., að þetta sje aðeins bráðabirgðalán, og að frv. sje ekki annað en formsatriði til staðfestingar því, sem áður hefir tíðkast. Jeg efa ekki, að lánið er hugsað sem bráðabirgðalán. En það er lítil trygging fyrir því, að svo verði í reyndinni. Ef hagur landsins þrengist úr því, sem er, þá er hætt við, að það geti orðið í reyndinni sem fast lán, þó að það að forminu til sje tekið sem bráðabirgðalán.

Það er að vísu svo, að þetta er aðeins formsatriði, en aðalatriðið er þó það að taka nýtt lán, sem ekki var þörf á áður. Að því leyti er þetta meira en formsatriði.

Af þeim umræðum, sem hjer hafa farið fram, og við það að kynnast málinu yfir höfuð, þá verður það altaf meira vafaatriði í mínum augum, hvort rjett sje að fylgja þessu máli.

Ástæðan til ábyrgðarheimildarinnar er þörfin á auknu lánstrausti erlendis, sem leiðir af þeirri kreppu, sem nú á sjer stað í atvinnulífi og hag þjóðarinnar. En ástæðan til kreppunnar er meðal annars einmitt sú stefna í gengismálinu, sem hefir verið rekin undanfarið. Og þá finst mjer þetta vera fullkomin aðvörun um það að reka ekki þessa sömu fjármálastefnu áfram, sem sekkur landinu dýpra og dýpra í skuldir og lántökur erlendis.

Mjer finst þess vegna máli skifta á þessu stigi málsins að fá að vita, hvort hæstv. stjórn heldur fast við sína fyrri, þektu afstöðu í gengismálinu. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú ekki þótt ástæða til að svara því í þessu sambandi, en jeg tel einmitt góðar og gildar ástæður til þess að tala um þetta tvent saman. Því að ef á að reka þessa sömu peningamálastefnu áfram, þá er viðhorfið það, að búast má við, að altaf verði þörf á meiri lánum vegna viðvarandi halla á rekstri atvinnuveganna. Og í sambandi við þetta mál og þessar umræður vil jeg fyrir mitt leyti sem festingarmanns afsala mjer allri ábyrgð á þessari lántöku.

Hæstv. fjrh. sagði, að hækkunarstefna sín bygðist á von um velgengni atvinnuveganna. Mikið gott. Þetta þýðir það, að liggja á velgengni atvinnuveganna svo langan tíma sem þarf til þess að hækka krónuna. En það er alveg ómögulegt að segja, hvað það verður langur tími. Eins og horfir nú við, virðist það geta dregist alllengi, kannske heilan mannsaldur, eða hver veit hvað. Og mjer þykir hætt við, að einstaklingar þjóðarinnar verði ef til vill orðnir ærið bölsýnir, þegar því stríði er lokið.

Jeg vil þá að endingu undirstrika spurningu hv. þm. Str. til stjórnarinnar um það, hvort hún hugsi sjer að halda fast við sína fyrri stefnu í gengismálinu. Svar hennar við því verður það aðalatriði, sem jeg byggi á mína endanlegu afstöðu til þessa frv.