09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Háttv. þm. Str. þykir þetta mál hafa hraðan gang gegnum þingið, en það hefir ekki haft hraðari gang hingað til en það, sem rjett er samkvæmt þingsköpum. Það er full vika síðan frv. var útbýtt í þinginu, og þótt því hafi verið leyft með afbrigðum að komast að 1. umr., þá hefir orðið lengra bil milli umræðna en lög standa til, svo að háttv. þm. Str. hefir haft fult tækifæri til að setja sig inn í málið. Jeg mótmæli því þess vegna algerlega, að þetta mál hafi verið sótt með nokkru offorsi, eða að því hafi verið hraðað mjög. Jeg gerði það hv. þm. Str. til geðs í gær að fara fram á það við hæstv. forseta, að þetta mál yrði ekki látið ganga fyrir öðrum málum, sem hjer voru á dagskrá. Annars er það svo, að æðimargir verða að sætta sig við það að taka mikilsvarðandi ákvarðanir án þess að hafa heila viku til athugunar og umhugsunar. Þá væri margt óskeð í heiminum, sem gott hefir verið gert, ef þeirri föstu reglu væri fylgt að taka aldrei ákvörðun með styttri undirbúningi en þingsköp okkar telja hæfilegan. Það þarf engum að koma á óvart eftir verkefni Alþingis, þótt það beri við, að Alþingi verði að taka ákvörðun svo fljótt sem kringumstæðurnar heimta, eða á skemri tíma en þingsköpin mæla fyrir. Hv. þm. Str. greindi á við mig um það, hvort hjer væri um fast eða laust lán að ræða. Jeg býst nú ekki við, að jeg geti gefið honum þá fræðslu, sem honum dugir, er jeg sje þann litla árangur, sem fræðsla mín við 2. umræðu hefir borið. Þau föst lán, sem hingað til hafa verið tekin erlendis, eru tekin með öðrum hætti. Þau eru óuppsegjanleg af hendi lánveitanda á meðan skuldunautur stendur í skilum með vexti og afborganir; en um vexti og afborganir er gerður samningur, bæði um upphæð vaxtanna og á hve mörgum árum afborganirnar eiga að greiðast. Enska lánið, sem tekið var 1921, átti þannig að greiðast á 30 árum, en lánið, sem Landsbankinn tók í London 1924, átti að greiðast á 20 árum. Þetta eru föst lán, og það hygg jeg, að flestum muni vera ljóst. En laus eru þau lán kölluð, sem ekki er gerður um slíkur samningur, en gert er ráð fyrir, að skuldunautur borgi þegar lánveitandi krefst, og ef lánveitandi gengur ekki eftir því, þá þegar kringumstæður skuldunauts leyfa. Það er ekki samið um afborganir.

Jeg hefi aldrei sagt, að nota ætti þetta lán til þess að borga gamlar skuldir. Jeg hefi sagt, að það gæti verið, að eitthvað af því yrði notað til þess að greiða áfallnar skuldir og eitthvað af því kæmi í stað notaðra eða ónotaðra reikningslánsheimilda Landsbankans við aðra erlenda banka. Það er t. d. svo, að einn af viðskiftabönkum Landsbankans í Kaupmannahöfn hefir komist í kröggur og undir umsjón ríkisins, og má búast við, að reikningslánsheimild, sem Landsbankinn hefir þar, verði færð niður vegna samdráttar bankans. Hinsvegar er ekki hægt að deila um spár hv. þm. Str. um það, hvenær hægt verði að greiða lánið. Það væri óþarfi, ef jeg færi hjer ofan á málalengingar hans um þetta efni að leiða getur að því, hvenær hægt væri að greiða þetta lán, eða að hve miklu leyti væri hægt að komast hjá að nota það. Jeg vjek lítið eitt að þessu við 2. umr. málsins. Jeg tel víst, að um þetta fari svipað og áður, að eftir að þröngt hefir verið í búi hjá atvinnuvegum landsins um nokkurn tíma, þá rýmkist til aftur. En þegar aftur rætist úr um atvinnuvegina, þá verðum við færir um að borga upp öll okkar rekstrarlán og meira til. Jeg segi ekkert um, hvort þetta verður innan 12 mánaða eða lengri tíma. En það er ekki nægilegt að hafa ábyrgðarheimildina til eins árs, því að ekki er hægt að fullyrða nema þurfi að nota hana lengur.

Þá mintist hv. þm. Str. á gengismálið. En gengismálið er þessari ábyrgðarheimild með öllu óviðkomandi, nema ef menn vilja líta svo á, sem þessi lántaka sje liður í því, að hindra lækkun krónunnar úr núverandi gengi. Þess vegna ætla jeg ekki að fara að spilla þeirri ánægju, sem hv. þm. kunna að eiga von á, þegar stýfingarfrv. þessa hv. þm. kemur til umræðu, með því að fara að tala um gengismálið að þessu sinni.

Þá vil jeg mótmæla því, sem háttv. þm. Str. sagði, að það færi eftir mati ráðherra, hvenær atvinnuvegirnir þoli hækkun krónunnar. Þetta hefir ekki verið svo og verður ekki svo eftirleiðis. Það eru seljendur og kaupendur gjaldeyris, sem meta í viðskiftum sín á milli verð á erlendum gjaldeyri og ákveða þar með gengi hinnar íslensku krónu. Jeg gat þess við 2. umr., að afskifti stjórnarinnar af því máli milli þinga hafi ekki verið önnur en þau, að hafa hemil á því, að krónan hækkaði ekki meira en svo, að atvinnuvegirnir gætu risið undir því. Jeg vil bæta því við, að það er líklegt, að þessu þingi auðnist að afgreiða lög, sem losa stjórnina við afskifti af einni hlið bankamálanna. Jeg á við lögin um seðlabankann. Ef þau lög verða afgreidd, þá verður þar með sett framkvæmdarstjórn og bankaráð yfir seðlabankann, og sú hlið peningamálanna, er að seðlaútgáfu lýtur, kemur þá undir þau stjórnarvöld bankans. Þá er því síður ástæða til þess, að ráðherra sje matsmaður milli kaupenda og seljenda gjaldeyris.

Hv. þm. kvartaði undan því, að jeg hefði ekki sýnt neinn lit á því að koma á móti sjer í því efni, hvernig fjenu væri ráðstafað. Á þessu sviði er hv. þm. búinn að króa sig svo inni, að honum er engin útkomu von. Hjer er um það að ræða að útvega Landsbankanum aðgang að lánsfje, og það er Landsbankastjórnin ein, sem ráðstafar fjenu. Þessi hv. þm. hefir nú lýst trausti sínu á þessari bankastjórn og kveðst ekkert hafa yfir því að kvarta, hvernig hún hafi skift fjenu á milli atvinnuveganna. Að vísu var hann til þess neyddur af mjer að gefa þessa traustsyfirlýsingu. Jeg gat þess við 2. umræðu þessa máls, að annaðhvort yrði hann að lýsa trausti sínu á stjórn Landsbankans, eða þá að játa, að hann hefði vanrækt skyldur sínar sem endurskoðandi bankans, með því að gera landsstjórninni ekki aðvart, ef honum mislíkaði eitthvað. Hv. þm. tók nú þann kostinn, sem viturlegri var, og lýsti trausti sínu á Landsbankastjórninni og tók þar með aftur þær ásakanir, sem hann hefir borið fram ár eftir ár, bæði utan þings og innan, um það, að bankarnir skiftu fjenu misjafnt milli atvinnuveganna.

Þegar þessi hv. þm. fer að ásaka stjórnina fyrir ráðstöfun á enska láninu 1921, þá skýtur hann framhjá markinu. Lánið skiftist þannig á milli bankanna, að Landsbankinn fjekk 80 þús. sterlingspund, en Íslandsbanki fjekk 280 þús. sterlingspund, til þess að greiða áfallnar skuldir. En síðar var tekið lán, 200 þús. sterlingspund, sem alt gekk til Landsbankans, svo það er alveg jöfn upphæð, sem báðir bankarnir hafa fengið.

Hv. þm. komst nú strax í mótsögn við sjálfan sig eftir að hann hafði gefið stjórn Landsbankans traustsyfirlýsinguna. Hann kvaðst ekki geta treyst því, að lánsfjeð yrði ekki misnotað til þess að auka strauminn úr sveitunum til kaupstaðanna. Jeg verð að endurtaka það enn: Landsbankastjórnin ræður ein yfir því, hvernig þessu lánsfje verður varið. Jeg vona því, að hv. þm. geri aðvart, þegar hann sjer spár sínar um misnotkun fjárins rætast. Það er tilhæfulaust með öllu, að jeg sem formaður bankaráðs Íslandsbanka muni ráðstafa að nokkru leyti því fje, sem Landsbankinn kann að nota af þessari reikningslánsheimild. Jeg kann ekki við að heyra, án þess að mótmæla því, að þetta fje muni verða misnotað í þarfir atvinnuvega kaupstaðanna, en þannig fórust hv. þm. Str. orð. Þó allir láti sjer ant um, að landbúnaðurinn rjetti við úr þeim kút, sem hann er nú í, þá má þó eigi telja það misnotkun, þó atvinnuvegir kaupstaðanna fái nauðsynlegt og naumlega skamtað rekstrarfje. Á því hljóta líka vonir hv. Str. um viðreisn landbúnaðarins að byggjast. Hv. þm. telur enga von til þess, að landbúnaðurinn rjetti úr kútnum, nema hann njóti styrks af opinberu fje. Nú getur þessi styrkur af opinberu fje ekki komið frá þeim atvinnuvegi, sem hjálpa á, heldur hinum. En þá verður líka að halda honum við, svo hann verði aflögufær.

Þá kem jeg að brtt. hv. þm. Str. á þskj. 139. Skýring hans á brtt. er í fám orðum sú, að Íslandsbanki megi ekki fá neitt af þessu lánsfje, þótt slíkt felist nú reyndar alls ekki í tillögunni. Hann gaf þá ástæðu fyrir þessu, að hann gæti ekki greitt atkv. með ábyrgðarheimildinni, ef ekki væri með öllu fyrir það girt, að Íslandsbanki fengi nokkurn hluta af fjenu, vegna þess að hann væri ekki endurskoðandi Íslandsbanka og því ekki nógu kunnugur hag hans til þess að vilja bera ábyrgð á því, að hann fengi eitthvað af fjenu í hendur, án þess þó að hann vantreysti honum. Jeg vil nú segja hv. þm. Str. það, að jeg held, að það sje óhætt fyrir þm. að greiða atkvæði um þetta frv. eftir því, hvort þeir trúa Landsbankastjórninni fyrir fje eða ekki. Þótt stjórn Landsbankans kynni að trúa Íslandsbanka fyrir einhverjum hluta af fjenu, þá mega þeir, sem treysta stjórn Landsbankans, vera ánægðir.

Um brtt. á þskj. 139 er annars það að segja, að hún er þess eðlis, að ógerlegt er að samþykkja hana. Ef hún verður sett inn í frv., svo sem þskj. segir, þá er heimild stjórnarinnar til þess að ábyrgjast lánið bundin skilyrði, sem ekki er á færi lánveitanda að fullnægja. Þegar heimild er veitt til lántöku, þá verður sú heimild að vera hrein. Hún má a. m. k. ekki vera öðrum skilyrðum bundin en þeim, sem lánveitandi getur haft vald yfir. Þetta hljóta allir að skilja. Það má ekki gera heimildina svo úr garði, að ef einhver ráðherra úti á Íslandi hegðar sjer öðruvísi en honum er ætlað að gera, þá verði heimildin ógild gagnvart lánveitanda. Heimildin verður að vera þannig úr garði gerð, að unt sje að nota hana. Þó ekki væri annað en þetta við brtt. að athuga, þá væri það ærið nóg til þess, að ekki væri hægt að samþykkja hana. En auk þess er annað atriði, sem snýr að efni þessarar einu línu, sem hv. þm. Str. vill bæta inn í frv. Brtt. hljóðar þannig: „enda sje hið nýja lánsfje eingöngu notað í eigin þarfir Landsbankans.“ Hvað eru „eigin þarfir“ Landsbankans? Það er rekstrarkostnaður hans, laun bankastjórnar og starfsmanna, laun hv. þm. Str. sem endurskoðanda“ hiti, ljós, ræsting o. fl. þess háttar. Jeg get nú fullvissað hv. þm. Str., að engum dettur í hug að nota einn eyri af láninu í þessar eigin þarfir Landsbankans. Það fer alt til viðskiftavina Landsbankans, og svo nota þeir það í sínar þarfir. Mjer skilst nú reyndar, að það hafi verið meining hv. þm. Str., að lánið gengi til viðskiftavina Landsbankans, þótt hann orði þetta svona klaufalega, en tilætlun hans sje sú, að útiloka suma þeirra, svo sem Íslandsbanka. En þessum tilgangi hv. þm. er alls ekki hægt að ná með þessari brtt. Þessi reikningslánsheimild er ekki nema óverulegur hluti af því fje, sem Landsbankinn hefir yfir að ráða. Hvað stoðar það þá, þótt Landsbankanum sje bannað að láta einn af viðskiftavinum sínum fá peninga af þessu láni, þegar honum er frjálst að veita honum lán af öðru fje sínu? Það er ekki líkt farið um peninga og kýr. Það er hægt að segja við kýrnar: Farðu á þennan bás, Skjalda, farðu á hinn básinn, Skrauta! — En peningar eru hlutir, sem ekki þekkjast hvorir frá öðrum, og það er ókleift að vísa þeim á ákveðna bása eins og kúnum.

Jeg vil því leyfa mjer að sýna hv. þm. Str. þá vinsemd að skora á hann að taka þessa brtt. sína aftur. Hún er hvorki að efni nje formi frambærileg og nær alls ekki þeim tilgangi, sem mjer skilst, að hann ætlist til, að hún nái.