09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Það virðast vera tvö atriði aðallega rædd nú. Annað það, að 9 milj. króna reikningslánið, sem á að ábyrgjast, eigi að vera til þess að tryggja gjaldeyri þjóðarinnar að einhverju leyti frá að falla. Jeg segi fyrir mitt leyti, að að því leyti sem lánið yrði til þess notað, sæi jeg ekki ástæðu til að vera á móti því. Það væri hlutur, sem jeg álít sjálfsagt að gera. Svo er síðara atriðið, hvernig peningunum verður varið. Það hefir greinilega skinið gegnum umræðurnar, hvers vegna nú hefir verið farið fram á að fá þetta lán. Það kann að verða síðar á árinu, að þörf þætti á gengisláni. Nú sem stendur er lánsþörf ekki til staðar, nema að því leyti, að annar banki landsins er fjárvana. Og það er eins og allir vita útgerðin, sem hvílir á Íslandsbanka, sem nú þarf að fá fje fyrir vertíðina. Það er alkunnugt, að undanfarið hefir það verið svo um Íslandsbanka, að um yfirfærslur hefir ekki verið þar að ræða nema fyrir milligöngu Landsbankans. Það sýnir, að Íslandsbanki er búinn að eyða sínu lánstrausti erlendis nú, þegar í byrjun ársins. Þá kann að vera spurning um, hvað eigi að gera. Jeg verð að segja fyrir mitt leyti, að jeg álít það heppilegri leið að fara ekki lengra í að lána Íslandsbanka en orðið er, en Landsbankinn tæki að sjer lífvænleg viðskifti frá Íslandsbanka og tæki þau beint sjálfur, veldi úr þeim útgerðarfjelögum, sem þurfa að fá lán hjá Íslandsbanka, þau er honum virtist von um að rjetta við fjárhagslega, en skildi hin eftir. Íslandsbanki yrði þá að bjarga sjer eins og best gengi og útvega sjer nýtt rekstrarfje, ef hægt væri, á sama hátt og aðrir bankar, sem eru eign einstaklinga.

Það hefir verið skýrt frá því af öðrum þm., að 6 milj. kr. hefðu verið teknar út af innlánum Íslandsbanka síðastl. ár. Er óhætt að segja, að mestur hlutinn af innlánsfje þess banka sje því þorrið nú. Það rekstrarfje, sem hann hefir frá öðrum en hinu opinbera, er því ekki neitt að ráði annað en það, sem kann að vera eftir af höfuðstólnum. Hæstv. forsrh. sagði það með öllu rangt vera, að bankinn vægi salt milli lífs og dauða. Jeg vil taka hæstv. forsrh. trúanlegan í þessu efni fyrst um sinn, þar sem ekki er aðrar sannanir að fá. En hitt mun þó rjett vera, að það er ekki nema lítill hluti af hlutafjenu, sem bankinn hefir til rekstrarfjár, enda eru hlutabrjef bankans ekki skráð á meira en 34 kr. hverjar hundrað krónur, og munu þó síst vera of lágt skráð. Aðalrekstrarfjeð, sem Íslandsbanki hefir nú, er 12 milj. kr. lán úr ríkissjóði og Landsbankanum, og það þykir ekki nóg. Nú á að fara að auka við nýjum lánum frá hinu opinbera. Með öðrum orðum: Íslandsbanki er með þessum framhaldandi lánum aðeins að verða að útibúi Landsbankans hjer, en þó með þeim mismun, að hann heldur áfram að vera „prívat“banki, en ekki undir opinberri stjórn. Jeg er þeirrar skoðunar, að slíkt fyrirkomulag sem þetta sje ekki hagkvæmt. Reikningur Íslandsbanka sýnir það á síðari árum, að stórtöp hafa orðið á rekstri bankans, og síðastliðið ár er kunnugt, að tapast hafa margar miljónir króna á Vestfjörðum. Ástæðan til þessa mikla tjóns er sú, að bankinn hefir veitt of stór lán til einstakra lántakenda, sama ástæða sem fyr olli mestu tapi bankans á fiskhringnum fræga. Það sjest því ekki, að hin nýrri stjórn bankans hafi verið varkárari en hin eldri. Í þessu efni hefir stjórn Landsbankans verið varkárari, hefir dreift meira áhættunni, og er því ekki ástæða til að hlynna að því, að Íslandsbanki hafi meira fje en hann getur aflað sjer án opinberrar aðstoðar.

Þá er þess að geta, að útlánsvextir Íslandsbanka eru stöðugt 1/2% hærri en Landsbankans til samskonar lána, og gerir því yfirfærsla fjárins úr Landsbankanum yfir í Íslandsbanka almenningi lánin dýrari en ella, og er hjer enn ein ástæðan til að sýna, að Íslandsbanki er ekki hollur milliliður um fjármagnið.

Með till. hv. þm. Str. (TrÞ) er einskorðað, að ábyrgðin verði notuð eingöngu handa Landsbankanum sjálfum. Jeg hefði kosið heldur, að þetta hefði verið orðað skýrara, þannig að Landsbankinn yki ekki lán sín til Íslandsbanka fram úr þeirri upphæð, sem verið hefði lánuð á sama tíma í fyrra, en tel þó eftir skýringum hv. framsögumanns, að sami skilningur verði lagður í tillögu hans og mun því greiða henni atkv., en falli hún, mun jeg greiða atkv. á móti frv.