09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla ekki að gera nema nokkrar athugasemdir.

Mjer fanst það óviðeigandi af hæstv. forsrh. að drepa á það, að hjer hefði verið hafðar málalengingar í frammi. Hæstv. forsrh. verður að vita það, að ekki er hægt hjá því að komast að tala um gengismálið um leið og talað er um þetta mál, því að þau grípa hvort inn í annað.

Jeg ætla einkum að minnast á það, sem hæstv. ráðh. vjek að viðvíkjandi síðustu gengishækkun. Hann hjelt því fram, að jeg segði það ósatt, að hann hefði verið valdur að gengishækkuninni. En hann kannast við, að hann hafi ekki leitast fyrir um ráðstafanir til að hindra hækkunina. Hann játar, að hann hafi ekki gefið Íslandsbanka tryggingu fyrir að fá þá seðla, sem hann hefði þurft til þess að geta keypt sterlingspundið á 26 krónur. Hann játar, að hann hafi ekki orðið við kröfum okkar um að kalla saman aukaþing. Hann játar yfirleitt, að hann hafi ekki beitt þeim ráðum, sem hann hafði í hendi sjer, til þess að koma í veg fyrir gengishækkun. Og hvað er það annað en að hann hafi orðið valdur að hækkuninni?

Þá þarf jeg að segja örfá orð út af ummælum hæstv. ráðh. um afstöðu okkar til landbúnaðarins. Hann sagði, að jeg hefði ekki trú á framtíð landbúnaðarins nema hann fengi gjafir. Jeg mótmæli þessu algerlega. Og mig furðar, að hæstv. ráðh. skuli dirfast að kasta því fram, að landbúnaðurinn hafi fengið gjafir. Nei, þeir, sem hafa fengið gjafir úr opinberum sjóðum, eru mennirnir við sjóinn. Það eru þeir, sem sökt hafa í sjóinn miljónum eða tugum miljóna, eins og reikningar bankanna sýna. Og jeg sje eftir þeim gjöfum, — því að hvað hefir komið í staðinn?