09.03.1927
Neðri deild: 25. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er aðeins örstutt athugasemd. Jeg veit, að hv. þdm. skilja allir, og hv. þm. Str. (TrÞ) líka, að það er alt annað að neita að hindra straum eða hreyfingu eða rás viðburða, eða þitt, að vera orsök þess straums eða viðburðarásar. (MT: Þar er nú vant milli að sjá). Jæja, er það erfitt fyrir hið löglærða yfirvald Árnesinga? Jeg vona þó, að hann hafi rekið sig á það í sinni fræðigrein, að víða er gerður átakanlegur munur á þessu tvennu.

Jeg sagði ekki, að landbúnaðurinn hefði fengið gjafir. Hv. þm. Str. kvartaði yfir því, að hjer hefðu verið drepin frumvörp fyrir sjer á fyrri þingum, sem miðað hefðu landbúnaðinum til gagns. En alt slíkt, sem drepið hefir verið, hefir verið með því sama marki brent, að það hefir verið farið fram á gjafir handa landbúnaðinum. Við höfum verið sammála þar, sem veitt hefir verið fje án þess gjafir fylgdu. Stefnumunur okkar er sá, að hann trúir ekki á, að landbúnaðurinn geti þroskast af eigin krafti. Við getum verið sammála um ýms framlög til þess að ýta af stað hreyfingu, sem við báðir óskum eftir, en við höfum mismunandi traust á því, hvað fengist geti.