17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi að vísu, á þskj. 193, gert nokkuð ítarlega grein fyrir skoðun minni í þessu efni, eftir því sem tími gat unnist til, en jeg get þó ekki komist hjá því, þar sem þetta er langstærsta fjármálið, sem liggur fyrir þinginu í vetur, að fara um það nokkrum orðum, til þess að hæstv. fjrh. (JÞ) geti gefist tækifæri til þess hjer í deildinni að skýra málið nokkru nánar. Það hefir nokkuð verið drepið á það af hv. frsm. meiri hl. (BK), að það hvíldi hula yfir þessu máli, og verð jeg að staðfesta það álit. Þetta er í sjálfu sjer þannig, að það er verið að taka það stærsta lán, sem tekið hefir verið af íslensku þjóðinni frá því að enska lánið var tekið 1921. Þó er því svo varið um þá aðilja, sem nú koma til greina, beint eða óbeint, að enginn þeirra sýnist þurfa þessa láns með, eða þeirrar ákveðnu upphæðar, sem hjer er farið fram á. Vil jeg fyrst taka Landsbankann, sem ranglega virðist vera álitinn þurfandi fyrir þetta lán. Hann virðist ekki hafa játað, að lántakan væri gerð vegna sín eða að hann þyrfti þessa láns með. Landsbankinn er nú, sem betur fer, þannig staddur, að það sýnist ekki vera nein brýn þörf fyrir hann að taka nú lán. Jeg hefi fengið upplýsingar um það síðan nál. var skrifað, að Landsbankinn muni hafa að minsta kosti sem svarar 4 miljónum króna af handbæru fje nú af viðskiftaláni sínu í næstu löndum, og ef ekki væri leitað á hann með neinar óvænlegar þarfir, þá getur maður ekki búist við öðru en að þetta væri nóg handa honum til þess að geta int af hendi sínar skyldur, þangað til gjaldeyrir fer að streyma inn fyrir framleiðslu þessa árs og vörur frá fyrra ári, sem nú eru að seljast. En nú kemur það í ljós, að Landsbankinn sýnist ekki hafa neitt með þetta mál að gera, og landsstjórnin ekki heldur, svona á yfirborðinu. Og þá kemur þriðji aðilinn, og það er Íslandsbanki; hann mun hafa snúið sjer til landsstjórnarinnar og beðið um nokkra aðstoð, eins og hann gerði á þinginu í fyrra. Þá var haldinn fundur fyrir lokuðum dyrum um það, að Alþingi veitti Íslandsbanka nokkra aðstoð, sem og var gert. En jeg get sagt það, að þegar á nefndarfundi var verið að leita að skýringu á þessu máli, og þegar bankastjórar Íslandsbanka voru viðstaddir, og þegar umtalið barst að því, hver hefði beðið um þessa upphæð, þá tók einn bankastjórinn það fram, að það dytti þó engum í hug, að það þyrfti að taka margra miljóna króna lán, þótt hann þyrfti sem svaraði einni milj. kr. með; og jeg er samdóma bankastjóranum í þessu. Ef Íslandsbanki þarf ekki með nema sem svarar einni miljón, þá er ástæðulaust að taka 9 miljónir. Jeg hefi haldið mjer að þeirri einu tölu, sem komið hefir fram hjer opinberlega og sem stjórnin hefir ekki mótmælt. Jeg get mint á það, að fyrr í kreppunni komu tveir hv. þm. í Nd. fram með þá uppástungu, að stjórninni væri veitt heimild til þess að taka 15 milj. kr. lán, og á þinginu 1923, að stjórnin mætti taka 4 milj. kr. lán, og var tiltekið, til hve langs tíma, svo að þingið hefir gefið það fordæmi og gert ráð fyrir því sem sjálfsagðri skyldu, að það væri beinlínis tekið fram í hvert skifti, hve stór ábyrgðin ætti að vera. Jeg álít þess vegna, að þessi hula, sem er yfir láninu, geti ekki stafað af öðru en því, að stjórnin er hjer með einhverjar ráðagerðir, sem hún vill ekki setja þingið inn í. Það er sem sje óhugsandi, að lánið sje tekið vegna Íslandsbanka, sem þarf ekki nema litla hjálp, og óhugsanlegt, að það sje gert vegna Landsbankans, sem bersýnilega hefir þess ekki þörf fyrst um sinn. Þá er ekki nema landsstjórnin eftir, og jeg geri ráð fyrir því, að hún búist ekki við að nota þetta lán í eyðslueyri. En það er annað til; það getur verið, að landsstjórninni sje ekki ókunnugt um það, í hvaða ástandi atvinnuvegirnir eru, eftir þá framkomu, sem hún ber ábyrgð á og sem hún hefir haldið fram með miklu stolti og dirfsku í blöðum sínum og ræðum hjer, að væri sitt verk. Það eru ekki nema eitthvað tveir mánuðir síðan hæstv. forsrh. birti mönnum þann boðskap sinn um nýja krónuhækkun. Þrátt fyrir það þó að allir sjái, að við erum á leiðinni norður og niður hvað atvinnulífið snertir, gaf hann atvinnuvegunum vonir um það, að það skyldi verða haldið áfram í sama anda og verið hefir eins fljótt og hægt væri. Nú getur þess vegna verið, að landsstjórnin hafi það á bak við, að hún viti, að ástand atvinnuveganna er þannig, að þeir eru svo þjakaðir, að hún búist við miklum fjárhagslegum hörmungum í tiltölulega náinni framtíð, og þótt sú hætta sje ekki beint þannig aðsteðjandi fyrir bankana, að þeir geti sjeð það fyrir, og stjórnin ætli sjer að hafa þetta lán til taks, til þess að grípa til þegar alt annað hrynji, þá hefi jeg í þessu nál. sýnt allítarlega fram á, hvernig það hefir gengið síðan árið 1920, að stjórnin hefir altaf gripið til þess að taka stórt nýtt lán árlega, þegar alt ætlaði um koll að keyra hjer heima, og jeg verð að játa það, að það er að vísu nokkur framsýni hjá hæstv. stjórn að sjá það, að hún geti þurft 8–9 milj. króna lán til þess að jafna skakkaföllin, þótt við förum ekki út í þá sálma að ræða um það, sem hún vill og ætlar að gera, að koma krónunni upp um þá 19 gullaura, sem eftir eru, og það með þeim afleiðingum, sem menn vita, hverjar verða, eftir þeirri reynslu, sem á undan er gengin, þá virðist lántaka þessi vera gengislán.

Samkvæmt þessu þykir mjer sennilegast, að landsstjórnin sjálf vilji leggja mikla stund á að fá þetta lán, og í raun og veru hafi Íslandsbanki nokkra þörf fyrir það, en sem þó hefði mátt bæta úr með því, að ríkið ábyrgðist 1–2 milj. króna fyrir hann. Þá mætti þetta lán sparast, svo framarlega sem landsstjórnin gengi ekki með einhvern leyndan kvíða fyrir því hreti, sem hún á vofandi yfir sjer.

Jeg get hugsað mjer, þótt jeg sje algerlega mótfallinn þeirri stefnu og aðferð, sem stjórnin hefir haft, að greiða ekki atkv. á móti frv. við þessa umr. málsins, vegna þess að jeg vonast til, að stjórnin kunni að gefa einhverjar þær upplýsingar við 3. umr., að hægt verði að dæma framkomu hennar nokkuð mildara heldur en eftir þeim gögnum, sem nú liggja fyrir. Mjer þætti skaplegra; að tekið væri 1–2 milj. kr. að láni í eyðslueyri heldur en 9 miljónir, og jeg geri ráð fyrir, að ef stjórnin vildi gefa þinginu skýrslu um það, til hvers ætti að nota þetta lán, þá myndi þessari beiðni hennar verða tekið margfalt betur. En það er þó sjerstaklega annað, sem jeg frá stjórnarinnar hendi mundi meta svo mikils, að jeg yrði fáanlegur til að greiða atkvæði með þessu frv. Það væri sem sje sú yfirlýsing frá stjórninni, að hún væri alveg hætt við sína fánýtu drauma um gengishækkun. Þætti mjer tilhlýðilegt, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að þar sem atvinnuvegirnir þyldu illa það, sem komið væri, þá hugsaði hann sjer að festa gjaldeyrinn þar, sem hann nú stæði, og hjeti á stuðning jafnvel andstæðinganna, sem og rjett er að gera í slíku máli sem þessu, til þess að verjast, ef mögulegt væri, að krónan lækkaði aftur. Þetta er sú skýring frá landsstjórninni, sem rjettlætti það, að þjóðin legði á sig byrðar til þess að ekki yrðu stórar sveiflur og ró kæmist á aðalmál viðskiftalífsins, gengismálið, og atvinnuvegirnir gætu lagað sig eftir því. Jeg skal taka það fram viðvíkjandi öðru láninu, að allir viðurkenna þörf á fasteignaláni, ef það er hentugt og ekki þarf að kvíða óhentugri verðsveiflu á krónunni. En margir álíta vafasamt að lokka menn til þess að gera jarðabætur og húsabætur, ef skuldirnar hækka um 20% ofan á háa rentu.

Öll fjármálastarfsemi hæstv. forsrh. er bygð í lausu lofti. Og þótt stjórnin vilji ekki játa, að henni hafi yfirsjest, mun hún þó nauðug ganga þá braut, sem gerir henni örðugt að ná hugsjón sinni. En hver króna, sem tekin er að láni erlendis og verður eyðslufje, er nýr fjötur um fætur hækkunarmanna. Því meiri sem lánin eru og því meiri vextir, sem úr landinu fara, því minna verður álitið á fjármálum hinnar íslensku þjóðar út á við og því minna traustið á gjaldeyri landsins. Mjer finst fara illa á því, að stjórnin skuli ekki vilja gefa yfirlýsingu um þetta og leita stuðnings Alþingis til þess að rjetta við atvinnulífið, með því að festa verðgildi krónunnar. Jeg tek samt þögnina sem svar upp á það, að hún sje að fjarlægjast hækkunina. En hún er hjer að opna sjer aðra leið, sem fáa mun langa í, að minsta kosti ekki mig.

Þeirri skýringu hefir verið haldið fram, að bankarnir þyrftu ekki nema lítinn hluta af láninu. Það er nokkuð undarlegt og fremur ótrúlegt, að Ameríkumenn skuli aldrei vilja lána minna en 9 miljónir króna, eins og stjórnin virðist halda. Þetta minnir mig, í sambandi við ótrúleik þessarar að framleiðslan býr við það ástand, sem skapaðist þegar Íslandsbanki fór með seðlaútgáfuna. Þá er og verð afurðanna háð gengishækkuninni, og því hefir á endanum alt lánsfje og veltufje bankanna horfið í þessa stórkostlegu skuldahít. Jeg hefi þegar nefnt dæmi um það, hvernig framleiðslan er rekin með tekjuhalla öll þessi ár, nema 1924, og þó var harðæri það ár í nokkrum hluta landsins. Jeg hygg, að þetta sje alment játað. Hvað væri annars orðið af öllum þessum miljónum? Ekki hefir verið ráðist í nein stórvirki, fáar brýr bygðar, engin hafnarvirki gerð, engin járnbraut lögð eða vegir. Yfirleitt hefir, að frátöldu árinu 1926, en þá var unnið allmikið að byggingum o. fl., lítið verið gert af opinberum framkvæmdum. Engin önnur skýring er á þessu en að fjeð hafi farið í tekjuhalla atvinnuveganna.

Jeg get ekki komist hjá því að athuga dálítið, hvernig skuldirnar hafa upphaflega myndast. Kreppan byrjaði nú fyrir alvöru árið 1920. Þá lamaðist Íslandsbanki, og get jeg ekki sagt, að hann hafi rjett við síðan, jafnvel þó að 1921 væri samþykt að taka stórt lán til þess að fylla upp í hítina. — Jeg vona, að jeg geri ekki hæstv. atvrh. (MG) rangt til, þótt jeg segi, að hann hafi á þeim tíma verið á sömu skoðun og jeg er nú um það, að forðast bæri að taka lán. En þörfin var brýn. Og þá tók hann 1921 þetta voðalega lán, 10 milj. kr., með hörmulegum kjörum., En þetta fje varð eyðslueyrir ríkisins og hvarf í skuldir bankanna, einkum Íslandsbanka. Samkvæmt reikningum bankanna eru 8 milj. kr. óborgaðar af þessu láni, 6 milj. hjá Íslandsbanka, en 2 milj. hjá Landsbankanum. Sá hluti lánsins, sem Íslandsbanki fjekk, gekk eingöngu upp í þessa tegund skulda, þ. e. a. s. skuldir, sem mynduðust af tekjuhalla framleiðslunnar. Þetta var fyrsti þáttur kreppunnar, en bankinn var í jafnmiklum vandræðum eftir sem áður.

Næsta skuldaskrefið var stigið, er tveir þm. í Nd. báru fram á þinginu 1923 till. um 4 milj. kr. lántöku. Rökstuddu þeir till. með því, að lánið ætti að nota til þess að borga með lausaskuldir Íslandsbanka, en ekki skuldina við póstsjóðinn danska. Það er út af vandræðum bankans, að þessir tveir þm. (JakM og BJ f. V.), sem þá voru báðir bankaráðsmenn, biðja um ábyrgð ríkissjóðs fyrir þessu láni. Þá voru skuldir bankans orðnar 15 milj. kr., þegar hjer er komið, 6 milj. kr. af enska láninu, 5 milj. kr. skuld við póstsjóðinn danska og loks þessar 4 milj. í lausum skuldum. En alt þetta fje var horfið í tekjuhalla framleiðslunnar. En þrátt fyrir öll þessi lán, var ástand Íslandsbanka hörmulegt og loks varð hann ekki lengur fær um að gegna skyldum sínum sem seðlabanki. Þess vegna er á þingi 1921 byrjað að útvega Landsbankanum veltufje til að annast starf, sem Íslandsbanki hafði tekið að sjer og bar skylda til að annast. En stjórn bankans hafði hegðað sjer svo gálauslega, að þegar hún tók að sjer að sjá um yfirfærslur á gjaldeyri, var hún raunverulega að þrotum komin.

Þá er það, sem byrjað er að koma til Alþingis og biðja um ábyrgð þess. Það veitti hana í fjáraukalögum 1921, 11. gr., og verður ekki annað sagt en að gálauslega væri frá ábyrgðinni gengið og öll meðferð þingsins mjög vítaverð. Hún hefir getað orðið einskonar málafærslumannsátylla fyrir þær stjórnir, er síðan hafa viljað sniðganga þingið um þess háttar ábyrgðir, því að þarna er strax byrjað með að veita ótakmarkaða heimild.

Út á þessa ábyrgð var svo tekið 4 milj. króna reikningslán í Englandi. Jeg held, að bankanum væri gert rangt til, ef sagt væri, að hann þyrfti nú að taka nýtt lán sjálfs sín vegna. Það er áreiðanlega óhætt að fullyrða, að hann á innieignir í erlendum bönkum, sem svara þessari skuld.

Jeg hefi þingsins vegna viljað benda á það, að þessi sjúkleiki byrjar með ábyrgðinni í fjáraukalögum 1921. Það var stórgalli á ábyrgðarheimildinni, að hún var veitt í fjáraukalögum, sem aðeins gilda fyrir eitt ár í senn. En ábyrgðina hefir altaf þurft að endurnýja, og hefir það í raun rjettri verið gert í lagaleysi þangað til nú, ef þingið samþykkir þetta frv.

Jeg hefi nú skýrt frá lántökunum 1921, hvernig þeim var háttað. Þá voru tekin þrjú stórlán, enska lánið 10 miljónir, reikningslán Landsbankans á 5. miljón og póstsjóðsskuldin danska 5 miljónir.

Nú líður og bíður til ársins 1923. Þá vilja tveir bankaráðsmenn Íslandsbanka fá lánsábyrgð handa bankanum, svo að hann geti greitt lausaskuldir sínar. Alþingi vildi ekki veita þessa ábyrgð, en gerði nokkurn veginn það sama. Því að núverandi atvrh. (MG), sem þá var frsm. fjhn. í Nd., hjelt því fram fyrir nefndarinnar hönd, að heimild væri í fjáraukal. 1921 fyrir meiri lántöku en þá var gerð. Var samþ. dagskrá í þessa átt í deildinni.

Stjórnin bar sig nú borginmannlega og hjelt, að nú þyrfti ekki fleiri lántökur. En í ársbyrjun 1924 var krónan að hraðfalla og ástand atvinnuveganna ömurlegt. Þá var tekið nýtt lán, sem í reikningum Landsbankans er talið 4 miljónir króna. Það var tekið í London á ábyrgð ríkissjóðs og til 20 ára. Hefir ekki verið borgað af því meira en eðlilegt er eftir tímalengdinni. — Fyrir þessari lántöku var notuð sama lögskýring og notuð var nú í aths. frv. í Nd. Þó man jeg ekki betur en að þegar það lán var tekið, hafi verið þingtími eða komið fast að þingtíma. En virðingu þingsins var svo háttað, að stjórnin vildi heldur nota sjer dagskrána frá 1923 en spyrja Alþingi leyfis fyrir ábyrgðinni. Jeg verð að segja, að jeg álít mikla missmíði vera á því að ganga í slíka ábyrgð án þess að láta þingið svo mikið sem vita um hana fyr en eftir á. Þetta lán hefir ekki heldur verið borgað, en hefir runnið til atvinnuveganna og bæst við skuldirnar út á við.

Nú skyldi maður halda, að hægt hefði verið að nema staðar með lántökurnar, þegar rjett ofan í þetta lán kemur góðærið mikla 1924. Og síðan hefir ekkert bjátað á fyrir íslenskum atvinnuvegum annað en gengishœkkunin. Þetta hafa verið hagstæð fiskiár og nú er t. d. mildara veður á Íslandi en við Dónárósa. En þó kemur landsstjórnin enn á ný og fer fram á heimild til ábyrgðar. Því verður ekki neitað sögu, á aðra sögu, um húsaprangara hjer í Reykjavík, sem fór í síldarbrask árið 1919. Hann sagði, að Íslandsbanki hefði troðið í vasa sína 50 þús. til þess að fara í síld. Minna mátti hann ekki fá. Þetta fje tapaðist auðvitað alt, sem vonlegt var. Þessi skýring, að ekki sje hægt að taka nema stórlán, er afarósennileg. En líklegast er, að engir segi þetta nema miðlararnir, sem fá því meiri prósentur sem lánin eru stærri. Og ef stjórnin hefir trúað þessu, þá er von, að hún borgi með ánægju það fje, sem milligöngumennirnir fá í sinn vasa. Jeg vona, að hæstv. ráðh. (JÞ) misvirði ekki við mig þessi orð um prósentur, því að svo miklar og áberandi voru prósenturnar af enska láninu, sællar minningar, að jafnvel hjer í fásinninu vissi hver maður, hvað gerst hafði. Það er jafnvel haft eftir mikilsmetnum manni, sem nú er dáinn, en var við mál þessi riðinn, að það liti svo út, sem enginn vildi það lán nema hinir dönsku og íslensku milligöngumenn, sem gerðu sjer eymd landsins að fje.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. upplýsi nú þetta mál og skýri ástæðuna fyrir laununginni. Jeg vil benda á það, að nefndin spurði bankastjórana, sem komu á fund hennar, hvort líkur væru fyrir því, að hægt væri að halda leyndum meðal erlendra fjármálamanna lántökuskilyrðunum og upphæð lánsins, sem Landsbankinn ætlaði nú að taka. Þeir töldu engar líkur á því vera; menn mundu fljótt fá vitneskju um alla málavöxtu, ef við færum að taka lán erlendis. — Jeg sje ekki annað en þetta sje tilraun til þess að láta hina sönnu ábyrgðarmenn, kjósendur landsins, ekki fá að vita neitt um lánsupphæðina. Þetta er rangt eftir reglum þeim, sem gilda í „parlamentariskum“ löndum. Þetta er brot á frumreglum þjóðræðisstefnunnar og persónuleg móðgun við kjósendur, að halda leyndri fyrir þeim lánsábyrgð, sem stjórnin verður að leggja á herðar þeirra. Í tilefni af þessu vona jeg, þótt sú von sje nú allveik, að stjórnin geri hjer hreint fyrir sínum dyrum (svo að jeg nú ekki kveði fastar að orði), áður en málið kemur til endanlegrar atkvgr. Það finst mörgum fleirum en mjer, að hjer vanti enn aðalskýringuna. Það hefir komið í ljós hjá sumum íhaldsmönnum, að jafnvel þar er einnig beðið með óþreyju eftir þeirri skýringu.

Jeg býst við, að hæstv. forsrh. viti, að blöð þau, er styðja stjórnina, og stjórnin sjálf hafa verið óspör á loforðum um að rjetta við fjárhaginn. Það voru ekki liðnir nema 10 dagar frá því að stjórnin settist að völdum, þegar farið var að básúna út um bygðir landsins, að nú ætti að rjetta við fjárhaginn. Og það leit um eitt skeið út fyrir, að svo mundi verða, vegna þess meðal annars, að fyrsta árið, sem stjórnin sat við völd, urðu tekjur landsmanna helmingi meiri en árið áður, og kom það af hinu sjerstaka góðæri. Þá uxu og tekjur ríkissjóðs eðlilega mikið við þetta. Af þessu leiddi, að hægt var að minka skuldir ríkisins, meðfram líka af sparsemi Alþingis 1924 og hinum þungu sköttum, er þá voru lagðir á landsmenn. Jeg býst við, að mönnum, sem ekki hafa neinar yfirdrifnar hugmyndir um fjármálavit hæstv. fjrh. (JÞ), sje það ljóst, að það er ekki nóg að borga, segjum 8–10 milj. kr. af skuldum ríkissjóðs, ef svo er hrúgað upp öðrum hærri skuldum erlendis, stundum með hættulegri kjörum. — Jeg hefi álitið það skyldu mína — þar sem stjórnin aftur á móti hefir brotið skyldu sína með þessu pukri — að gefa hinum eiginlegu ábyrgðarmönnum, kjósendunum, ofurlítið yfirlit yfir hag landsins, og er það gert í nál. Mjer telst svo til, eftir gögnum þeim, sem fyrir liggja, að öll lánin, bæði þau, sem tekin hafa verið, og eins hin, sem stjórnin vill taka, komi til að nema í vor um 40–50 milj. kr. Einn liðinn, sem er skuld við póstsjóðinn danska, hefi jeg í varúðarskyni áætlað í ísl. kr., en vafi er um það, hvort ekki eigi að borga hana í dönskum kr., og gerir það nokkurn mun. Jeg mála því ástandið ekki svartara en það er. Þar að auki hefi jeg ekki tekið minni háttar skuldir lánstofnananna, sem til útgjalda kunna að koma fyrir þær eða jafnvel landið. Jeg tek það fram, að þótt landið eigi ekki Íslandsbanka, þá á það þó svo mikið hjá honum, að það mundi verða að hjálpa honum, jafnvel þótt vandræði hans kunni að aukast. Mjer finst nú ekki þessi 40 milj. kr. skuld benda til þess, að um viðreisn fjárhagsins sje að ræða. Mjer finst alt benda til þess, sjerstaklega þegar athugaður er tröppugangurinn í þessum lántökum, að Ísland hafi aldrei eftir 1874 verið jafnnálægt því að missa sjálfstæði sitt og verða undirlægja erlendra þjóða og einmitt nú. — Í raun og veru eru hinir sorglegu atburðir í fjármálalífi þjóðarinnar aðallega tveir, og eru þeir nátengdir framkvæmdum hæstv. stjórnar. Annar er hin hóflausa seðlaútgáfa Íslandsbanka fram að vorinu 1920, er náði þá hámarki sínu. En hinn er gengishækkunin 1924 og 1925. Þetta eru þeir tveir höfuðfarvegir, sem eyðslufje landsins hefir streymt eftir. — Fyrri atburðurinn, seðlaflóðið, olli dýrtíð, verðhækkun og fjárglæfrum, sem svo aftur leiddi af sjer fall krónunnar. Og svo hitt aftur á móti, að í stað þess að stöðva gildi krónunnar litlu ofan við lágmarkið og bjarga þannig við atvinnuvegunum, þá tók Landsbankinn og stjórnin þá stefnu að hækka kr., til ómetanlegs tjóns fyrir landið í heild sinni. Það er rjett að geta þess hjer, þar sem búast má við, að mönnum finnist ekki nál. vera hlýtt í garð Íslandsbanka, að bankastjórar þess banka skildu þó betur böl gengishækkunarinnar en forstjórar Landsbankans og fjrh. (JÞ). Vil jeg því bera Íslandsbanka það, að hin síðari villa sje ekki eins mikið honum að kenna og hinum aðiljunum.

Út af þessum tveim undirstöðum fjármálakreppunnar má nú draga ályktanir og skýra það, sem síðan hefir gerst. Seðlaflóð Íslandsbanka, sem þingið og stjórnin ljetu því miður viðgangast, skapaði þann óeðlilega verð- og kaupgrundvöll, sem síðan hefir verið. En þegar krónan hækkaði aftur 1924 og ’25, komu skuggahliðarnar í ljós og urðu skýrari með degi hverjum. — Jeg hefi reynt í nál. að gera það ljóst, enda hygg jeg, að ekki verði um það deilt, að þær milj., sem teknar hafa verið til láns, hafa farið í súginn vegna seðlaútgáfunnar og gengishækkunarinnar. Lánin eyddust í tekjuhalla, sem varð á framleiðslunni. En sá tekjuhalli stafar af því, að, að að þessu sinni vildi hún fara bak við þingið, svo sem fyrri daginn.

En, sem sagt, lántakan 1924 og góðærin síðan hafa ekkert megnað á móti þeim ormi, sem nagað hefir rætur atvinnuveganna, hækkun krónunnar. Jeg geri ráð fyrir, að það sje rjett, sem einn háttv. þingmaður í Nd. sagði, og hæstvirt landsstjórn ljet ómótmælt, að þetta lán sje nálægt 9 miljónum króna og þar af eigi Íslandsbanki þegar í stað að fá álitlega fjárhæð, og meira síðar gegnum endurkaup á víxlum. Jeg býst nú við, að menn geri sjer alment vonir um, að þetta verði síðasta stóra lántakan, sem þurfi að taka í tekjuhalla framleiðslunnar. En jeg sje hvergi nein skilríki fyrir því, að svo verði. Þvert á móti eru sömu ástæður enn starfandi sem áður hafa valdið halla á útgerð, bæði til lands og sjávar. Húsaleigan er t. d. svo há, að jeg hygg mig muna það rjett, að hæstv. atvrh. (MG) hafi sjeð sig knúðan til að skjóta því inn í viðtal, er blaðamaður átti við konu hans, er þau voru í Danmörku, að húsaleiga væri helmingi hærri í Reykjavík en í Kaupmannahöfn. Einu tilraunina, sem gerð hefir verið til að þrýsta niður húsaleigu í Reykjavík, gerði jeg árið 1923, er jeg bar fram frv. um það, að húsaleiga skyldi miðuð við fasteignamatsverð hússins. En þá brutu stuðningsmenn hæstv. núv. stjórnar niður þessa tilraun. Jeg hefi ekki sjeð ástæðu til að bera þetta fram á ný. Það er þeirra að bæta fyrir afglöp sín, sem ekki vildu þekkjast góð úrræði í tíma. — Því tel jeg sennilegt, að skuldasúpan sje enn ekki hætt að vaxa. Þessar 9 miljónir geta orðið fastar og sokkið í tekjuhalla framleiðslunnar eins og allar hinar miljónirnar. Hvað þá? Ef hæstv. fjrh. (JÞ) yrði svo ógæfusamur að vera enn í stöðu sinni eftir fá missiri og þyrfti þá enn á ný að leita til Alþingis um nýja lántöku, vill hann þá ekki segja, hvað við sjeum bættari með að taka ekki karlmannlega á kýlunum þegar í stað? Er nokkur bættari með því, þótt nú sje enn á ný sukkað nokkrum miljónum, áður en gripið er til þeirra ráða, sem til þarf að grípa fyr eða síðar?

Jeg hefi í nál. mínu látið skína í það, sem jeg vil nú gera gleggra. Ef hjer væri betra skipulag á fjármálunum, eins og t. d. hjá Þjóðverjum, væri kannske hægt að líta með góðum vonum til framtíðarinnar. En þar sem ekki blasir annað við en að láta tekjuhallann halda áfram og sökkva ennþá útlendu lánsfje, þá sje jeg ekki glæsilegar framtíðarvonir. Jeg sje ekki, að núverandi stjórn sje trúandi fyrir nýjum lánum, sem eiga að liggja á eftirkomendum vorum eftir að saga núverandi stjórnar er ekki orðin annað en löngu liðin raunasaga.

Í þeim raunum, er nú dynja yfir þetta land, er það að vísu lítil, en þó nokkur huggun, að þeir útlendu fjármálamenn, sem stjórnin hefir staðið í samningum við, hafa komið þannig fram, að þess má vænta, að framvegis verði bæði þing og þjóð betur vakandi í þessum málum. Þessir amerísku bankamenn, sem leitað var til, neituðu að taka gilda ábyrgð hæstv. landsstjórnar án þess að hún sýndi löglegt umboð frá Alþingi.

Það er nú von mín, að þetta verði síðasta lánið, sem tekið verður hjer á landi í skipulagsleysi og að hjer eftir verði engin landsstjórn á Íslandi svo djörf að nota fjáraukalög eða dagskrá, eða aðeins sína eigin ímyndun, að bakhjarli fyrir lántöku. Jeg hygg, að hjer eftir verði svo frá gengið, að leita þurfi samþykkis Alþingis í hvert sinn. Lántökurnar eru nógu slæmar, þótt löglega sje frá þeim gengið.

Jeg hefi í nál. mínu bent á, að eina vonin til þess, að þetta lán verði ekki til eins mikillar óhamingju og á horfist, sje sú, að Landsbankastjórnin gæti alveg sjerstakrar varfærni um meðferð fjárins. Þar sem Landsbankinn hefir ennþá nokkrar miljónir upp á að hlaupa erlendis, en þessi nýja lántaka vekur almennan kvíða í landinu, þá verður að vænta þess, að stjórn bankans noti lánið þannig, að hægt verði að standa við allar skuldbindingar. Og jeg treysti því, að bankastjórnin sjái, að það er enginn velgerningur við landið að láta undan þeirri ásókn, sem hún fær úr mörgum áttum, að styðja framleiðslu, sem ekki getur borið sig. Einhverntíma verður að gera upp þennan skuldareikning.

Þegar háttv. frsm. meiri hl. (BK) talar um aðhald og aukna tryggingu, þá er jeg honum sammála um, að það væri mjög æskilegt. En jeg er ekki svo bjartsýnn, að mjer komi til hugar, að neins þvílíks sje að vænta frá núv. hæstv. landsstjórn.

Jeg geri ráð fyrir, að jeg geti að þessu sinni látið staðar numið. Tilgangur minn með þessari ræðu og nál. á þskj. 193 hefir verið að opna augu hv. þd. og allrar þjóðarinnar fyrir þeirri hættu, sem vofir yfir þjóðinni. Er það von mín, að þetta verði síðasta tekjuhallalán, sem tekið verður í okkar tíð.