17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg held, að hjer þyrfti ekki að búast við mjög löngum umræðum, ef aðeins væru ræddar frumvarpsgreinarnar; þær eru ekki svo margar. Þó verð jeg að víkja ögn að sjálfu frv. og orðalagi þess. Einnig verð jeg að ræða um form frv. og launung þá, sem um það hefir verið. — Það er alveg einstakt, að nokkur landsstjórn hafi búið mál eins illa undir og þetta. Fyrst fær hún hv. fjhn. Nd. til að flytja frv., eins og stjórnin vill, að það sje úr garði gert. En við 2. umr. umturnar stjórnin síðan öllu frv., svo að vart stendur stafur eftir af því. — Um form frv. hefi jeg það að athuga, að nafn bankans, sem lánið skal tekið hjá, er nefnt í frv. Jeg óska að vísu ekki, að nafni bankans sje haldið leyndu. En þetta lán er veitt aðeins til eins árs. Hugsum okkur, að bankinn vildi ekki endurnýja lánið og yrði að flytja það yfir í nýjan banka. Þá mætti stjórnin til að kalla saman Alþingi til að breyta nafni bankans í lögunum.

Þá er það launungin, sem um frv. hefir verið. Hæstv. landsstjórn hefir gert alt til að skapa óróa í kringum þetta mál og gefa ímyndun manna lausan tauminn til að hugsa sjer, að hjer sje alt að fara í kalda kol. Hæstv. ráðherrar hrista aðeins höfuðin, ef þeir eru spurðir um einhverja fjárhæð. Rjettast hefði verið að setja lánsfjárhæðina í frv., en sleppa nafni bankans, og í greinargerðinni átti að segja frá vöxtum og öðrum skilyrðum. Dettur hæstv. fjrh. (JÞ) í hug, að hann mundi nokkurntíma skrifa upp á víxil fyrir mann „in blanco“? Alveg því sama er hjer til að dreifa. Mjer finst ómögulegt, að þeir, sem ekki bera traust til hæstv. stjórnar, geti gengið að þessu. Það er a. m. k. óvenjulegt í viðskiftum manna á meðal, að ábyrgðarmaðurinn fái ekkert um það að vita, hvað það er, sem hann gengur í ábyrgð fyrir. En þó skyldi engum manni til hugar koma, að á þennan hátt verði þjóðin leynd hinu sanna um upphæð lánsins, þótt um það sje þagað í þinginu sjálfu. 2–3 dögum eftir að frv. var borið fram var jeg hringdur upp utan af landi og spurður, hvort fjárhæðin væri ekki þessi, vextirnir ekki þessir, afföllin ekki þessi o. s. frv. Svo að þetta er hvergi launung, nema í umræðum á Alþingi, því að alstaðar annarsstaðar vita menn það. Þegar bankastjórar Landsbankans töluðu við fjhn. Ed. spurði jeg þá, hvort þeir menn í fjármálaheiminum, sem annars teldu sig nokkuð vita um Ísland, myndu ekki allir vita, að Ísland tekur þetta lán, hve stórt það væri og með hvaða kjörum. Jú, auðvitað vita þeir það, svöruðu bankastjórarnir. En hvers vegna getur það þá skaðað að segja frá því, úr því að þessir fjármálamenn úti í heimi, sem gætu gert okkur skaða eða spilt fyrir lántöku okkar eða lánskjörum, vita þetta fullvel? Hvers vegna má ekki íslenska þjóðin vita þetta, þar sem hún á þó að ábyrgjast lánið? Frá hvaða sjónarmiði sem þetta er skoðað, þá er algerlega óforsvaranleg launungin, sem hefir verið á þessu máli.

Formið á láninu er jeg áður búinn að minnast á.

Í umræðum þeim, sem fram hafa farið um þetta lán, er búið að upplýsa það, að þörfin er ekki eins brýn og málið benti til í upphafi, þegar hæstv. forsrh. og stjórnin ætlaði að knýja málið í gegnum þingið með afbrigðum á afbrigði ofan. Maður heyrði sagt, að það hefði átt að ganga fram á einum tveim dögum gegnum sex umræður. Einnig sagði hv. frsm. meiri hl. fjhn. (BK) í kvöld í sinni ræðu, að eiginlega væri ekki upplýst, til hvers 8/9 hlutar lánsins eiga að ganga. Það hefir að vísu verið vikið að því af hæstv. stjórn og einnig í umræðum í fjhn. og þinginu, að atvinnuvegirnir þurfi á þessu láni að halda. En það hefir þegar verið upplýst, að aðalbankinn — Landsbankinn — hefir um sinn nægilegt erlent fje, sem þýðir það, að hann getur lánað atvinnuvegunum fje. Það er ekkert launungarmál, að Íslandsbanki hefir átt við einhverja erfiðleika að stríða, og á enn, og muni hafa þörf á erlendu láni. Það er sagt; að Íslandsbanki eigi að fá 1 milj. kr. af láninu. Hitt er heldur ekkert launungarmál, að honum muni ekki vera það fullnægjandi.

Viðvíkjandi því að hjálpa Íslandsbanka til að styðja atvinnuvegina get jeg ekki stilt mig um að minnast á atvinnuvegina sjálfa í sambandi við þennan banka. Jeg ætla aðeins að nefna eitt atriði, þó að það sjeu vitanlega mörg atriði í rekstri bankans, sem mikið er talað um.

Vestur á Ísafirði hefir um langt skeið verið mikill mótorbátaútvegur. Meginþorri þeirra báta hefir haft rekstrarfje sitt frá Íslandsbanka. Sagt er, að eigendur bátanna hafi tapað ár eftir ár miklu fje. Og á síðasta hausti var talið svo komið, að það væri ekki lengur hægt að halda áfram, heldur yrði að taka bátana af eigendum, til þess að halda ekki altaf áfram í sömu súpunni og verið hefir. Nú voru um síðustu áramót gerðar þær ráðstafanir, sem leiddu af sjer stöðvun bátanna. En að stöðva þessa báta þýddi aftur á móti það, að fjöldi manna á þessum stað varð atvinnulaus. Og jeg verð að segja, að eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið frá stjórn Íslandsbanka í viðtali við blöð, þá virðist það ekki vera fyrir rekstrarfjárskort, að bátarnir voru stöðvaðir. Að vísu er ekkert við því að segja, þótt bankinn hafi tekið bátana af eigendum, ef álitið er, að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. En maður verður að heimta það af þeim, sem höfðu þarna hönd í bagga um að taka bátana og í rekstri bankans á Ísafirði, að þeir hefðu vitað, að aðalvertíð þessara báta byrjaði strax upp úr nýári, svo að af stöðvun bátanna hlaut að leiða stórt tap fyrir hjeraðið. Það er trú manna þar vestra, að útibú Íslandsbanka á Ísafirði hafi hreint og beint gert þetta vitandi vits og gert bæjarfjelaginu þann skaða af pólitískum ástæðum. Bankastjórnin mátti vel vita, að ef bátarnir áttu að geta notfært sjer þann góða afla, sem venjulegast er hjer við Faxaflóa frá því í janúar og fram í mars, þá hefðu bátarnir þurft að vera tilbúnir um áramót. Þess vegna átti bankastjórnin ekki að gera þær ráðstafanir, sem komu svo herfilega niður á bæjarfjelaginu við það, að aðalatvinnuvegurinn stöðvast í 3–4 mánuði, eða hver veit hvað. Þetta er atvinnuvegur, sem bankinn hefir stutt hingað til. En jeg verð að segja, að varla þarf Íslandsbanki rekstrarfje handa þessum bátum, sem liggja uppi í fjöru á Ísafirði og hann virðist engan vilja hafa á að hjálpa. Og þess vegna þarf því ekki að láta hann fá fje af væntanlegu láni. — Hitt atriði málsins, sem er eiginlega á hvers manns vörum, að af útibúinu á Ísafirði sje að einhverju leyti unnið að því að halda bátunum kyrrum, og það er talið stafa af óvilja gegn þeim meiri hluta, sem ræður í bæjarfjelaginu á Ísafirði. Og þá fer maður að skilja, að allir geti naumast verið fúsir til þess að lána slíkri stofnun fje til þess að ráða yfir atvinnurekstri þjóðarinnar. Það hefir þó ekki enn verið bent á neitt, sem bendi til, að brýn þörf sje á lántöku, nema ef Íslandsbanki þarfnaðist einhvers.

Úr því að jeg hefi minst á bankastjóra Íslandsbanka á Ísafirði, sem margir segja að sje hlutdrægur, þá skal jeg lýsa yfir því, að síðan landið skipaði meiri hl. í bankastjórnina mun ekki hafa borið á slíku í aðalbankanum sjálfum. En fram að þeim tíma var ekki ugglaust um, að Íslandsbankastjórn blandaði sjer í atvinnudeilur milli atvinnurekenda og verkalýðsins. Í eitt skifti var enda játað af einum bankastjóra Íslandsbanka, að hann hefði gert tilraun til að hnekkja samtökum sjómanna og notað til þess vald bankans yfir viðskiftamönnum hans. En slíkt getur ekki gert menn fúsa til þess að afhenda þessari stofnun peninga, ef það loðir ennþá við, þó ekki sje nema útibú bankans. Ef alt hefði verið með feldu um þetta mál, þá hefði jeg getað tekið undir með háttv. 4. þm. Reykv. (HjV), er sagði í Nd., þegar þetta mál var þar rætt, að sjálfsagt væri að fylgja því, ef hjer væri alveg venjulegt rekstrarlán handa Landsbankanum. En mjer skilst alt, sem fram hefir komið, benda á annað, því að Landsbankinn á fje erlendis og þarf því ekki í bili á slíku láni að halda.

Mjer er sagt, að eftir að sú skipun komst á, að toppseðlarnir voru teknir frá Íslandsbanka og fluttir til Landsbankans, þá hafi ríkisstjórnin haft nokkurn hlut um það, hvað Landsbankinn endurkeypti af víxlum frá Íslandsbanka, sem leiddi aftur af því, að ríkisstjórnin væri orðin nokkurskonar bankastjórn, meðan seðlaútgáfurjettinum væri ekki skipað á annan hátt en að stjórnin færi með hann í samráði við Landsbankann. Nú hefir það upplýst, að hæstv. stjórn vill stuðla að því, að Íslandsbanki fái hluta af þessu væntanlega láni. Jeg álít, að „pólitísk“ stjórn eigi ekki að blanda sjer inn í slík viðskifti milli bankanna. Því að tilmæli stjórnarinnar til annarshvors bankans um að gera þetta eða hitt, eru vitanlega skoðuð sem skipanir.

Það er að vísu ýmislegt rjett í nál. hv. 1. landsk. (JJ), og reyndar í ræðu hans líka, en þó get jeg ekki verið honum sammála um nærri alt. Hann telur þá hættu við að taka þetta lán, að hæstv. stjórn noti það til þess að hækka gengið. Jeg get ekki skilið, að nokkur búist við að krónan hækki meðan svona stendur. En hitt getur komið fyrir, að það þurfi einhverntíma að taka slík lán. Jeg viðurkenni það hinsvegar hjá hv. 1. landsk., að nokkur hætta getur stafað af skuldum okkar við útlönd á þann hátt, að óorð komist á peningamál okkar. Það hefir að minsta kosti verið litið svo á, að það væri ekki lítið atriði í gengismálinu, að menn hefðu trú á því, að fjármál landsins væru í góðu lagi. Trúin ein getur í þessu efni haft áhrif á gengið. Ef við erum búnir að taka stórlán, getur erlendum bankamönnum hæglega staðið stuggur af því. Þess vegna gæti þetta lán ef til vill orðið til þess að fella krónuna í verði. Og meðan hægt er að sýna fram á, að til er nokkuð af óeyddu fje, sem bankinn getur átt aðgang að erlendis, þá er ekkert í hættu; það er fyrst hætta, þegar fer að verða hörgull á erlendum gjaldeyri.

Jeg býst ekki við að geta greitt atkvæði með þessu máli eftir alt það, sem komið er upp í þessu máli, og sjerstaklega eftir þær upplýsingar, að þörfin fyrir lán er ekki eins brýn eins og látið var af í upphafi. Jafnvel þótt hæstv. stjórn geti knúð þetta fram, þá álít jeg, að það eigi að spyrna við. Hún fór þannig af stað í þessu máli, að það sýnir sig, að það veitir ekki af að setja á hana einhverja „bremsu“, svo að hún hlaupi ekki með fjármál landsins í voða, eins og hún hefði getað gert, hefði hún haft öll ráð frá upphafi í þessu máli.

Í þessu alvarlega máli er það reyndar ofurlítið spaugilegt, að enginn hefir getað fundið út, til hvers eigi að nota þessa 8/9 hluta lánsins. En samt á að taka það svona stórt, að við þurfum ekki að nota nema 1/9 hluta. Hitt á víst að vera til þess að sýna, hvað við getum „slegið stórt“ erlendis. Þetta minnir mig á það, þegar leitt var í lög, að enginn mætti kaupa minna af brennivini en 3 pela flösku. Eitt þjóðskáldið samdi sögu um þetta, og er hún á þá lund, að maður nokkur, sem þótti gott að fá aðeins í staupinu, fór í kaupstaðinn og kemur í búð — en hafði ekki hugmynd um þessi nýju lög — og biður um eitt staup. Búðarþjónninn segir, að hann fái ekki minna en 3 pela. Manninum þótti gott í staupinu og var hætt við að drekka heldur illa; en hann ætlaði í þetta skifti að stilla sig og taka sjer aðeins einn „dramm“. En lögin heimtuðu, að hann tæki 3 pela, og freistingin varð of sterk, svo að hann keypti flöskuna. Náttúrlega fór manngarmurinn á sjóðandi fyllirí og alt lenti í áflogum og gauragangi þegar heim kom.

Jeg vil vona, að það fari ekki eins fyrir hæstv. stjórn, að alt fari í sukk og voða fyrir það, að stjórninni hefir farið eins og þessum manni, að hún tekur mörgum sinnum stærra lán en við þurfum.