17.03.1927
Efri deild: 30. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Hæstv. ráðh. (JÞ) lauk máli sínu með því að lýsa ánægju sinni yfir því, að jeg muni ekki greiða atkvæði móti frv. En honum láðist að geta þess, að hann hefir ekki gert neitt til þess að uppfylla þau skilyrði, er jeg setti fyrir því. En eins og menn geta iðrast á banasænginni, svo má og vel vera, að um síðustu forvöð sjái hæstv. ráðh. að sjer. Jeg er ekki eins bráður og hann að drepa frv. strax við 1. umr. Hann tók sárt til ölvuðu embættismannanna, er frv. mitt var á ferðinni, og brá fæti fyrir það þegar. Jeg býst við, að hann geti ekki lagt mjer það út til lasts, þótt jeg fylgi ekki slíkri slátrunaraðferð, jafnvel þó að um slæmt mál sje að ræða eins og nú, þegar hann kynokar sjer ekki við að sporna við framgangi góðs málefnis, sem verður þrátt fyrir alt samþykt eftir 1–2 ár.

Annars held jeg það sje ljósasti vottur um slæman málstað hæstv. ráðh., að hann þakkar öllum, líka þeim, sem húðstrýkja hann. Því að ekki andaði miklu trausti í hans garð hvorki í nál. nje ræðu frsm. Yfirleitt sjer á, að hæstv. ráðh. vill rifa segl. Hann finnur málstað sinn veikan og vill ekki láta á sjer bera nema sem minst. Hyggur, að með því móti kunni þetta að fljóta í gegn. Þótt hann þurfi að lítillækka sig, vonast hann til, að árangurinn bæti úr lítillækkuninni við að koma þessu fram.

Jeg tek það fram, að hæstv. ráðh. hefir ekki á nokkurn hátt getað hrakið, að skuldirnar verði eins miklar og jeg sagði. Jeg tel það enga mótsönnun, þó að einhver lánsheimild sje ekki að fullu tæmd. En ný lánsheimild bendir á, að svo muni verða að áliti ráðherra innan skamms.

Þess er og að gæta, að jeg hefi aðeins talið þær viðurkendu skuldir og ábyrgðir. Íslandsbanki mun t. d. vera í ábyrgð fyrir nýju fyrirtæki hjer í Reykjavík, sem enginn er kominn til að segja, að geti borið sig, og margar slíkar ábyrgðir munu vera til.

Í sinni löngu ræðu hefir hæstv. ráðh. ekki sagt eitt orð til varnar meðferð hans og stjórnarinnar á þessu máli, að ætla sjer að taka lán án þess að spyrja þingið leyfis og hvernig gerð var tilraun til að hraða málinu óeðlilega og með afbrigðum gegnum þingið. En um aðalatriði ræðu minnar, ástæðuna til hinnar miklu skuldaaukningar, hefir hæstv. ráðh. játað, að tekjuhallafyrirtækjum væri haldið hjer uppi. Þannig hefir Íslandsbanki tapað 1 miljón fyrir skömmu á einu fyrirtæki á Vesturlandi.

Til þess að gera enn berari bláþráðinn í ræðu hæstv. ráðh., skal jeg víkja að einstökum atriðum. Hann tekur undir þá ósk mína, að vel og gætilega verði farið með lánsfjeð. Upphæðin, sem farið er fram á, er sannarlega ekki gætileg, og það er víst ekki síst að þakka kröfum mínum og mótstöðu þeirri, sem þessi lánsheimild hefir fengið, að hæstv. ráðh. vill fara gætilega með fjeð.

Hæstv. ráðherra dró þá ályktun af orðum mínum, að jeg vildi stöðva atvinnulífið með svipuðum hætti eins og gert var á Ísafirði. Jeg er ekki kunnugur á Ísafirði, en því hefir verið haldið fram í blöðum, að þessi stöðvun hafi ekki verið gerð af hagfræðilegum ástæðum, heldur pólitískum, og það af flokksbróður hæstv. ráðh. Auðvitað er það óverjandi að stöðva atvinnufyrirtæki í einum bæ úti á landi og ekki annarsstaðar. Það er kunnugt, að hjer eru sum atvinnufyrirtækin, altaf á hausnum. Mjer er kunnugt um einn stuðningsmann stjórnarinnar, kaupmann af Norðurlandi, sem skuldaði Íslandsbanka 600 þús. kr. í fyrra. Hann mun hafa fengið meiri hluta þess eftirgefinn og svo nýtt rekstrarfje. En honum gekk illa aftur, og nú er hann enn kominn og vill enn fá uppgjöf á svo sem 75%, og svo nýtt lán að auki. Þetta er eitt dæmi þess, hvað gerist úti á landsbygðinni. Hvernig mun því þá varið um þá, sem betur eru settir og njóta íhaldsstjórnarinnar hjer í Reykjavík? — Jeg hefi ekki sagt orð um það, að jeg áliti þessa stöðvun á Ísafirði rjetta. En jeg býst við, að sum fyrirtæki sjeu sjúk þar eins og annarsstaðar. Hjer eru mörg sjúk fyrirtæki, sem jeg álít ekki rjett að ausa fje í, eins og þennan norðlenska kaupmann, sem jeg nefndi. Það var slíkt ráðlag, sem jeg vítti. Ein aðalvörn hæstv. ráðh. var sú, að Landsbankinn muni ekki þurfa alt þetta lán. Það er nú alment álitið, að Landsbankinn kæri sig ekkert um þetta lán. Landsbankinn virðist hafa nægilegt fje fyrir sig, svo að útlit er fyrir, að hjer sje um að ræða utanaðkomandi pressu. Eitt af því, sem haldið hefir verið fram um þetta lán og sem gerir ósennilegt, að Landsbankinn taki það án þess að vera undir áhrifum stjórnarinnar, er það, að bankinn verður að greiða framlengingargjald, sem svarar tvennum ráðherralaunum. Það er rangt hjá hæstv. ráðh., að órjett sje að reikna með hámarki reikningslánsins, því ef illa gengur, er það hámarkið, sem gildir. Það hefir ekki verið skilið eftir í lögginni hingað til undir svipuðum kringumstæðum. Og nú er talið, að hæstv. ráðh. muni þegar vera búinn að ráðstafa 1 miljón af þessu láni yfir í reikningslán Íslandsbanka. Með því er verið að færa skuld hluthafanna yfir á bak allrar þjóðarinnar. Því er haldið fram af þeim, sem eru svo vitrir að sjá, að þetta hlýtur að verða fast lán, að stjórnin búist einmitt við því. Annars hefði ekki þurft ákvæðið um framlenginguna. Með því að ýta undir þessa 9 miljóna lántöku, og sjerstaklega með því að ráðstafa hluta þess áður en þingið samþykti lántökuna, hefir stjórnin gert það, sem hún gat, til þess að lánið yrði fast. Ef Íslandsbanki hefir verið að biðja stjórnina um lán til þess að bjarga láni, er ólíklegt, að hann geti staðið í skilum til Ameríku fyrir næstu áramót. Þá verður þessi summa föst á ábyrgð landsins. Stjórnin gengur í ábyrgð fyrir reikningsláni, sem hún ætlast til, að verði fast lán. Og svo hirðulaus er hún, að þótt Bandaríkin banni föst lán til annara landa, ætlar hún samt að ganga í gildruna til þess að færa lausaskuldir Íslandsbanka yfir á landið.

Þá hefir hæstv. ráðh. haldið því fram, að sjer væri sjerstök gleði að því að geta komið þessari ráðstöfun á meðan þingið situr. En hann gleymir því, að í upphafi ætlaði hann að gera þetta á bak við þingið, og hann hefir ekki vott af afsökun sjer til handa í því efni. Hæstv. ráðh. ætti að gera sjer ljóst, að það þarf meira en að vera lítill vexti og hafa ofbeldistilhneigingu til þess að stofna hjer til Ítalíu-ástands. Jeg vildi óska, að hæstv. ráðh. lærði nú af reynslunni og áreitti ekki þingið framar á þennan hátt. — Röksemdir hæstv. ráðh. um, að ekki mætti blanda saman reikningsláni og föstu láni hefi jeg svarað. Hvernig fór um póstsjóðslánið danska? Varð það ekki fast lán af því að ekki var hægt að borga það á tilsettum tíma? — Út af laununginni um þetta mál hefir hæstv. ráðh. ekki aðrar varnir fyrir sig að bera en danskt fordæmi og tísku hjá bræðraþjóðinni. Það vakir víst fyrir hæstv. ráðh. að setja einskonar fjármáladrengjakoll á þjóðina, gera ísl. þjóðarkollinn snoðinn með eftiröpun eftir Dönum. Jeg held, að rjettara væri að líkja eitthvað annað eftir Dönum en þetta. Annars hefir hæstv. ráðh. líklega hlaupið undir pilsfald dönsku mömmu í þetta sinn af blygðunarsemi yfir skuldasúpunni, sem sífelt er að magnast, þrátt fyrir lofsöng hinna mörgu blaða ráðherrans yfir því, að hann sje að rífa skuldafjötrana af þjóðinni. Hjer vottar fyrir blygðunarsemi hjá hæstv. ráðh., sem vekur vonir um, að hann kunni að snúa málinu til betra horfs áður en það fer út úr deildinni. Jeg tel það vott hins betra, að stjórnin skyldi fyrirverða sig fyrir að láta þjóðina vita, hve mikið skaðlegt hún var að gera.

Hæstv. ráðh. sagði, að hjer hefðu komið fram tvær skoðanir viðvíkjandi notkun þessa láns, að það yrði notað til að hækka krónuna og gæti hinsvegar orðið til þess að lækka hana. Ráðh. tók skýrt fram, að hann vildi ekki hækka krónuna með lánsfje. Þar með er fengin sú lítilfjörlega viðurkenning, að barnaskapur ráðh. sje ekki svo mikill, að hann ætli að nota þetta lán til að hækka krónuna. — Hæstv. ráðh. vildi neita því, að þetta lán stæði í sambandi við gengismálið. En í blaði, sem hæstv. ráðh. borgar ekki svo lítið af tekjuhallanum á, er játað, að ástand þess firma, sem næst því stendur, sje svo, að það geti hvorki borgað tekju nje eignarskatt, og það er ekki gefin nein ástæða fyrir þessu önnur en gengishallinn. Því fer fjarri, að þetta sje eina fjelagið, sem hefir tapað. Mörg fjelög hafa lifað með tekjuhalla á kostnað bankanna. Það er því rangt hjá hæstv. ráðh., að þörfin fyrir lánið sje ekki vegna gengishækkunarinnar.

Þá hjelt hæstv. ráðh. því fram, að skuldaskýrsla mín væri ekki rjett. Hún er bygð á Lögbirtingablaðinu og þingtíðindunum. Jeg vildi gjarnan, að í henni væri villa og skuldirnar minni. En því er miður, að ástandið er svona. Hæstv. ráðh. getur ekki hrakið skýrsluna. Þessar skuldir hafa safnast undir fjármálastjórn núverandi atvrh., en nú lítur út fyrir, að starfsbróðir hans fái þá ánægju að ganga feti framar í þessu efni. Í þessu er fólgin sú viðrjetting fjárhagsins, sem mest hefir verið gumað af. Svona er fjármálaheilsan undir forustu þessarar virðulegu stjórnar.

Hæstv. ráðh. neitaði því, að gengishækkunin væri höfuðböl landsmanna. Hann nefndi m. a., að kjötið hefði fallið á útlendum markaði. Mjer þykir ósennilegt, að hæstv. ráðh. viti ekki, að Norðmenn eiga líka við gengishækkun að stríða. Þar ráða sömu hvatir og hjer. Því er þar eymd og volæði eins og hjer. Kaupmáttur Norðmanna er lamaður vegna gengishækkunarinnar. Þeir geta ekki keypt vörur okkar, þó að þeir vildu. Hæstv. ráðh. hefir komið því upp, að alstaðar fylgir sama bölið gengishækkuninni, og þarna grípur það inn í okkar viðskiftalíf á skaðlegan hátt. Hæstv. ráðh. reyndi ekki að neita, að 1924 hefði verið gott ár að því er sjávarafla snerti. Þetta ár hefði átt að kasta langri birtu fram. En skuggi gengishækkunarinnar lagðist yfir þrátt fyrir sæmilega góð ár 1925 og 1926. Gengishækkunin er sú mikla uppspretta böls og erfiðleika, sem nú gengur yfir bæði Ísland og nágrannalöndin.

Hæstv. ráðh. hefir nýlega hjer í deildinni reynt að hindra það, að skatti væri ljett á landbúnaðinum. Ef hann hefði kynt sjer rit Keynes eða Cassels, mundi hann vafalaust fá að vita, hvaða áhrif tollar hafa til þess að skapa tekjuhallaframleiðslu eins og hjer um ræðir.

Í sambandi við þau orð hæstv. ráðh., að gengishækkun geti ekki gert nema lítið til þess að lama atvinnulíf þjóðanna, vil jeg benda honum á, að 2 nálæg lönd, þar sem atvinnulífið er í fullum blóma, nefnilega Þýskaland og Finnland, byrjuðu með því að kasta af sjer lággengisskuldum með stöðvun gjaldeyrisins. Að alt er í slíkum blóma, kemur til af því, að hvorugt þessara landa hefir dregið yfir sig skugga deflationarinnar. Ef litið er á ástandið í hækkunarlöndunum, Englandi, Danmörku og Noregi, þá er það hið hörmulegasta. Í Danmörku eru 100 þúsundir atvinnulausra manna. Það má segja, að fátækt Englands út af hækkun hafi spilt dönskum markaði. Sú hækkun, sem gerð var í Frakklandi í síðasta mánuði, varð svo tilfinnanleg, að iðnforkólfarnir snjeru sjer til íhaldsstjórnarinnar og báðu hana að hætta að hækka, til þess að þeir yrðu ekki gereyðilagðir. Það er öllum vitanlegt, að sú þjóð, sem var ríkust í Evrópu fyrir stríðið og átti erfiðast með að sætta sig við festingu á gjaldeyrinum, nefnilega Frakkar, ætla nú að festa. Og er þó ólíku saman að jafna, þar sem hjer eru litlar gamlar innieignir, en Frakkar eiga geysimiklar innieignir, bæði í landinu sjálfu og utanlands, sem auðvitað falla í verði með mynt landsins.

Hæstv. ráðh. hefir ekki bætt fyrir sjer á neinn hátt. Hann hefir aðeins gert mönnum ljósara en áður, að hann er hræddur við lánið. Hann finnur, að það er rothögg á hans fyrri fjármálapólitík, sem hann svo mjög hefir látið hrósa sjer fyrir. Sú lömun á sjálfstrausti hæstv. ráðh., sem olli því, að hann ætlaði að fara á bak við þingið í þessu máli, er gleðilegur vottur þess, að hann óttast afleiðingarnar af sínum misstígnu sporum.