18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það var nærri óvenjulegt að heyra ræðu hæstv. fjrh. í gær. í raun og veru gekk hann inn á allar þær aðfinningar, sem hafa komið fram gegn frv. þessu, bæði um form þess og efni. Hann hefði því átt að lýsa því yfir eftir ræðuna, að hann gæti ekki lengur verið með því, að þessi lánsheimild væri samþykt, af því að meðferð málsins hefði verið svo ómöguleg frá upphafi. Svo jeg víki nánar að þessu, þá játaði hæstv. ráðh., að eftir orðalagi frumvarpsins væri ekki hægt að framlengja lánið, ef það fengist ekki áfram hjá sama bankanum. Jeg held því, að rjettara hefði verið fyrir stjórnina að hafa ábyrgðarheimildina þannig úr garði gerða, að hún hefði getað gengið frá láninu þegar það fjelli næst. Þá sagði hæstv. ráðh., að lánið væri veitt til 12 mánaða, miðað við þann tíma, sem það væri opnað. En fari nú svo, að lánsheimildin verði ekki veitt fyr en í næstu viku og bankinn opni lánið ekki fyr en í apríllok eða jafnvel ekki fyr en í maí, þá gæti svo farið, að næsta þing væri úti þegar kæmi til að framlengja lánið, ef framlengja þarf frá ári til árs, og því ekki hægt að fá heimild hjá þinginu til lántöku til að greiða þetta lán.

Þá vjek hann að því, sem jeg drap á starfsemi útibús Íslandsbanka á Ísafirði, og virtist líta svo á, að jeg hefði krafist svars hans um það, af hverju stöðvaður hefði verið atvinnureksturinn á Ísafirði að því er vjelbátana snerti, og sagði jafnframt, að jeg hefði verið að finna að því. Það má vel vera, að það hafi verið nauðsynlegt að taka bátana af gömlu eigendunum. En jeg sagði, að kauptúninu hefði verið gert hið mesta tjón með því að stöðva bátana yfir einn besta veiðitímann, og jeg sagði það vera álit margra, að útibússtjóri Íslandsbanka á Ísafirði hefði gert þetta vegna pólitískrar fjandsemi við ráðandi flokkinn á Ísafirði. Slík ráðsmenska útibúsins gerir mann því síst viljugan til að ganga í ábyrgð fyrir láni handa þessum banka. Annars er það hrein og bein skylda bankanna að halda uppi atvinnurekstrinum eftir því sem þeir mögulega geta, og hjer var um sæmilegan atvinnurekstur að ræða. Bátarnir töpuðu ekki á fiskiveiðunum, eftir því sem fullyrt er, heldur stöfuðu töp þeirra aðallega frá síldarsölubraski eigendanna árin 1919 –’21.

Mjer finst ekki nema eðlilegt að hafa hliðsjón af meðferð bankanna á lánsfjenu og hvernig þeir beita sjer gagnvart atvinnuvegunum, þegar verið er að tala um að taka lán handa þeim til þess að styðja atvinnuvegina með. Jeg tel framkomu Íslandsbanka í þessu máli á Ísafirði vítaverða, og margir líta svo á, eins og áður er sagt, að það hafi verið gert af pólitískum ástæðum, til þess að hefna sín á bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, sem útibússtjórinn var í andstöðu við.

Þá sagði hæstv. forsrh., að við hv. 1. landsk. hefðum blandað þessu láni saman við eyðslulán, en þetta lán væri aðeins tekið til nota fyrir atvinnuvegina, sem þeir myndu skila aftur bráðlega. Það er aldrei nema satt, þannig á það að vera, en út af því getur brugðið, og reynslan hefir sýnt það þráfaldlega, að ekki hefir verið hægt að endurgreiða slík lán að fullu á gjalddaga. Þannig var 6 milj. kr. lánið, sem Landsbankinn tók 1924; það var tekið til að festa lán, sem tekin höfðu verið sem rekstrarlán, en ekki verið hægt að borga á rjettum tíma.

Í gær sagði hæstv. ráðherra, að ekkert samband væri milli þessa láns og gengisins; en eftir því, sem mjer er skýrt frá, er þetta öfugt við það, sem hann hjelt fram í neðri deild. Þar sagði hann, að vel gæti komið til, að lánið yrði notað til að halda uppi genginu. Hjá mjer er enginn ótti við, að gengið muni falla meðan Landsbankinn hefir nægilegt fje til kaupa á erlendum gjaldeyri, eftir því sem þörfin krefur. Og það hefir hann nú. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að ekki sje þörf að taka svona stórt lán og það geti beinlínis orðið hættulegt vegna gjaldeyris okkar, því að ekkert er líklegra en að trú erlendra fjármálamanna á gjaldeyri okkar minki, þegar þeir heyra um þessa miklu lántöku og miklu skuldir. Að verjast lántökum er því til að auka tiltrú okkar.

Á það hefir ekki verið minst, enda þótt því hafi verið lýst yfir, að hjer sje um að ræða að taka stærra lán en þörf sje fyrir, af því að ekki sje hægt að fá minna lán en þetta. En þetta kalla jeg harla undarlegt, því jeg hefi heyrt, og því hefir ekki verið mótmælt, að hægt hefði verið að fá helmingi minna lán í Ameríku en þetta. Það hefði þó verið sönnu nær.

Út af aðfinningum þeim, sem komið hafa fram gegn framburði þessa máls í þinginu, játaði hæstv. forsrh., að nú væri málið þó komið í gott horf, og þakkaði sjer það, því nú kæmi það skýrt og ákveðið fram, að lánsheimildin væri aðeins bundin við ákveðin lán. Hann sagði ennfremur, að það væri gott, að bankastjórnirnar gætu ekki heimtað af stjórninni ábyrgðir, heklur yrðu þær að ganga til þingsins. Þetta finst mjer undarleg skoðunarbreyting hjá hæstv. forsrh. Hann sem vill láta það ákvæði standa í 15. gr. Landsbankafrumvarpsins, að ríkisstjórninni sje heimilt að ábyrgjast erlend lán fyrir bankann þegar þess er þörf. Og til þess að sýna, hvaða áherslu hæstv. ráðherra leggur á þetta, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp greinargerð 15. gr. frv. Hún hljóðar þannig:

„Stjórn Landsbankans hefir bent á það, að mest af því lánstrausti, sem Landsbankinn hefir haft erlendis, hafi verið með ábyrgð ríkisstjórnarinnar, og sje því ástæða til að taka upp í frv. heimild handa ríkisstjórninni til þess að taka á sig slíka ábyrgð fyrir bankann. Þykir óhjákvœmilegt að taka þessa bendingu til greina.“

Þetta segir hæstv. ráðherra þarna, en nú kemur hann úr þveröfugri átt. Hvað ætlar stjórnin að gera, þegar Landsbankafrv. kemur? Ætlar hún þá að fullkomna hringsnúninginn í þessu máli? Þessar hugleiðingar hæstv. ráðh. (JÞ) sýna, hve veilurnar eru miklar á máli þessu. Hann hefir í atriði, sem hann fyrir nokkrum mánuðum áleit óhjákvæmilegt að setja í lög, talið í þessu máli sjálfsagt, að ekki sje sett í lög. Hann ætti að gera grein fyrir því, hvers vegna hann skiftir um skoðun í þessu máli.

Hæstv. ráðh. sagði, að mjer væri kunnugt um, að ekki væri verið að skrifa hjer á víxil „in blanco“. En hvað er þá lánið? Það liggja engin önnur plögg fyrir en frv. um það. Þar er aðeins gefin almenn heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ganga í ábyrgð fyrir Landsbankann hjá tilteknum banka. Eins og frv. var upphaflega frá fjhn. neðri deildar, en hún flutti það fyrir hæstv. ráðh. (JÞ), er það í samræmi við það, sem stendur í bankafrv. stjórnarinnar. Þar er ekki gefin upp nein fjárhæð, sem ábyrgjast skuli. í þessu frv., sem hæstv. ráðh. hefir samið, er heldur ekkert minst á það, upp á hvað mikið lánið eigi að hljóða. Er þá ekki um að ræða að skrifa upp á „in blanco“? Það er ekkert opinbert um þetta lán annað en það, sem fram hefir komið hjá þm. í umræðum, og almenningur veit um það aðeins af þessum umr., en ekki hafa neinar upplýsingar komið frá stjórninni opinberlega. En hver á að ábyrgjast það? Ekki þingmenn persónulega, heldur þjóðin. Fari svo, að ekki verði hægt að borga lánið á tilsettum tíma, verður þjóðin að borga það með því að leggja á sig nýja skatta með tilliti til þessa láns. Það er alveg eins og þegar hæstv. ráðh. heimtaði há hafnargjöld af Vestmannaeyingum vegna skuldar þeirra við erlendan banka, er landssjóður ábyrgðist. Hæstv. ráðh. lýsti yfir því, að afskifti stjórnarinnar af bönkunum sjeu minni en jeg haldi. Það getur verið, en hitt er vitanlegt, að stjórnin hefir afskifti af þeim. En jeg veit ekki, hver hefir átt upptökin að þessari lántöku. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að bankinn hefði átt þau, en hæstv. ráðh. hefir eigi þóst muna það. Stjórnin hefir farið fram á, að Landsbankinn veitti tiltekna fjárhæð af þessu láni til Íslandsbanka. Afskifti stjórnarinnar er hjer hrein og bein lánveiting til Íslandsbanka. Þetta sýnir aðeins það, að stjórn Landsbankans hefir alls ekki verið fús til þess að veita þetta lán, því þá hefði ekki þurft til þess afskifti ríkisstjórnarinnar. Það ætti nú að vera svo, að stjórnin blandaði sjer ekki inn í lánveitingar bankanna, en þegar hún gerir það, þá er það til þess að knýja þá til að gera það, sem þeir eru sjálfir ekkert viljugir til að gera. Þetta er enn alvarlegra vegna þess, að stjórnin hefir ekki þá aðstöðu til að geta dæmt um það eins og stjórn Landsbankans, sem kunnug er öllum viðskiftum, getur. Afskifti stjórnarinnar af Landsbankanum eru ekkert lítil, ef hún hefir gengið í það eða komið með tilmæli til bankans um það, að hann veitti 1 milj. kr. lán til Íslandsbanka af þessu væntanlega láni. Stjórnin hefir hjer veika aðstöðu; hún hefir hringlað fram og aftur í málinu. Stefna hennar í þessu lántökumáli er nú orðin alt önnur heldur en kemur fram í Landsbankafrv. og heldur en kom fram í Nd., þegar fjhn. kom með þetta frv. Stjórnin kemur með nýja tilhögun, sem hæstv. ráðh. segir góða, en er þveröfug við alt annað, sem hún hefir áður lýst sem stefnu sína í þessum málum.

Hulan yfir þessu láni gerir það ekki glæsilegt fyrir þingmenn að vera því samþykkir að veita slíka ábyrgðarheimild sem þessa. Eftir þeim umr., sem hjer hafa farið fram, get jeg ekki annað en sannfærst um, að lítt nauðsynlegt sje að taka þetta lán, eða svona stórt lán. Það hefði verið æskilegast, að hæstv. ráðh. hefði lýst lánskjörunum, því að þjóðin á heimtingu á því að fá að vita um þau, þar sem hún verður að borga það með auknum sköttum, ef illa fer.

Jeg lít svo á, að jeg sje frsm. 3. hl. nefndarinnar. (Forseti HSteins: Hv. þm. getur það ekki, þar sem hann hefir ekki komið með neitt nál.). Í Nd. er álitið svo, að allir nefndarhlutar eigi hver sinn frsm., þótt þeir komi eigi fram með sjerstakt nefndarálit. Jeg get þá nú þegar látið prenta nál., svo að jeg öðlist rjett sem frsm.