21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

3. mál, landsreikningar 1926

Magnús Guðmundsson:

Jeg tek aðeins til máls nú sökum þess, að jeg býst við, að jeg geti frekar svarað ýmislegu af því, sem hv. frsm. var að spyrja um, heldur en hæstv. fjmrh.

Gengisreikningur er í reikningum ríkisfjehirðis tilfærður í einu lagi. Þegar svo þeir einstöku reikningar eru gerðir, er hann sundurliðaður og svo leitað aukafjárveitingar fyrir afganginum, t. d. um konungsmötuna og fje til sendiherrans í Kaupmannahöfn og ýmsar afborganir á lánum og þvílíkt.

Hv. frsm. talaði um, að ekki hefði verið hyggilegt að verja allmiklu fje til aðgerðar á húsi fyrverandi forsrh. Jóns Magnússonar, þar sem það hefði staðið fyrir dyrum að gera við forsætisráðherrabústaðinn. En þá stóð svoleiðis á, að Jón sál. Magnússon bjó í sínu eigin húsi og ætlaði ekki að flytja þaðan. Hinsvegar þurfti hann að láta gera við hús sitt, og með því að enginn staður var hæfur til þess, að konungur gæti gist þar, þótti rjett að slá þessu tvennu saman þá í svipinn. Jón Magnússon dó svo áður en gert hafði verið upp við hann, og þótti þá rjett að greiða þetta alt úr ríkissjóði, en hefði hann lifað, er jeg viss um, að hann hefði greitt mikið af þessari upphæð úr sínum eigin vasa.

Borgunin. til sveins Björnssonar er fyrir ýms störf vegna utanríkismálanna áður en hann varð sendiherra aftur.

Um greiðsluna til dýralæknisins í Reykjavík er það að segja, að hann þóttist samkv. skipunarbrjefi sínu ekki skyldur til þess að veita allar þær upplýsingar og gegna öllum þeim störfum, er stjórnarráðið krafðist af honum, og varð því að greiða þær aukalega. Þetta hefir viðgengist mörg undanfarin ár, og hefir aldrei verið að því fundið fyr en í fyrra, en nú þegar verið er að skipa nýjan dýralækni, ætti að vera hægt að fyrirbyggja þetta.

Þá mintist hv. þm. á flutningskostnað sendiherrans frá Kaupmannahöfn og þær 10 þús. kr., er hann fjekk vegna tjóns, er hann beið við húsakaup. Jeg ljet að sönnu ekki greiða þessa upphæð, en hún var veitt af þinginu í fjárl., og man jeg, að upphæðin stafar af því, að þegar sendiherraembættið var lagt niður, varð Sveinn Björnsson að selja með 30 þús. kr. tapi hús það, er hann þá hafði keypt, og mun þetta vera það, sem ríkið tók þátt í því.

Um styrkinn til landsfundar kvenna 1926 er jeg ókunnugur. En eitthvað mun þó hafa verið talað um þetta á þinginu 1926 og með því að fundurinn átti að vera 1926, þá var víst ákveðið, að styrkurinn skyldi talinn með þess árs útgjöldum. Annars man jeg þetta ekki svo glögt.

Þá mintist háttv. frsm. á 5. og 6. aths. við landsreikninginn, og þó sjerstaklega á þær 25 þús. kr., er veittar höfðu verið til Vestmannaeyinga sem skaðabætur fyrir netjatap. Skýrði hann rjett frá gangi þess mál, að undanteknu því, að hann gat ekki um það, að þegar þessi fjárhæð var greidd, áttu Vestmannaeyingar Þór. Annars get jeg vísað til þess, sem jeg sagði um þetta í eldhúsdagsumræðunum.

Um 5. aths. við landsreikninginn má segja það, að álitamál getur verið, hvar beri að færa slíkan kostnað. Það er nú svo, að hjá honum verður oft og einatt alls ekki komist, því hjer ber iðulega að garði ýmsa gesti, sem ríkið verður að taka á móti. Svo hefir altaf orðið nokkur kostnaður vegna dátanna á varðskipunum, því venja hefir verið að gefa þeim eina máltíð eða bjóða þeim í bíó, eða eitthvað svoleiðis. Hefir það verið venja hingað til að greiða þetta úr landhelgisjóði, en vitanlega er auðvelt að færa þetta yfir á ríkissjóð. Annars stafar mikið af þessum kostnaði frá komu danska hervarnamálaráðherrans. Var ómögulegt fyrir forsrh. að greiða allan þann kostnað af fje því, er honum var ætlað til risnu, en vel má vera, að best yrði ráðið fram úr þessu á þann hátt að hækka risnufjeð.

Þá mintist háttv. frsm. á það, að berklavarnakostnaðurinn væri hár, og er það satt; hann er að mínu áliti gífurlega hár. Og þó jeg hafi nokkra von um, að hann lækki, þá er jeg alls ekki viss um það. Í fyrra voru gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að draga úr kostnaðinum með nýrri löggjöf, en sökum þess, hve lögin frá 1921 um berklavarnir eru ógætilega samin, þá er ómögulegt að komast hjá kostnaði þessum, og þær brtt., sem bornar hafa verið fram við lögin, hafa flestar verið feldar. En ekki kæmi mjer það á óvart, þó þingið yrði að taka í taumana áður en langt um líður.

Hvort reikningar lækna eru of háir, er ekki gott að segja um, en reglan hefir verið sú, að hafi komið ósundurliðaðir reikningar, hafa þeir verið sendir heim aftur. En þá hefir það venjulega farið svo, að þeir hafa verið hærri, er þeir komu aftur sundurliðaðir, svo lítið hefir græðst á því. Yfirleitt er mjög erfitt að ráða við þetta, en víst er um það, að margir læknar hafa talsverðan hagnað af þessum sjúklingum. Þá hefir og kostnaður við sjúkrahúsin verið mjög mismunandi, en úr því hefir verið reynt að bæta með því að hafa ákveðna gjaldskrá til þess að fara eftir, en af því hefir sumstaðar sprottið hin mesta óánægja.