21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

3. mál, landsreikningar 1926

Haraldur Guðmundsson:

Það væri í sjálfu sjer ástæða til þess að hafa ekki alllítið skraf um landsreikninginn í heild sinni, en jeg skal nú samt ekki að þessu sinni lengja umr., en vera má, að jeg tali eitthvað nánar um hann við 3. umr.

Er þá fyrst gengisreikningurinn. Halli á gengisreikningi nemur árið 1926 um 50 þús. kr., og mun mikið af því vera ofgreiðsla til konungs og sendiherrans í Kaupmannahöfn. Hvað snertir liðina 25–30, þá fæ jeg ekki sjeð, að nokkursstaðar hafi verið gert ráð fyrir þeim upphæðum.

Í þessu sambandi þykir mjer rjett að geta þess, að mjer finst það alls ólöglegt, þegar laun starfsmanna ríkisins hafa verið ákveðin í ísl. krónum, að greiða svo sumum þeirra kaup sitt í dönskum krónum. Það mun og rjett, að ferðakostnaður sambandslaganefndarinnar hafi verið greiddur í dönskum krónum, og sömuleiðis styrkurinn til stúdentanna. Virðist það í meira lagi óviðkunnanlegt, er stj. tekur sjer þannig bessaleyfi til þess að greiða í dönskum krónum þær upphæðir, sem veittar eru í íslenskum krónum. Um stúdentastyrkinn stendur þó sjerstaklega á. Fjvn. mun hafa fallist á, að hann skyldi greiddur í dönskum krónum. En auðvitað væri rjett að hækka upphæðina sem gengismun nemur.

Það væri full ástæða til þess að tala alment um landsreikninginn, en jeg mun þó ekki gera það að þessu sinni. Aðeins vil jeg geta þess, að betra mundi vera að haga á nokkuð annan hátt bókfærslu ríkissjóðs en tíðkast hefir. Sú regla hefir tíðkast hingað til að prenta ítarlega sundurliðaða skrá yfir tekjurnar, en því hefir ekki verið hagað svo með gjöldin, heldur hefir aðeins verið sett, til hvers hefir verið greitt, en ekkert hefir sjest um það, fyrir hvað hefði eiginlega verið greitt. T. d. eru í 10. gr. landsreikningsins greiddar 28 þús. kr. fyrir að gegna ríkisfjehirðisstörfum. Er liður sá algerlega ósundurliðaður og því ómögulegt fyrir þm. að átta sig á því, hvernig þessu fje hefir verið varið. Svona má víða grípa niður í reikninginn. Þar eru liðir fjöldamargir, sem ómögulegt er að segja um, hvort stilt er í hóf eða ekki. Væri það strax mikil bót, ef hægt væri að semja heildarskýrslu um það, hvernig gjöldin skiftast niður. Höfum við gert tilraun til þess í ríkisgjaldanefndinni, en hún getur ekki enn sem komið er orðið fullkomin, því í mörgum tilfellum voru gögnin svo ófullnæglandi. Niðurstaða okkar var sú, að síðastl. 12 mánuði hefðu 6 milj. og 92 þús. kr. farið til greiðslu á launum, persónulegum styrkjum, eftirlaunum og þess háttar. Þar við má svo bæta 103 þús. kr., sem er ferðakostnaður til einstakra manna. Af þessu má sjá, að til einstakra manna eru greiddar 6 milj. og 200 þús. kr., og er þetta fullur helmingur af útgjöldum ríkissjóðs. Þau laun, sem gert er ráð fyrir, að greidd sjeu fyrir ákveðið starf, eru ekki nema helmingur af þessari upphæð. Um 3 milj. og 180 þús. kr. eru greiddar í lögboðin laun föstum starfsmönnum, en yfir 900 þús. kr. er greitt fyrir aukavinnu. Mun það og oft eiga sjer stað, að ýmsir starfsmenn ríkisins taki laun á fleiri en einum stað, og dæmi munu þess, að sami maður taki jafnvel laun á 4 stöðum fyrir störf í þágu ríkisins. Kaupið fyrir þessi aukastörf er um 25% af lögmætum launum þessara starfsmanna. Svipað er að segja um kennarana við mentaskólann. Eftir lögunum eru laun þeirra 94 þús. kr. En þeir fá fyrir aukakenslu í skólanum um 19400 kr., eða 20% af laununum. Þetta sama má segja um meiri hluta opinberra starfsmanna. Þeir gegna aukastörfum fyrir ríkið og fá sjerstaka borgun fyrir þau. Oftlega vinna þeir aukastörfin fyrir sömu stofnanirnar og þeir eru ráðnir hjá sem fastir starfsmenn. Jeg tel þetta ákaflega varhugavert fyrirkomulag. Væri miklu rjettara að hækka laun starfsmannanna, þar sem þess er þörf, en taka svo algerlega fyrir aukastörfin — krefjast þess, að þeir leggi alla starfskrafta sína fram til að rækja embætti sitt.

Næst vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. stj., hvernig standi á þeirri miklu aukningu eftirstöðva hjá fjárheimtumönnum ríkissjóðs og eftirgjöfum, sem færðar eru hjer í skýrslunni. Sjerstaklega er eftirtektarverð hin mikla eftirgjöf í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar hafa verið gefnar eftir á árinu kr. 85289,30, og eru þó eftir ógreiddar kr. 46716,98. Er það eftirtektarvert, að tekju- og eignarskatturinn, sem langmest vantar á að greiddur sje, er ekki nema kr. 103835,77 þetta ár, eða miklum mun lægri upphæð en niðurfærslan og eftirstöðvarnar til samans. Endurskoðunarmennirnir geta þess, að þeir hafi ekki haft tækifæri til að fara yfir eftirgjafalista frá öðrum stöðum en Reykjavík. En þar nemur eftirgjöfin kr. 57034,40. Hafa endurskoðendur athugað þær upphæðir, sem gefnar eru eftir, og telja, að sumar þeirra mundu hafa verið fáanlegar, ef ríkar hefði verið gengið eftir. Við aths. um vangreiðslur annarsstaðar eru svör ráðh. þau, að þar verði að fara eftir umsögnum sýslumanna. En jeg vænti þess, að hæstv. fjmrh. sjái sjer fært að láta þinginu í tje nokkru nánari skýrslu um eftirgjafirnar og hvernig á þeim stendur. Sjerstaklega væri æskilegt, að þessi hv. deild gæti fengið einhverja skýringu á hinni háu upphæð í Gullbringu- og Kjósarsýslu fyrir 3. umr. Þá hafa og endurskoðendur litið svo á, að aukning eftirstöðvanna í Barðastrandarsýslu og Ísafjarðarsýslu gæfi tilefni til sjerstakrar athugunar. Í Barðastrandarsýslu hafa þær vaxið úr kr. 16187,49 upp í kr. 34885,08, og í Ísafjarðarsýslu — að kaupstaðnum meðtöldum — úr kr. 8116,60 upp í kr. 50477,63.

Endurskoðunarmenn hafa fundið að því, að ekki skuli hafa verið gerður upp reikningur landhelgisjóðs fyrir árið 1926. Stj. svarar því, að hann hafi ásamt fylgiskjölum verið afhentur ríkisgjaldanefndinni. Þetta er ekki rjett. Ríkisgjaldanefndin hefir ekki fengið annað en skrá yfir greiðslur ríkisfjehirðis eftir ávísunum frá stjórnarráðinu. Eftir því, sem jeg best veit, hefir aldrei verið gerður neinn heildarreikningur yfir landhelgisjóðinn. Reikningar yfir greiðslur sjóðsins munu vera til a. m. k. á 4 stöðum, því að svo víða hafa farið fram greiðslur úr honum. Hjá sendiherranum í Kaupmannahöfn hefir verið greiddur kostnaður vegna manna, sem fóru til að sækja varðskipið Óðin, svo og kaupverð þess að mestu leyti. Þá hefir og talsvert fje verið greitt í dómsmálaskrifstofunni. Í þriðja lagi eru greiðslur ríkisfjehirðis. Loks hefir Ólafur Sveinsson annast greiðslur sjóðsins og bókhald frá 1. júlí. Hefir hann afhent nefndinni reikninga frá þeim tíma til ársloka og að nokkru leyti frá fyrri hluta ársins. En þó vantar þar a. m. k. alla þá reikninga, sem eru hjá sendiherranuúm. En þegar þeir eru komnir, verður að líkindum reynt að gera reikninginn upp endanlega.

Þess var getið í umr. á eldhúsdaginn, að frumreikninga vantaði yfir fjölda upphæða, sem greiddar hafa verið úr sjóðnum. Þetta er auðvitað afleitt. En auk þess verð jeg að telja það ákaflega óviðfeldið og jafnframt broslegt að færa t. d. til útgjalda kostnað við hestahald landhelgisjóðs. Sú upphæð nemur 5 þús. kr. Mjer er óskiljanlegt, að landhelgisjóður hafi nokkurn skapaðan hlut með hesta að gera. Þó að það kunni að þykja nauðsynlegt, að ráðherrarnir hafi gæðinga til að skemta sjer á öðru hverju, sje jeg ekki, að landhelgivörnunum komi það neitt við. Þá þykir mjer fremur óeðlilegt að færa veisluhöld fyrir um 10 þús., kr. hjá landhelgisjóði. Ef nauðsyn ber til að taka opinberlega á móti erlendum gestum og gefa þeim mat og vín, á ríkið vitanlega að borga það, en ekki landhelgisjóður. En jeg þykist vita, að þessar upphæðir sjeu færðar landhelgisjóði til útgjalda í þeirri von, að þær stingi almenning þá minna í augu en ef þær væru birtar í landsreikningnum, sem er öllum opiínn. Aðra skýringu er mjer ómögulegt að finna á þessari einkennilegu reikningsfærslu. Fyrir henni getur ekki verið nokkur skynsamleg ástæða önnur en sú að dylja landsmenn hins sanna um þessar greiðslur.

Á greiðsluna fyrir netjatöp Vestmannaeyinga, 25 þús. kr., hefir áður verið drepið. Jeg skal ekkert segja um það að svo stöddu, hvort ástæða hafi verið til að greiða þetta eða ekki. En hitt orkar ekki tvímælis, að upphæðin er greidd í fullkomnu heimildarleysi. Það getur verið, að ástæða hafi verið til að bæta Vestmannaeyingum þessi netjatöp, sem þeir urðu fyrir vegna fjarvistar varðskipsins. En það er alveg óverjandi athæfi af fyrv. stjórn að taka sjer bessaleyfi til þess að borga út upphæðina, en minnast ekki á það við þingið, sem einmitt mun hafa staðið yfir um þetta leyti. (MG: Þetta er ekki rjett). Jeg hefi vitneskju mína um þetta frá hv. þm. Vestm. og vænti, að hún sje rjett. (JJóa: Jeg skal upplýsa þetta seinna). En ekki er alt upptalið enn. Í ársbyrjun 1927 eru Vestmannaeyingum aftur greiddar 5 þús. kr. fyrir netjatöp. Og það er líka gert í heimildarleysi. Jeg verð að segja, að jeg kann þessu afarilla. Jeg skal geta þess, að jeg hefi einhversstaðar sjeð skrá, þar sem sundurliðað er veiðarfæratjón einstakra manna og skýrt frá þeim skaðabótum, sem hver fjekk tiltölulega. En þessi skýrsla er engin afsökun fyrir því, að fyrv. stjórn skyldi fara á bak við þingið.

Eitt af því, sem yfirskoðunarmennirnir benda á, er, að skrifstofukostnaður lögreglustjórans í Reykjavík fari mikið fram úr áætlun, eða um 45 þús. kr. árið 1926. Nú fylgja að vísu mikil störf þessu embætti, en fyrir mörg þeirra er greidd allveruleg aukaborgun.

Þannig eru lögreglustjóra greiddar 25 þús. kr. fyrir tollgæslu, aðallega merkingu á tóbaki, og 35 þús. kr. fyrir rannsóknir sakamála. Landsreikningurinn sýnir því ekki nema nokkurn hluta löggæslu- og tollgæslukostnaðar. Þessar 60 þús. kr. bætast við kostnað embættisins.

Þá koma ýmsir liðir, þeir sem taldir eru til óvissra útgjalda, mjer mjög á óvart, svo sem t. d. vín handa ríkisstjórninni, kr. 1340,50. Ráðherra segir, að þetta sje vín, sem keypt hafi verið vegna konungskomunnar. En hafi þessi glaðning á annað borð verið nauðsynleg í stjórnarráðinu vegna konungskomunnar, hefði verið rjett að færa hana meðal annars kostnaðar við móttöku konungs. (MG: Eiga þetta að vera dylgjur?). Jeg mótmæli því, að jeg sje að fara með nokkrar dylgjur. Slíkt er ekki minn siður. En það er sannarlega ástæða til að láta sjer detta margt í hug, þegar vínið flýtur í stríðum straumum á kostnað ríkissjóðs og áfengisnautn er jafnvel talin til strandvarna, sbr. veisluhald landhelgisjóðs.

Á eldhúsdaginn var talsvert rætt um annan kostnað af konungskomunni, t. d. það fje, sem varið var til aðgerðar á húsi Jóns heitins Magnússonar. Yfirskoðunarmenn telja fje þetta kr. 14923,02. En ríkisgjaldanefndinni hefir talist svo til, að það mundi alls nema rúml. 23 þús. kr. Verð jeg að álíta, að sú tala sje rjettari, og gæti stafað af því, að yfirskoðunarmennirnir hefðu ekki haft í höndum alla þá reikninga, sem að þessu lúta og komið hafa frá ekkju hins látna forsrh. Jeg skal ekki vera margorður um þessa ráðstöfun. En jeg get verið sammála hv. 1. þm. Skagf. um, að þessi greiðsla mundi varla hafa orðið svona há, ef Jón heitinn Magnússon hefði lifað. Það er óskiljanlegt, að hann hefði leyft sjer að borga sjálfum sjer svo háa upphæð. Og það er líka ákaflega athugunarvert, að fyrv. stj. skyldi leyfa sjer að greiða þetta, þar sem mikið af þeim umbótum, sem gerðar voru, eru varanleg eign. Til viðbótar er svo húseigandanum, J. M., greidd húsaleiga áfengisverslunarinnar eftir sem áður, meðan á aðgerðinni stóð og konungur bjó í húsinu, þó að vitanlega yrði að flytja hana burt úr húsinu allan þann tíma. Jeg ætla þetta umstang alt tæki um 3 mánuði. Mætti þó ætla, að ekki væri hægt að meta viðgerðina á húsinu minna en húsaleigu verslunarinnar þann tíma, sem verkið stóð yfir.

Þá geta yfirskoðunarmenn þess, að kr. 1664,15 hafi verið greiddar fyrir gólfdregla o. fl., sem bæjarfógetinn á Ísafirði hafi pantað vegna konungskomunnar. En til Ísafjarðar kom konungurinn aldrei. Mikils þykir þeim við þurfa, hinum konunghollu mönnum.

Berklavarnakostnaðinn hafa yfirskoðunarmenn gert að umtalsefni og bent á, að hann færi ískyggilega vaxandi. Um hann er svipað að segja og landhelgisjóðinn, að reikningsfærsla er í allra bágbornasta lagi. Greiðsluupphæðirnar eru færðar, en frekari upplýsingar vantar víðast. Tvö ár hefir verið sýnd viðleitni til að greina sundur aðalkostnaðarliðina, svo sem fyrir sjúkrahúsvist og læknishjálp. En eins og hv. 1. þm. Skagf. drap á áðan, er fjöldi af reikningum lækna ósundurliðaður. Þó hefir ríkisgjaldanefndin reynt að gera skýrslu fyrir árið 1926, en ýmsar tölur vantar til þess, að hægt sje að fullgera hana. M. a. hefir það verið reiknað út, að læknishjálpin nemur á dag 10 aurum fyrir hvern sjúkling í heilsuhælum ríkisins. Í stærri sjúkrahúsum úti um land nemur hann 50–60 aurum. En í einkaspítölum hjer í Reykjavík, t. d. Landakoti, kemst hann upp í eina krónu fyrir hvern sjúkling á dag. Kemur hjer í ljós nokkuð mikill munur, enda er enginn vafi á, að sumstaðar er kostnaðurinn nokkuð hátt reiknaður. Það hefir komið fyrir, að stj. hefir neitað að greiða reikninga og fengið þá lækkaða. Verst er þó, að reikningarnir eru flestir ósundurliðaðir, svo að ekki verður sjeð, hver hl. er læknishjálp, lyf eða umbúðir, nje hve mikil hjálpin er. En jeg tel sjálfsagt, að beinlínis ætti að fyrirskipa sundurliðaða reikningsfærslu yfir berklavarnakostnaðinn, og greiða hann ekki að öðrum kosti.

Jeg skal viðurkenna það í þessu sambandi, að berklavarnirnar eru nokkuð þungur baggi á ríkinu. En menn mega ekki gleyma því, að sá baggi hvílir á þjóðinni hvort sem er. Hún verður á einhvern hátt að sjá fyrir berklasjúklingum sínum og verjast sýkingarhættu. En býrðin verður ljettari fyrir ríkissjóð en einstaklinga. Það er ódýrara að hafa marga sjúklinga saman í heilsuhælum en dreifða í einstökum sjúkrahúsum eða heimilum úti um land. Á meðan veikin er í landinu, verður þjóðin að taka afleiðingum hennar, bera kostnaðinn og sjá um aðgerðir til að reyna að útrýma henni. Og þá er beinlínis „praktiskt“ að láta ríkissjóð annast framkvæmdirnar. Auk þess liggur það í augum uppi, að mikil hætta stafar af veikinni fyrir þá heilbrigðu. Þessar ráðstafanir eru því ekki gerðar í gustukaskyni vegna sjúklinganna, heldur miklu fremur vegna hinna heilbrigðu, þeim til varnar. Því er fyllilega rjettmætt, að þeir beri kostnaðinn af vörninni.

Orð mín má ekki skilja svo, að jeg sje á móti sparnaði á þessum lið. Fyrsta skrefið til að geta dregið úr kostnaðinum er að heimta nákvæma sundurliðun reikninganna. Jeg vil leyfa mjer í þessu sambandi að benda á, að jeg hefi flutt frv. um breyting á launum embættismanna, þar sem gert er ráð fyrir nýjum læknataxta. Það er fyllilega rjettmætt að setja sjerstakan taxta fyrir þá lækna, sem starfa við sjúkrahús og fyrir opinbert fje. Mjer er kunnugt um, að í hinum stærri kaupstöðum úti um land fá læknar mikið fje frá hinu opinbera fyrir hjálp sína til berklassjúklinga. Á Akureyri hefir þetta t. d. numið yfir 10 þús. kr. árið 1926.

Það er ótal margt fleira, sem ástæða væri til að tala um í sambandi við þennan landsreikning, t. d. fálkaorðan sæla. Kostnaðurinn við hana er nú alls kominn yfir 60 þús. kr. 1926 er hann 12 þús. danskar kr. Þessi heiðursmerkjareikningur er býsna skrítinn og fróðlegur til athugunar. Þar er hægt að fá allgóða hugmynd um verð þessarar nauðsynjavöru. Kross af 1. gráðu kostar t. d. 300 kr., kross af 2. gráðu eitthvað minna. Hylkin kosta 15, 20, 25 og upp að 30 kr., eftir því hve til þeirra er vandað. Og svo eru talsverð útgjöld við að fægja krossana, svo að þeir líti vel út, þegar þeir eru afhentir. Og fleira mætti um þetta segja.

Nú skal jeg ljúka máli mínu, og er þó sitt af hverju ótalið, sem ástæða væri til að minnast á. En jeg vil ítreka þau tilmæli mín til hæstv. stj., að hún sjái svo um, að fyrir hv. fjhn. eða þessari hv. deild liggi áður en umr. lýkur nákvæm skýrsla um stærstu eftirgjafirnar, t. d. í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Svo alvarlegt mál krefst ítarlegrar rannsóknar.