21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

3. mál, landsreikningar 1926

Magnús Jónsson:

Það lítur sannarlega út fyrir, að ekki þurfi að hvetja þetta þing til eldhúsverka, þar sem svo langt er gengið að gera eldhúsdag úr umræðum um landsreikninginn. Jeg ætla ekki að taka þátt í þeim störfum. Aðeins vildi jeg leyfa mjer að beiðast nokkurra upplýsinga um landsverslunina. Gæti henni jafnframt verið beint til hæstv. fjmrh., ef hv. frsm. hefði ekki tækifæri til að svara því. Í landsreikningnum að þessu sinni eru alveg sömu skýrslur um landsverslunina eins og þær, sem komu hjer fram á þingi í fyrra og jeg lýsti þá fyrir hv. þm. Kemur það fram í svörum ráðherra, þar sem hann segist ekki þurfa að svara athugasemdum yfirskoðunarmanna, af því að þær sjeu endurtekning af athugasemdum í fyrra og þeim hafi þá verið fullsvarað. Nú er það auðvitað, að yfirskoðunarmennirnir, sem munu hafa starfað í nóvember og desember, hafa ekki haft fyrir sjer nýrri skýrslur en þessa. En á hinn bóginn má búast við, að nýrri skýrslur hafi legið fyrir nefndinni, þegar hún hafði þetta til meðferðar. Það stendur alveg sjerstaklega á með þetta núna, þar sem hjer var samþ. í fyrra þáltill. um að gera upp reikninga verslunarinnar og kalla inn skuldir hennar. Jeg vil því spyrja nefndina, hvort hún hafi haft fyrir sjer reikninga verslunarinnar 1927 og hverjar hafi verið útistandandi skuldir hennar í árslok þá. Þó yfirskoðunarmenn landsreikninganna hafi ekki haft fyrir sjer yngri reikninga en frá 1926, mun mörgum þykja fróðlegt að heyra eitthvað um ástæður þessarar verslunar seinna og um útistandandi skuldir hennar.