21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

3. mál, landsreikningar 1926

Jóhann Jósefsson:

* Jeg hefði gjarnan viljað bíða þangað til hv. þm. Ísaf. er kominn, svo að hann megi heyra mál mitt. Mjer þykir skylt að gera nokkra grein fyrir því, er Vestmannaeyingum var bætt upp veiðarfæratap það, er þeir urðu fyrir á vertíðinni 1926, þó að jeg hafi áður, við svokallaðar eldhúsdagsumræður hjer í deildinni, gert ítarlega grein fyrir þessu, þar sem það þá var af hæstv. dómsmrh. gert að nokkru árásarefni jafnvel á mig og kjósendur mína. Háttv. þm. Ísaf. vjek nú nokkuð að þessu og hv. frsm. fjhn.; og skal jeg strax taka það fram, að það er misskilningur hjá hv. þm. Ísaf., að jeg hafi sagt honum, að greiðsla fyrir þetta tap hafi átt sjer stað meðan þing sat. Hitt er satt, að jeg sagði honum, að tapið hefði orðið í aprílmánuði; getur verið, að hann hafi haldið, að greiðsla hafi átt sjer stað þá þegar, en svo var ekki.

Það hefir verið upplýst bæði af mjer og hv. 1. þm. Skagf., að þegar veiðarfærin töpuðust, var varðskipið „Þór“ eign Vestmannaeyinga, en ekki ríkisstjórnarinnar. Það var gert út af Björgunarfjelagi Vestmannaeyja með fjárstyrk aðallega frá Vestmannaeyjakaupstað, en þó nokkrum styrk úr ríkissjóði. Annars er rjett til skýringar að minna á það, að síðustu árin, sem Björgunarfjelagið átti skipið og gerði það út, var farinn að koma svona hálfopinber blær á þessa starfsemi, þannig að þótt skipið væri eign Vestmannaeyinga og skipverjar launaðir af Björgunarfjelaginu, þá var það farið að standa í beinu skeytasambandi við ríkisstjórnina viðvíkjandi björgun og landhelgigæslu, jafnvel án milligöngu Björgunarfjelagsins, og algerlega að því er snerti landhelgigæsluna. Þetta þykir mjer rjett að taka fram, af því að það sýnir best, hvernig þetta var í apríl 1926, að skipið fór eftir eindregnum tilmælum annað en því var ætlað af eigendum þess. Jón Magnússon var þá dómsmrh., og hann lagði mjög eindregið að Björgunarfjelaginu að gefa samþykki sitt til þess, að skipið færi í eftirlitsferð austur með söndum laust eftir miðjan apríl. Það var kvartað svo ákaft undan ágangi togara, að hann þóttist ekki geta daufheyrst við, og við vildum gjarnan, að svo miklu leyti sem unt var, verða við tilmælum stj. Hinsvegar var þetta sá tími, er mestu skifti Vestmannaeyinga vegna veiðarfæragæslu, að skipið hyrfi alls ekki burtu af fiskiveiðasvæðinu. Tilmæli ráðherra komu til mín, af því að jeg var hjer staddur í Reykjavík, en þar fyrir utan varð jeg þess var, að ráðuneytið skifti hjer um bil daglega skeytum við skipstjóra á björgunarskipinu, sem „Þór“ var þá. Svo kemur þetta fyrir, að fyrir þrábeiðni ríkisstjórnarinnar verður þetta úr, að skipið fer þessa för. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp brjef frá Björgunarfjelaginu um þetta efni til ríkisstjórnarinnar, sem er dagsett 10. nóv. 1926:

„Eins og ráðuneytinu er kunnugt, bar svo til í vetur er leið, að björgunar- og eftirlitsskipið „Þór“, sem um það skeið var á vegum Björgunarfjelags Vestmannaeyja og hafði gæslu á netasvæðinu S.-V. af Eyjunum, fór 18/4 fyrir endurtekin tilmæli ráðuneytisins austur með söndum og kom 21. s. m. með 4 þýska togara, sem allir voru dæmdir í fullar sektir fyrir veiðar innan landhelgi. En af burtveru skipsins af netasvæðinu leiddi það, að togarar gerðu usla mikinn í netunum, og urðu Eyjamenn fyrir stórkostlegu afla- og veiðarfæratjóni.

Burtför skipsins af netasvæðinu kom öllum á óvart; enginn hafði búist við því, að skipið mundi yfirgefa netasvæðið þessa daga, er mátti heita aðaluppskerutími netabátanna.

Björgunarfjelagið hafði ekki gefið skipun um þessa ferð; hitt var framkvæmdarstjórn fjelagsins ekki ókunnugt, að skeyti fóru á milli skipstjóra og ráðuneytisins um ferðina, og ljet hún það að mestu leyti hlutlaust, en var þó ekki mótfallin því, að ráðuneytið gæti notað skipið sem unt væri til að gæta landhelginnar.

Eyjamenn urðu mjög gramir yfir töpum sínum, og gekk það, svo langt, að stjórn Björgunarfjelagsins fór þess á leit við forsætisráðherra, að landhelgisjóður bætti mönnum tap það, er orðið hafði, að minsta kosti að því er veiðarfærin sjálf snerti. Var vel tekið í það, bæði af honum og síðar af fjármálaráðherra, sem málið hefir síðar komið til.

Skipið mun hafa aflað landhelgisjóði í þessari för að minsta kosti 60 þús. króna (4 togarar. „St. Paulli“. „Norburg“, „Lapland“, „Deeme“, fullar sektir, og upptækur afli og veiðarfæri). Veiðarfæratapið er samkvæmt hjálagðri skýrslu og meðfylgjandi vottorðum um 25 þús. kr. Aflatapið var alveg stórkostlegt, en vjer teljum ekki fært, að sá skaði verði bættur. Aftur á móti sýnist eftir atvikum öll sanngirni mæla með því, að landhelgisjóður bæti hið beina tap á veiðarfærum, og væntir stjórn Björgunarfjelagsins, að ríkisstjórnin sjái sjer fært að gera það.

Skýrslan um töpin er tekin upp af skrifstofu fjelagsins eftir skriflegum yfirlýsingum formanna“.

Skýrslunni um töpin fylgdi eiginhandar yfirlýsing bátaeigenda, sem í hlut áttu, og liggja þau skjöl vitanlega í stjórnarráðinu. Jeg fór fram á það í dag að fá þau lánuð; en gat ekki fengið þau að svo komnu; en afrit af þessu brjefi hafði jeg í plöggum mínum hjer, og af því að fundarhlje var, gat jeg nálgast það. Síðar en þessi skýrsla var gerð komu til staðar 4–5 bátar, sem ekki höfðu gefið skýrslu á rjettum tíma, og þeirra tapsskýrslur og reikningar voru send síðar; það er sú upphæð, sem hv. þm. Ísaf. mintist á, að hefði verið borguð seinna meir. Alls hefir landhelgisjóður greitt um 30 þús. kr. fyrir þessi töp. Og aðalgreiðslan fór fram, ekki á þeim tíma, er hv. þm. Ísaf. sagði, á meðan þing sat, heldur í nóvember sama ár.

Jeg hefi ennfremur í höndum nokkurn útdrátt úr dagbók skipsins frá þessari ferð, og sömuleiðis ýmsar upplýsingar frá skipstjóranum, vegna þess að það var nauðsynlegt fyrir fjelagið að rannsaka, hvernig á öllu hefði staðið.

Jeg get nú ómögulega sjeð, hvernig hv. þm. Ísaf. álítur það orka mikils tvímælis, hvort átt hefði að greiða þennan skaða. Mjer finst það svo augljóst mál, þar sem Björgunarfjelag Vestmannaeyinga skattlagði sjálft sig á þessu tímabili til þess að halda úti skipinu til veiðarfæragæslu. Svo lætur skipstjórinn til leiðast fyrir þrábeiðni ríkisstjórnarinnar að fara til þess að reyna að hefta frámunalegan yfirgang togara, og tekst það svo vel, að hann aflar landhelgisjóðnum í þessari för — mjer er óhætt að segja 60 þús. kr. Háttv. frsm. sagði það hafa verið um 50 þús. kr.; en það er alveg augljóst, að það hefir hlotið að fara fram úr því, því að meðalsektir 4 togara gerðu þá og gera enn 50 þús. kr. ísl. En svo var upptækur gerður afli og veiðarfæri á öllum þessum skipum, og er það ekki ofmetið á 10 þús. kr. Annars hefi jeg ekki rannsakað ofan í kjölinn, hvað landhelgisjóður bar úr býtum. En mjer virðist það hafa verið á fullri sanngirni bygt að greiða hið beina tap á veiðarfærum. Það er og vitanlegt, að hjer er ekki um veiðarfæratjónið eitt að ræða, heldur aflatjón um leið, bæði þessa daga frá 21.–28. apríl, og ennfremur urðu margir bátar að liggja í lamasessi um tíma, hvað veiðarfæri snerti, og öfluðu því miklu minna á vertíðinni. En að þetta gat komið fyrir, að skipið hyrfi frá veiðarfæragæslu og til landhelgigæslu, það kemur af því ástandi, sem orðið var síðustu árin, að starfsemi Björgunarfjelagsins var farin að verða það viðurkend af ríkisstjórninni, að hún var farin að hlutast til um skipið með eigendum þess, með því að biðja það að fara þessa og þessa eftirlitsferð, þegar henni lá á.

Þegar það er vitað, að skipið fer þessa ferð án leyfis eigenda og að af ferðinni hlýtst svo mikið tjón, sem jeg hefi þegar lýst, þá hygg jeg það sje nægilega upplýst, að það hafi ekki verið annað en sanngirni og rjettlæti, að Vestmannaeyingum hafi verið bætt fyrir. Og þegar þess er ennfremur gætt, hvað þeir hafa lagt á sig til þess að halda uppi þessari gæslu, þá vil jeg spyrja hv. þm. Ísaf., hvort hann álíti það orka nokkurs tvímælis, að þennan skaða ætti að bæta af hálfu þeirra, sem stóðu fyrir því, að skipið fór förina. Jeg get ekki skilið, að hv. þm. álíti, að fiskimenn og bátaeigendur í Vestmannaeyjum hafi undir öllum kringumstæðum einir átt að bera þann skaða, sem þeim var gerður.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.