21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

3. mál, landsreikningar 1926

Magnús Jónsson:

Jeg fjekk heldur lítil svör við þeim spurningum, sem jeg bar fram áðan til hæstv. fjmrh. Jeg verð að segja, að jeg var hissa á þeirri ræðu, sem hæstv. ráðh. þuldi yfir hausamótunum á okkur áðan. Mjer er næst að halda, að hann hafi fundið einhverja reykjarstybbu framan úr eldhúsi og því komist í það eldhússkap, sem hann komst, þegar hann fór að verja stjórn sína á landsversluninni og tala um, hversu lítil töp hefðu orðið á henni.

Jeg var hissa á þessu, því að jeg mintist ekki einu orði á landsverslunina og rekstur hennar eða töp, heldur var jeg aðeins að biðja um nýrri skýrslu um hag landsverslananna en þær, sem LR. ber með sjer. Jeg ætlast alls ekki til, að skuldir landsverslunar verði innheimtar í hasti, og mintist yfirleitt ekkert á þetta, heldur fór jeg fram á vitneskju um, hvað þessu liði. Með þál. frá í fyrra var heldur ekki til þess ætlast, og vil jeg leyfa mjer að lesa hjer, með leyfi hæstv. forseta, 3. lið hennar, sem um þetta ræðir. Hann hljóðar svo:

„Að gerð sje gangskör að því að semja um og kalla inn útistandandi skuldir steinolíuverslunarinnar, og að framvegis verði gætt varúðar um útlán“.

Jeg er hæstv. ráðh. alveg sammála um flest af því, sem hann sagði um þetta yfirleitt, en jeg veit ekki vel, hvað hann átti við með því tapi, sem hann var að tala um, að hefði jetið upp varasjóð landsverslunar. Það var settur á tollur til að bæta þetta upp og það var ákveðið, að hann skyldi falla niður, þegar landsverslun hefði fengið sitt uppborið.

Jeg sje ekki annað en að við getum snarað okkur að deila um þetta. Tilgangur minn var auðvitað aðeins sá, að fá að vita, hvernig innheimtan hefir gengið. Að jeg hafi verið að deila á hæstv. ráðh. eða stj. hans á landsverslun með þessu, er alveg fjarstætt. Jeg man heldur ekki betur en að jeg hafi einu sinni undirskrifað þingskjal, þar sem farið var mjög lofsamlegum ummælum um stjórn hans á landsverslun. Jeg fyrir mitt leyti skal ekki fara lengra út í þetta, en aðeins endurtek þá ósk, að fá upplýsingar um skuldir landsverslananna í árslok 1927. Jeg legg ekki áherslu á, að þær komi fram nú; það getur staðið svo á, að hæstv. ráðh. eigi óþægilegt með að gefa þær að svo stöddu. En jeg teldi æskilegt, að þessar tölur lægju fyrir við 3. umr., og mun jeg þá endurtaka þessar óskir mínar um upplýsingar í þessu efni.