21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

3. mál, landsreikningar 1926

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Mjer þótti það næsta furðulegt, að hv. 1. þm. Reykv. fann sig móðgaðan af því, að jeg talaði nokkur orð alment um starfsemi landsverslunar fyrr og nú. Þetta voru aths. almenns efnis, sem áttu beint við málið, sem fyrir lá. — Ef á að skoða þetta sem beina fyrirspurn til mín, þessar aths., sem hann kveðst hafa komið fram með, þá get jeg ekki svarað henni að svo stöddu. Hv. fjhn. hefir ekki heldur enn fengið skýrslu um þetta, og stafar það af því, að enn eru ekki komnir reikningar bæði frá útlöndum og hingað og þangað að innanlahds. Það er enda mjög óvanalegt með stærri fyrirtæki, að hægt sje að lúka reikningsskilum þeirra fyrir liðið ár fyr en eftir lok fyrsta ársfjórðungs. Jeg skal hinsvegar lofa hv. 1. þm. Reykv. því, ef það mætti verða honum til hugarhægðar, að þessir reikningar skuli lagðir fram svo fljótt, sem verða má, og jeg vona, að þeir verði þá svo úr garði gerðir, að hv. nefnd þurfi ekki að leggja mikla vinnu í þá. Jeg get þó ekki lofað, að þeir verði komnir við næstu umr. um landsreikninginn. — Annars var ræða hv. þm. lítið efni til ágreinings okkar í milli. Hann sagðist yfirleitt vera mjer sammála um flest, og vona jeg, að svo verði einnig framvegis.

Þessi hv. þm. gat þess, að sjer væri ekki kunnugt, að verslunin hefði þurft að greiða kolatap af sjóði sínum. Það kann vel að vera, að honum sje ókunnugt um það, en mjer er það mjög vel kunnugt. — Þegar vopnahljeð var samið 1918, lágu hjer mjög miklar kolabirgðir, sem þá fjellu geysilega í verði, eða alt úr 300 í 100 kr. tonnið. Eins og geta má nærri, varð af þessu mikill halli, og var þá ákveðið að leggja toll á kol til bráðabirgða, til þess að ná tapinu upp að einhverju leyti, og þetta kannast hv. þm. við. En síðan kom kolaverkfallið mikla í Englandi, og urðu afleiðingar þess nokkuð líkar. Þá lágu fyrir feikna birgðir af kolum, og þegar sjáanlegt þótti, að kolaverkfall væri í aðsigi, var eftir fyrirskipun stj. gert alt til þess að birgja landið upp með kol, til þess að sjávarútvegurinn þyrfti ekki að stöðvast. Steig þá verð á kolum upp úr öllu valdi, og þau varð að sækja bæði til Belgíu og Þýskalands. Þegar verkfallinu lauk, lækkaði verðið. aftur, og voru þá til afarmiklar birgðir af kolum, og leiddi af þessu stórtjón fyrir verslunina.

Þarf jeg svo ekki að orðlengja um þetta frekar, því að jeg vænti þess, að reikningarnir verði komnir svo snemma, að Alþingi geti kynt sjer þá.

Viðvíkjandi þeirri áskorun, er hv. þm. Ísaf. beindi til mín, hvort jeg vildi upplýsa um eftirgjöf á tekjuskatti 1926, vil jeg geta þess, að jeg vil ekki skorast undan því, en hinsvegar hefði jeg haldið, að hv. þm. hefði haft svo gott tækifæri til þess að kynna sjer gjöld ríkisins, að hann ætti að geta aflað sjer þessara upplýsinga sjálfur. Annars getur vel verið, ef jeg hefi tíma til þess, að jeg hjálpi honum til þess að afla sjer þeirra upplýsinga.

Jeg geri ráð fyrir því, eins og svarið við aths. við þennan lið ber með sjer, þá megi ekki búast við því, að mikið sje hægt upp úr því að hafa, þótt lagður væri fram nafnalisti yfir þá menn, sem ekki hafa getað greitt þennan skatt. Segir svo í svari við aths., að þegar búið sje að reyna lögtak, sje ekki um annað að gera en að útfæra þetta sem ófáanleg gjöld.

Það er viðurkend regla, þegar skattgreiðandi er öreigi, þá er í flestum tilfellum viðhöfð sú aðferð að telja skuldir hans ófáanlegar. Það getur verið, að þessi gjöld kunni að fást síðar, ef þau eru geymd nógu lengi og efnahagur skattgreiðanda hefir tekið þeim breytingum, en jeg tel það mjög hæpið og ekki mikið leggjandi upp úr því. Jeg sje því ekkert við það að athuga, þótt þau gjöld, sem reynt hefir verið að ná inn með lögtaki, sjeu útfærð sem ófáanleg og strikuð út úr reikningnum.

Þá er annað atriðið, og það er þessi rekistefna út af konungsmötunni. Í mínum augum er það álitamál, hvort hún sje fyllilega rjettmæt. Jeg sje ekkert eðlilegra en að starfsmenn ríkisins taki sín laun í gjaldeyri þess lands, er þeir lifa og starfa í. Tel jeg að gildi alveg hið sama um þetta atriði og um laun sendiherra í Kaupmannahöfn. Jeg vil taka þetta fram til þess að fyrirbyggja misskilning, svo að annars verði ekki vænst af mjer í máli þessu. Geta þá þeir menn, er sjerstakan áhuga hafa á þessu máli, gert þær ráðstafanir, er þeim þykja nauðsynlegar.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar, enda hjelt jeg, að menn hefðu haft tækifæri til þess að seðja ádeilufýsn sína og aðfinslusýki nægilega áður, og vænti þess, að nú muni ganga greiðlega að afgr. þetta mál og önnur.