21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

3. mál, landsreikningar 1926

Hannes Jónsson:

* Jeg verð að segja, að mjer þótti miður, er hæstv. fjmrh. taldi sjer ekki fært að láta kostnað utanríkismálanna koma á rjettan lið í landsreikningnum. Því að þótt þessi liður standi nú á gengisreikningnum, þá virðist mjer mjög auðvelt að færa hann og setja hann á rjettan stað eins og aðra liði. Þótt gengishækkunin sje ekki tekin upp í fjárl., finst mjer sjálfsagt að færa þann lið á landsreikninginn og láta hann koma sjerstaklega fram til aukafjárveitinga, þegar leitað er samþykkis Alþingis á þeim, en ekki sem óviss gjöld. Það er harla óviðkunnanlegt, þegar að því er gætt, hve mikið ríkið leggur fram í þessu skyni, þá sje ekki hægt að komast að rjettri niðurstöðu um það. Þessir liðir hafa altaf verið villandi frá því að þeir komu inn í landsreikningana 1920, eða frá því laun sendiherra fyrst komu til greina. Jeg býst við því, að til þessa tíma sje gengismunurinn þegar orðinn á annað hundrað þús. kr., og verð jeg að telja það alveg óviðunandi. Þykir mjer mjög leitt, ef stj. sjer sjer ekki fært að bæta úr þessari villu, því að það er mjög leitt, ef slík fjárhæð verður framvegis færð annarsstaðar en hún á að vera.

Það er ýmislegt fleira, er jeg vildi sagt hafa í þessu sambandi, en vil þó ekki bæta miklu við hinar löngu umræður. Get jeg því látið hjer staðar numið, en vil óska þess alvarlega, að stj. geri landsreikningana svo vel úr garði framvegis, að þessir liðir verði svo skýrt færðir, að það sje ekki falið fyrir þingi og þjóð, hve mikinn kostnað þessi störf hafa í för með sjer fyrir landið.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.