21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

3. mál, landsreikningar 1926

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg bjóst ekki við því að meðtaka neitt þakklæti frá þessum hv. þm., svo að orð hans fá ekkert á mig. En jeg álít þetta dálítið undarlegt, því að starfi hans í ríkisins þágu er þannig varið, að hann átti að gera gangskör að því að athuga það, sem honum þótti með þurfa, og gera aths. um það. Og ef hv. þm. hefði komið í stjórnarráðið og spurst fyrir, þá geri jeg ráð fyrir, að honum hefði ekki verið neitað um upplýsingar, frekar en öðrum.

En hvað hitt atriðið snertir, þá vil jeg benda honum á, að hvorugur okkar er lögfræðingur, svo að jeg hygg, að það verði óákveðið, hvort skilningur minn eða hans verður þyngri á metunum í því efni, svo að jeg held, að hv. þm. farist ekki að vera að setja sig á háan hest hvað það snertir. En jeg vil benda honum á, að þótt honum þyki sú aðferð, sem jeg benti á, ófær og lögum gagnstæð, þá er það viðurkend regla um starfsmenn allra ríkja, að þeir fá dýrtíðaruppbót sem því svarar, hve dýrara er að lifa í því landi, sem þeir eru sendir til, heldur en þar, sem þeir eiga heima. Það þýðir því ekkert að vera að tala um það, að hjer sje átt við íslenskar krónur, sem jeg þó man ekki eftir, að nokkursstaðar sje beinlínis tekið fram; hjer er heldur ekki um neitt stórvægilegt atriði að ræða. Jeg mun halda fast við mína skoðun og hv. þm. við sína, svo að það er ekki líklegt, hvort sem við ræðum þetta mál lengur eða skemur, að nein breyting verði á því.