21.03.1928
Neðri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

3. mál, landsreikningar 1926

Magnús Guðmundsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd. Jeg vil benda hv. þm. Ísaf. á það, að þetta hús, sem hann vildi láta gera við árið 1926, var þá á leigu, og þeim, sem það leigði, var þá ekki hægt að víkja í burtu vegna húsaleigulaganna. (HG: Var það nokkuð reynt?). Menn vissu um húsaleigulögin og að þeirra vegna þýddi það ekki neitt. Svo var það líka, að þá voru ekki neinar líkur til, að þyrfti að leggja út í að kosta til viðgerðar á því húsi, eins og þá stóð.

En að því er snertir það, sem hv. þm. var að tala um aukatekjur skrifstofustjóranna í stjórnarráðinu, þá vil jeg benda á, að hv. þm. nefndi ekki neina sjóði í fyrri ræðu sinni, svo að jeg gat ekki vitað, hvaða sjóði hann átti við. En það er eðlilegt, að það verði að borga eitthvað fyrir að stjórna þessum sjóðum, því að það er talsverð ábyrgð, sem því fylgir. Og það er heldur ekki rjett, að alt, sem að stjórn þeirra lýtur, sje unnið í skrifstofutíma stjórnarráðsins, þótt þar sje tekið á móti greiðslum frá mönnum og þeim sje veitt lán í þeim tíma, því að bæði eru reikningar þeirra færðir og ýmislegt annað, sem þeim tilheyrir, gert utan skrifstofutíma.

Svo var hv. þm. að átelja það, að jeg hefði sagt, að hann hefði ekki vitað, að Vestmannaeyingar hefðu átt Þór á þeim tíma, sem um var að ræða. Jeg sagði ekki, að hv. þm. hefði ekki vitað það, en jeg sagði, að hv. þm. hefði ekki upplýst það. En það var einmitt aðalatriðið í málinu; þeir áttu skipið og gátu neitað að láta það fara, því að það hafði þá ákveðið starf. En þegar jeg sagði, að samningur hefði verið gerður, þá er það svo að skilja, að samningur var gerður um að skipið færi þessa ferð og að skaðabætur yrðu greiddar, ef illa tækist til, og það varð, því miður. Botnvörpungar toguðu yfir netin, en hefði skipið verið á staðnum, þá hefði það getað aðvarað þá. Til þess var skipið látið liggja á þessum slóðum að gera það, og til þess greiða Vestmannaeyingar stórfje á ári til að hafa skipið við hendina. Jeg hygg, að ekki sje hægt að heimta frekari sannanir en þetta, enda myndi hver dómstóli í landinu láta sjer þessar sannanir nægja, svo að strangari er ekki hægt að vera, því að samningurinn var á þá leið að bæta skaðann, ef til kæmi. (HG: Hví skýrði stjórnin ekki þinginu frá þessu?). Það verður erfitt fyrir stjórnir að skýra frá hverju einstöku atriði, sem fyrir kemur, og myndi auk þess lengja þingið stórkostlega. Jeg býst við, að ef stjórnin hefði farið að skýra þinginu frá því, að hún hefði með þessu eina verki sínu innunnið 30 þús. kr. í landhelgisjóð, þá mundi hv. þm. hafa kallað það mont hjá stjórninni, ef hann hefði þá verið á þingi. Við erum reiðubúnir að svara fyrir þetta mál, og jeg býst við, að það verði gert á þann hátt, að hv. þm. Ísaf. ríði ekki feitum hesti frá því að víta stjórnina fyrir það að gera þann samning, sem græðist á 30 þús. kr. á 2–3 dögum. Mjer finst það að minsta kosti ekkert árásarefni.

Svo var hv. þm. að tala um borðfje konungsins og laun sendiherrans í Kaupmannahöfn. Jeg vona, að hv. þm. hafi sjeð það, að ef hann vill fá sínu máli framgengt og hafi skilið það af svörum hæstv. fjmrh., þá verður hann að bera fram brtt. og fá hana samþykta. (HG: Hvernig á að orða þá brtt.?). Jeg skal taka að mjer að orða brtt. fyrir hv. þm., ef hann treystir sjer ekki til þess.