05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

24. mál, hegningarlög

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

Það er í rauninni merkilegasta mál, sem hjer er um að ræða, þar sem eru breytingar á hegningarlöggjöfinni, þótt smávægilegar sjeu. Það er eins og allir vita, að okkar hegningarlöggjöf er orðin langt á eftir tímanum. Er ekki ofsagt, að það sje svo almenn krafa meðal þjóðarinnar, að sú löggjöf verði endurskoðuð, að ekki verði daufheyrst við henni lengur. Býst jeg við, að hæstv. stjórn hafi tekið það til greina og því sje sú breyting, sem hjer liggur fyrir, fram komin. Gagngerð endurskoðun þarf, eins og allir vita, langan tíma. Og það hefir hindrað, að hún er ekki löngu komin í kring, að við höfum beðið eftir því, að sú þjóð, sem við erum í sambandi við, er ekki búin að ganga frá sinni endurskoðun á hegningarlöggjöfinni.

Það er mín skoðun, að full þörf sje á að taka fleiri atriði í frv. heldur en hjer hefir verið gert, en þó hefir nefndin ekki viljað leggjast á móti þessum breytingum, sem hjer er um að ræða.

Svo að jeg fari örstutt út í hverja grein, er það þá um 1. gr. að segja, að samfara hegningu við venjulegt fangaviðurværi sje vinnuskylda. Þetta er alstaðar í heiminum að færast meir og meir í slíkt horf; enda er það sjálfsagt og sanngjarnt að hafa vinnuskyldu, að svo miklu leyti sem hægt er, í sambandi við hegningu. Mun það mest hafa verið til fyrirstöðu hjer, að húsnæði vantaði til þess. Ákvæði hegningarlaga vorra um fangelsi við venjulegt fangaviðurværi í alt að 6 mánuði getur alls ekki samrýmst þeirri stefnu að takmarka sem mest vinnulausa hegningu. Þetta er ekki eingöngu hegningarfræðilegt atriði, heldur hagfræðilegt, þannig að þjóðfjelagið geti haft gagn af vinnu fanganna.

2. gr. frv. er um vatns- og brauðshegningu. Slík hegning hefir verið mikið notuð hjer, en er orðin úrelt, og er álitið meðal sjerfræðinga á þessu sviði, að það geti ekki haft siðbætandi áhrif á fangana, en sje aðeins til þess að sefa ofsa og mótþróa í fangelsisvistinni.

Þá eru skilorðsbundnir hegningardómar, sem hafa verið í lögum síðan 1907. Frv. fer fram á að útvíkka svið þeirra, og nefndin er sammála um, að það sje til bóta.

Þá eru 4. og 5. gr. lagaðar með því að strika út þá skörpu markalínu um einfaldan þjófnað og stórþjófnað, en dómstólum landsins eftirlátið að meta sektargildi afbrotsins. Sama má segja um 6. grein; breytingin er til þess að höggva sundur óeðlilegan lagaramma og setja í vald dómstólanna að meta hámark hegningarinnar.

Um 7. og 8. gr. get jeg verið stuttorður; þær eru að nokkru leyti alveg samhljóða fátækralögunum um vinnuskyldu manna, sem vegna slæpingsskapar hafa ekki getað sjeð fyrir sjer og sínum.

Sem sagt hefir nefndin verið sammála að efni til um þetta frv., og jeg álít brtt. ekki veigamiklar hvað efni snertir, en allar þó til bóta. Sumar tel jeg sjálfsagðar, sumar eru hrein málsbreyting; eins og brtt. við 1. gr., sem augsýnilega er til bóta.

Þá vík jeg að brtt. við 7. og 8. gr. Við, sem brtt. áttum, álitum, að það væri mjög erfitt að fara eftir þessum lagagreinum í framkvæmdinni. Má benda á það í 8. gr., þar sem mönnum er lögð sú skylda á herðar að leita sjer heiðarlegrar atvinnu, og eiga að sleppa við hegningu, ef þeir gera það innan ákveðins tíma. En hver eru takmörkin? Er nóg, að maðurinn fari til eins eða tveggja manna á ólíklegustu stöðum? Það sýnist eftir frvgr., að hann sje leystur frá hegningu með þessu. Þess vegna er brtt. okkar við 7. og 8. gr. mjög samhliða því, sem tekið er fram í fátækralögunum. Og það er ekkert því til fyrirstöðu, ef hjer kæmi upp letigarður — eða vinnuhæli, sem jeg vil heldur kalla, —, að hægt væri að koma mönnum þangað til vinnu.

Við 9. gr. er smámálsleiðrjetting, með því að orðalagið er dönskuborið. Með 10. brtt., við 10. gr., er ákveðið að nota orðið fjárhættuspil, sem við teljum rjettara að hafa heldur en glæfraspil, — meðal annars af því, að við teljum óviðeigandi að kalla það glæfraspil, sem ríkið leyfir, t. d. veðmál við veðreiðar hjer við Elliðaárnar.

Við 11. gr. gerum við þá brtt., að skotið sje inn orðunum „af ásettu ráði“. Í frv. stendur: „sá, sem veitir húsaskjól fyrir óleyft glæfraspil“ o. s. frv. Við bætum þessu við, af því að við teljum óviðeigandi að hegna mönnum fyrir það, sem þeir eiga enga sök á. Jeg get átt hús, og menn geta án þess að jeg viti af haft þar glæfraspil um hönd; ef ætti að hegna mjer fyrir það, teldi jeg það ranglátt, enda er það á móti anda laganna.

Þá er við 12. gr. samskonar brtt. og jeg hefi minst á; ennfremur við 11. gr. Við höfum einnig bætt við grein, sem hefir gleymst að setja í frv., að hegningarlagagrein nr. 237, um gripdeildir, falli burt af sjálfu sjer með þessum lögum. Töldum við rjett að koma þessu inn í frv.