05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

24. mál, hegningarlög

Sigurður Eggerz:

Jeg mun nú ekki þreyta hv. deild með langri ræðu; það eru aðeins nokkur atriði, sem mig langar að víkja að.

Jeg læt ánægju mína í ljós yfir því, að hæstv. stjórn hefir borið fram þetta frv. og að það muni ekki löng bið á að endurskoðun á hegningarlöggjöfinni fari fram. Jeg verð að segja, að það er illa farið — og ámæla sjálfum mjer um leið, sem hefi farið með dómsmálaráðherraembættið —, að ekki sje fyr búið að gera ráðstafanir til þess að endurskoða hegningarlöggjöfina. En mig langar til að beina einni fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um leið og jeg þakka honum fyrir að láta gera gangskör að þessu, hvernig hann hugsi sjer, að sú endurskoðun fari fram. Þetta er stórt atriði. Ef litið er á dönsku frv. til hegningarlaga, þá sjest, að endurskoðunin í Danmörku hefir tekið mjög langan tíma. Þannig var 11. ágúst 1905 skipuð nefnd, sem skilaði störfum 1912. Eftir það var prófessor Torp, einn af þektustu og skörpustu lögfræðingum Dana, fenginn til að líta yfir nefndarálitið, og skilaði hann sínu áliti 1914. Svo var enn skipuð nefnd 1917, sem skilaði störfum 1923.

Mig langar til þess að vekja eftirtekt á því, sem prófessor Torp sagði, þegar stjórnin fól honum þennan starfa. Hann lagði áherslu á, að það væri algerlega nauðsynlegt, að fleiri en fagmenn væru látnir fjalla um þetta; það þyrfti að fá álit manna, sem kæmu svo að segja beint út frá lífinu og skildu tíðarandann, o. s. frv.

Það er þetta, sem mig langar til að spyrja hæstv. dómsmrh., hvort honum sýnist ekki nauðsynlegt að skipa nefnd til að íhuga málið, sem verði skipuð auk hinna bestu lögfræðinga, sem eru sjálfsagðir, einnig leikmönnum á þessu sviði. Jeg býst við, að þetta hafi haft ákaflega mikla þýðingu fyrir endurskoðun hegningarlaganna í Danmörku, og mundi þá óefað verða svo einnig hjer.

Það er vert að taka eftir því, hvað tímarnir breytast í þessu tilliti. Í hegningarlögum, sem eru í undirbúningi á Þýskalandi, er mjer sagt, að sje lögð ákaflega mikil hegning við því að reyna að græða á fátækt annara, og margföld við það, sem áður var.

Á þessum lögum hafa aðeins verið gerðar örfáar — eitthvað 4–5 — breytingar síðan þau voru sett 1869. Það er sjálfsagt mjög erfitt að taka einstök atriði út úr og setja sjerstök ákvæði um þau. Til þess þarf mikla íhugun og samanburð, svo að þau reki sig ekki á önnur ákvæði laganna. Jeg skal ekki neita því, að jeg tel ýms ákvæði frv. mjög til bóta frá því, sem nú er. Til dæmis eru numin burtu hin ströngu ákvæði um stórþjófnað. Aftur á móti er jeg ekki eins viss um þau nýmæli, sem stungið er upp á við 7. gr.

Væntanlega eru margar þessar breytingar sniðnar eftir fyrirmynd Dana, og er í sjálfu sjer ekkert við það að athuga, en á hitt er að líta, að frumvörp þeirra eru ekki orðin að lögum. Þær breytingar, sem verið er að vinna að í Danmörku, eiga eftir að ganga í gegnum hreinsunareld þingsins. Jeg er í vafa um, hvort ástæða sje til þess að vera að setja önnur ákvæði en þau, sem nú eru í fátækralögunum. Jeg vil nú aðeins benda á, hvað erfitt er að gera, þó ekki sje nema smábreytingu á svona lagabálkum eins og hegningarlögin eru. Það er ekki, eins og jeg sagði áðan, neitt við það að athuga, þótt árangurinn af endurskoðunarstarfi Dana sje tekinn til fyrirmyndar hjer. Að því hafa unnið margir bestu og þektustu menn þar í landi. En við samanburð á þessu tvennu kemur í ljós, hve erfitt er að taka einstök atriði út úr, vegna þess að hin almennu ákvæði geta verkað þannig á hin sjerstöku ákvæði, að ósamræmi verði í framkvæmd laganna. Til dæmis „ásetningur“ í Danmörku nær yfir stærra svið en „ásetningur“ hjer. Í Danmörku er dolus eventualis einnig tekinn með undir ásetning. Þegar nú hegningarákvæðin eru sett hjer hin sömu og í danska frumvarpinu, þá leiðir af því, að samskonar ákvæði í Danmörku verða mildari hjer, þar sem ásetningurinn hjer er þrengri en í Danmörku, en hegningarrammarnir settir þar lengra niður, vegna þess að ásetningur þar nær yfir víðara svið.

Eftir hinum dönsku hegningarlögum er sumt fært undir ásetning, sem áður var talið til gáleysis eða óaðgæslu, og sömu hegningarákvæði látin gilda um hverja tegund. Jeg hefi tekið þetta fram sem dæmi um það, hve hin almennu ákvæði geti haft áhrif á endurskoðun eins og þessa, án þess því sje veitt eftirtekt.

Jeg hefði nú viljað mælast til, að áður en málið væri afgreitt yrði frv. sent lagadeild háskólans til athugunar, til þess að ganga úr skugga um, hvort nokkrir annmarkar væru á því í þá átt, sem jeg hefi bent á hjer. Mjer hefði fundist það eðlilegt og sjálfsagt, að það hefði verið gert. — En ef það nú yrði ofan á, að þessum hluta hegningarlaganna yrði breytt, vildi jeg skjóta því til hæstv. stj. og nefndar, hvort ekki þætti ástæða til að taka burtu þau ákvæði, sem alls ekki geta staðist lengur og sem fyrir löngu ættu að vera horfin úr lögunum að tilhlutun fyrverandi stjórna. Vil jeg í því efni jafnt ásaka mig sem aðra.

Þar á jeg sjerstaklega við þau ákvæði, sem falla eiga að sjálfsögðu burt vegna þess, að Ísland er orðið fullvalda ríki. Ef á annað borð á að fara að breyta hegningarlögunum, er sjálfsagt um leið að taka þessi ákvæði burtu. Það er ekki svo mikið starf og þarf ekki svo mikillar íhugunar við. Jeg vil skjóta því til hæstv. dómsmrh., hvort hann sjái sjer ekki fært að láta þessa breytingu ganga fram um leið.

Þetta voru þá athugasemdir almenns eðlis, og vil jeg endurtaka þakklæti mitt til hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa hugsað sjer að láta endurskoða hegningarlögin í heild, og jeg vona, að til þess starfs verði kvaddir ekki aðeins löglærðir menn, heldur einnig menn frá öðrum sviðum lífsins.

Jeg vil svo að lokum mælast til þess við hæstv. dómsmrh., að hann láti, í samráði við nefndina, hreinsa hegningarlögin af hinum dönsku ákvæðum.