05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

24. mál, hegningarlög

Magnús Torfason:

Það er vegna þess umtals, sem orðið hefir um 7. gr. frv., að jeg tek til máls. Jeg er ósammála hv. þm. Dal. um það, að ekki sje þörf á ákvæðunum. Það er að vísu rjett hjá honum, að fyrir nokkrum árum mundi þeirra hafa verið lítil þörf. Jeg hygg, að þann tíma, sem jeg var sýslumaður á Ísafirði, mundu þau ekki hafa verið notuð nema í 1–2 tilfellum. En síðan stríðið hófst með allri sinni lausung, er annað uppi á teningnum. Jeg skal taka það sem dæmi, að einn fátækur hreppur í Árnessýslu, Stokkseyrarhreppur, sem alveg er að sligast undir skuldum, ber nú um 4000 kr. byrði fyrir slæpingja. Sumir þessara manna lifa í „vellystingum praktuglega“. Er þess skemst að minnast, að einn þessara lausingja var á ferð þar eystra og barst mikið á. Hreppstjórinn var því miður ekki heima til þess að krefja hann um skuldina, en hann forðaði sjer í tæka tíð norður í land, til þess að koma í veg fyrir, að hafðar væru hendur í hári sínu.

Það er að verða þjóðarsvívirða, hve illa gengur að fá menn til þess að sjá fyrir afkvæmum sínum. Í Danmörku er gengið mjög ríkt eftir, að menn komist ekki hjá skyldum sínum í þessu efni. Jeg las nýlega danska rit gerð um þetta. Þar er tekið fram, að það þyki að vísu ilt að þurfa að ganga mjög hart fram gegn þessum mönnum, en það sje óhjákvæmilegt, því að annars nái spillingin yfirhönd hjá þjóðinni.

Jeg ætla mjer engu að spá um það, hve margir mundu komast undir lás og loku hjer á landi, ef þessi ákvæði yrðu samþykt. Og fyrir mjer er það ekkert aðalatriði. Meginatriði þeirra á að vera hótunin, sem í þeim felst. Þeir, sem illa hegða sjer, þurfa að eiga fangelsið yfir höfði sjer. Því fremur er ástæða til þess, sem ýmsir þessara manna geta vel greitt með börnum sínum. En þeim þykir þægilegra að komast hjá því og láta aðra gera það. Þeir vilja gjarnan njóta ánægjunnar, en ekki inna af hendi þær skyldur, sem ánægjunni fylgja. Þjóðfjelaginu er enginn vandi á höndum við slíka menn.