05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

24. mál, hegningarlög

Sigurður Eggerz:

Jeg vil aðeins leyfa mjer að benda á ákvæði fátækralaganna, sem standa í 47. gr. o. áfr. Í 47. gr. stendur svo:

„Sannist það fyrir ráðherra, að sá, er þiggur eða þegið hefir sveitarstyrk, sem enn er eigi endurgoldinn eða eftirgefinn, fari ráðlauslega með efni þau, er hann hefir undir höndum, skal ráðherra, eftir beiðni sveitarstjórnar og tillögum lögreglustjóra, svifta hann fjárráðum með úrskurði og setja honum fjárráðamann“.

Og í 49. gr. stendur:

„Sá, sem þiggur af sveit og er þó vinnufær, er skyldur að fara í hverja þá viðunanlega vist og vinna hverja venjulega vinnu, sem sveitarstjórnin ákveður og honum er ekki um megn, meðan hann er ekki fær um án sveitarstyrks að framfleyta sjer og þeim, er hann á fram að færa að lögum. Ákvæði sveitarstjórnar er hann skyldur til að hlýða fyrst um sinn, enda þótt hann vilji ekki kannast við, að vist sú eða vinna sje viðunanleg, er honum var boðin, en málið getur hann jafnframt kært fyrir lögreglustjóra, er sker úr því, eftir að hafa fengið umsögn sveitarstjórnarinnar og leitað álits tveggja óvilhallra manna. Á sama hátt getur framfærslusveit barnsföður látið hann vinna af sjer barnsfúlgu þá, er hún hefir orðið að borga, hafi hann ekki fyrir konu og börnum að sjá, eða látið hann afplána fúlguna við venjulega fangaviðurværi og við skylduvinnu, og ákveður hlutaðeigandi lögreglustjóri með úrskurði, hve lengi fangelsisvistin skuli standa, þó svo, að í stað hverra 200 kr. komi aldrei meira en 20 daga fangelsi. Arður af vinnu fangans fellur til framfærslusveitar, enda greiði hún kostnað allan af fangelsisvistinni“.

Jeg vil leggja áherslu á það, hve hörð ákvæði gilda nú í þessu efni. Og jeg vil nú spyrja — og mjer þykir sjerlega vænt um að hafa fengið álit hv. 2. þm. Árn. um það —, hvort oft muni hafa þurft að grípa til þessara ákvæða. Þeim mun, eins og áður hefir verið tekið fram, hafa verið beitt mjög sjaldan. En sjeu þau ekki notuð, er lítil ástæða til að setja ný og strangari ákvæði.