28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla mjer ekki að fjölyrða um þetta frv. fremur en það, sem síðast var til umr. (frv. um byggingar- og landnámssjóð). Þetta er í 4. sinn, sem jeg ber það fram, og hefir verið mikið um það talað. Auk þess hefir það verið mjög rætt í blöðum. Liggja nú að því sömu ástæður og áður. Þó má geta þess, að nú er fyrir hendi skýrsla um málið, samin af einum stjórnarnefndarmanni Búnaðarfjelagsins, sem einnig er alþm., en hann hefir farið utan, til þess að kynna sjer framleiðslu og sölu tilbúins áburðar.

Jeg vil ekki vekja deilur nú og óska þess, að hv. þm. fresti andmælum til 2. umr. Frá mínu sjónarmiði er hjer að ræða um merka tilraun til þess að auka ræktun landsins. Vænti jeg, að frv. verði samþ., svo að það komi í ljós, hvort þær vonir rætast, sem margir hafa við það bundið. Legg jeg til, að því verði vísað til landbn. og 2. umr.