21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Það gladdi mig að heyra það af ræðu hæstv. fors.- og atvmrh., að þessi tilhögun á áburðarversluninni, sem hjer er farið fram á, er aðeins tilraun, en á ekki að vera byrjun til almennrar einkasölu á fleiri sviðum. Jeg er þakklátur hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar og kann nú mun betur við frv. eftir en áður, meðan jeg vissi þetta ekki.

En jeg er samt ekki enn sammála hæstv. atvinnumálaráðherra um öll önnur atriði þessa máls. Jeg er til dæmis ekki eins viss um það og hann virðist vera, að varan verði ódýrari með einkasölufyrirkomulaginu en með eðlilegri samkepni. Jeg býst við, að þeim, sem framleiða áburðinn, sje ant um, að sem mest sje keypt af honum, og jeg get því ekki sjeð, að þeir muni sjá sjer hag í því, að ríkið annist söluna, en ekki einstaklingar. Með öðrum orðum: Okkur, hæstv. ráðh. og mjer, kemur saman um markið, en greinir á um leiðir.

Jeg held, að bændum mundi vera eins vel eða betur hjálpað með því að útvega þeim ódýrari kol og betri vegi eins og með hinu, þeirri leið, sem hjer er farin, að hjálpa þeim með ódýrari aðflutningi á tilbúnum áburði. Jeg hugsa, að þeim sje það meira virði að geta drýgt þann áburð, sem þeir eiga heima fyrir, en að kaupa aðfluttan áburð. Jeg tel það yfirleitt óvíst, hvort það borgar sig fyrir bændur, sem hafa ljelegan markað fyrir afurðir búa sinna, að kaupa tilbúinn áburð. Þeir sjá í hvern eyrinn og vilja heldur nota heimafengna áburðinn, sem þeir þurfa ekki að kaupa. Og það er mikið heilbrigt í því. En aftur á móti, ef þeir ættu kost á að fá ódýr kol, sem yrðu enn ódýrari, ef þeir fengju bætta vegi, þá álít jeg, að það sje stórt spor í áttina til þess að gera þeim hina efnalegu afkomu betri og baráttuna fyrir lífinu ljettari.

Jeg verð að halda því fram, að það sje kuldinn í sveitabæjunum, sem sje versti agnúinn á sveitalífinu. Jeg verð því að álíta, að hæstv. stj. hafi stigið öfugt spor, þegar hún hækkar tolla á kolum og vill gera mun minna til þess að bæta vegi en gert hefir verið á undanförnum árum. Þetta álít jeg, að geri meira en að vega á móti þeirri verðlækkun á útlendum áburði, sem þetta frv. á að gefa bændum. Því að það er vafasamt, hvort það borgar sig yfirleitt að kaupa útlendan áburð, nema þá fyrir þá, sem hafa nægilegt fje fyrir hendi og er það kappsatriði að auka ræktunina. En það er fjöldi bænda, sem ekki hefir fje til þess.

Ef afurðir landbúnaðarins væru í hærra verði og markaður betri fyrir búsafurðir, þá mætti vel vera, að það tækist að gera bændum kleift að auka ræktunina með útlendum áburði, en meðan þetta er hvorugt í góðu lagi, þá álít jeg, að það hefði verið miklu rjettara spor að auka og bæta vegi og gefa bændum kost á ódýrara eldsneyti, svo að þeir þurfi ekki að brenna íslenska áburðinum.

Jeg hefi spurst fyrir um það hjá Eimskipafjelagi Íslands, hvort sama farmgjald sje til Rvíkur og annara hafna á landinu fyrir tilbúinn áburð, og var því svarað játandi. Það má vel vera, að hægt sje að fá lægri farmgjöld með útlendum skipum, en jeg álít, að okkur beri heldur að nota þau skip, sem landið á, heldur en önnur, þótt lægri farmgjöld hafi.

Þá er enn eitt atriðHi, sem jeg vildi minnast á. Mjer dettur í hug, að það sem kannske mest mundi draga úr kaupum á útlendum áburði, sje það, að Hmenn hafa ekki altaf peninga á reiðum höndum, og er þá oft eini vegurinn fyrir bændur að fá vöruna að láni hjá kaupfjelögum þeim eða kaupmönnum, sem þeir versla við. Nú hafa kaupfjelögin ein áburðinn og selja hann aðeins gegn borgun út í hönd. En auk þess hafa kaupfjelögin þá reglu að selja þeim dýrara vöruna, sem ekki eru í fjelögunum. Þeir menn, sem ekki versla við kaupfjelög, eru því vafalaust órjetti beittir. Menn, sem verslað hafa við kaupmenn, munu nú leita til þeirra um peningalán til þess að geta borgað áburðinn. En það er ekki ólíklegt, að kaupmenn verði tregir til að lána fje, þegar þeir vita, að það á að fara til keppinautarins. Þannig yrði þeim mönnum, sem ekki hafa nóg peningaráð og ekki eru í samvinnufjelagi, bolað frá því að fá tilbúinn áburð kHeyptan. Og jeg verð að búast við, að svo geti farið um allmarga. Bæjar- og hreppsfjelögum er leyft að versla með áburðinn, en þau eru ekki verslunarfjelög og munu flest ófús á að versla, og hafa enda ekki ætíð fje á reiðum höndum til þess. Aftur á móti er kaupmönnum ekki leyft að versla með þessa vöru. Það er því greinilegt, að það er tilætlunin að bægja þeim algerlega frá versluninni, og verð jeg að telja það mjög óheppilegt og ranglátt, því að það hefði, að mínu áliti, skapað eðlilega og heilbrigða samkepni, ef kaupmenn hefðu einnig fengið að versla með áburðinn eins og aðrar vörur.

Jeg efast ekki um, að hæstv. fors.- og atvmrh. væntir hins besta um árangurinn af þessari verslun, en mjer kæmi það ekki á óvart, þótt reyndin yrði sú, að hann yrði lakari en hæstv. ráðh. býst við.

Jeg veit, að hæstv. forsrh. vonast eftir góðum árangri af þessari einokunarverslun, en jeg er hræddur um, að árangurinn verði sá, að þegar þeim er gert hægra fyrir, sem búa nálægt kaupstöðunum og hafa betri aðstöðu að mörgu leyti með sölu afurða og efnalega afkomu, en lítið er gert fyrir hina, sem erfiðari aðstöðu eiga, þá verði afleiðingin sú, að menn flytji þangað úr sveitunum, þar sem aðstæðurnar virðast erfiðari. Og komi þetta þannig til að verka öfugt, eða til þess að menn flýi sveitirnar, þar sem þeir ætla, að hlýjan og skjólið sje minna.