21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

30. mál, tilbúinn áburður

Páll Hermannsson:

Þetta mál hefir mikið verið rætt undanfarið, bæði innan þings og utan. Er gott til þess að vita, að það er nú komið á þann rekspöl, sem raun er á orðin.

Það hefir mikið verið talað um það hjer í háttv. deild, hvort það mundi borga sig að kaupa útlendan áburð. Það hefir verið sagt, að of dýrt væri að kaupa tilbúinn áburð til ræktunar íslenskri jörð. Jeg skal engan dóm leggja á það, hvað til er í þessu. En hinu leyfi jeg mjer að halda fram, að það er eitt atriði í íslenskum sveitabúskap, sem er of dýrt, og það er: að komast í fóðurþrot. En þá tel jeg, að bændur komist í fóðurþrot, er þeir annaðhvort verða heylausir sem kallað er, eða hafa aðeins það fóður, sem svo er ófullnægjandi; að skepnur geta hvorki þrifist af því nje haldið heilsu. Þetta, að búfje manna haldi ekki heilsu sakir slæms fóðurs, er miklu algengara en hitt, að beinlínis sje um að ræða heyskort. Það er svo algengt, að það skeði í fyrra og skeður máske í ár. Það skeður iðulega einhversstaðar á landinu.

Nú er það svo, að kaup á útlendum áburði gætu a. m. k. að talsvert miklu leyti bætt úr þessu höfuðböli íslensks landbúnaðar. Og með hliðsjón af því, hvert tjón getur hlotist af ónýtu eða jafnvel banvænu fóðri, þá er fátt of dýrt, sem úr því böli bætir.

Til þess að bæta úr fóðurskorti og bæta upp ilt og óheilnæmt fóður eru vitanlega ýms ráð, en þar er þá fyrst að nefna ræktun landsins, eða rjettara sagt aukna uppskeru af ræktuðu landi. Til þess þarf ekki endilega í öllum tilfellum nýrækt. Uppskeran gæti svo víða verið miklum mun meiri en nú er, aðeins með betri hirðingu og meiri og betri áburði á það land, sem þegar telst ræktað. Þar gæti útlendi áburðurinn komið í góðar þarfir og að betri notkun en okkar innlendi húsdýraáburður.

Jeg lít svo á, að kaup á innlendu kraftfóðri gæti átt sinn þátt í að bæta úr, og enda borgað sig mjög vel víða. Einnig gætu kolakaup komið til greina, þar sem aðflutningar eru hægir. En sem sagt, það dýrasta við landbúnaðinn okkar er að komast í fóðurþrot. Og næstdýrast líklega hitt, að halda dýrt kaupafólk til að stunda heyskap á reitingsengjum, þar sem eftirtekjan er fyrst og fremst lítil og síðan undir veðráttu komið, hvort hún kemur að notum eða verður til þess að veikla eða jafnvel drepa búpening þann, er fóðrast skal á þessu heyi.

Þegar litið er á alt þetta, virðist ekki óvarlegt að fullyrða, að rjett sje í mjög mörgum tilfellum að kaupa tilbúinn áburð.

Í sambandi við ummæli háttv. 6. landsk., frsm. minni hl., vil jeg geta þess, að jeg tel æskilegast, ef hægt væri að fá einhverjar ívilnanir um flutning á áburðinum inn í landið. Það er að vísu vandkvæðum bundið að finna leið til þess. Jeg vil þó gera mitt til þess að gefa bending í þá átt, hvort ekki sje hægt að taka það atriði til athugunar við 3. umr. þessa máls. Jeg geri að vísu ekki ráð fyrir, að jeg beri fram brtt. við 3. umr., nema þá í samráði við hv. nefnd og hæstv. forsrh., sem á manna mestan og bestan þátt í því, að þetta frumvarp er nú hjer fram komið.