25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

30. mál, tilbúinn áburður

Jón Þorláksson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram á þskj. 261 brtt. við 3. gr. frv.

Eins og gr. er orðuð nú, felur hvorki hún eða frv. í sjer beinlínis skyldu fyrir stjórnina að hafa þessa nauðsynjavöru til og selja hana, þegar einkasalan er komin á. Hún einskorðar aðeins, til hverra megi selja vöruna, þ. e. „hrepps- og bæjarfjelögum, búnaðarfjelögum og Samvinnufjelögum bænda“, en segir ekkert um, að neinum sje skylt að hafa vöruna til sölu. Mjer finst, að rjett sje, að skylda til að hafa þessa nauðsynjavöru til sölu fylgi einkasöluheimildinni; annars virðist tilgangur frv. lítill. Þess vegna hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt., þar sem lagt er til, að fyrsta málslið 3. gr. skuli orða á þessa leið: „Skylt er að útvega og selja áburðinn búnaðarfjelögum, samvinnufjelögum og kaupmönnum“. Og með kaupmönnum á jeg ekki aðeins við þá, sem verslun reka fyrir eiginn reikning, heldur og hlutafjelög, sem verslun hafa með höndum.

Jeg álít yfir höfuð ekki ástæðu til að setja mjög þröngar skorður um, hverjum megi selja þessa nauðsynjavöru. Einnig hygg jeg, að það sje ekki mjög alment, að hrepps- og bæjarfjelög kaupi mikið af þessari vöru, nema þá þau, sem stærri ræktunarfyrirtæki hafa með höndum; þó er ekkert í brtt. minni, sem hindri það, að skift sje við þessa aðilja. Hinsvegar sje jeg ekki neina ástæðu til að banna einstökum mönnum að versla með þessa vöru.

Við 2. umr. þessa máls var talsvert um það rætt, hvort kaupmenn ættu að fá að versla með þessa vöru, og hjó jeg þá eftir því í ræðu hjá hæstv. forsrh., að það væri ekki meiningin að gera þessa ráðstöfun kaupmanna vegna, heldur vegna þeirra bænda, sem vöruna þurfa að nota. En það er sama að segja um þessi fjelög, sem áburðinn mega selja; það er ekki gert þeirra vegna, heldur bændanna, sem þurfa hans með. Jeg álít, að þeir bændur, sem skifta við kaupmenn, eigi að hafa jafnan rjett að fá vöru þessa eins og hinir, sem skifta við kaupfjelög eða Samvinnufjelög. Því víðar, sem varan er á boðstólum, því meiri líkur er til, að notkun hennar útbreiðist. Þess vegna getur það ekki verið á neinn hátt rjett að hindra það, að sem flestir versli með vöru þessa, ef það er tilgangur frv. að auka ræktun landsins með því að útbreiða notkun hennar.

Þetta læt jeg mjer nægja að þessu sinni um brtt. mína. Hinsvegar vildi jeg nota tækifærið um leið og fara nokkrum orðum um frv. alment.

Þessi hugsun um ríkiseinkasölu á tilbúnum áburði mun hafa fyrst verið borin fram í frv.formi á Alþingi 1925. En á þinginu 1926 bar landbn, í Nd., þar sem jeg átti þá sæti, fram frv. um það, að Búnaðarfjelag Íslands fengi einkasöluheimild á þessari vöru.

Þá lágu alveg sjerstakar ástæður til þess, að frv. var borið fram í það sinn. Svo stóð á, að ekki var annað sjáanlegt en að eitt verslunarfirma hjer í bæ væri búið að ná þeirri aðstöðu, að það gæti útilokað alla samkepni í verslun með köfnunarefnisáburð og eitt ráðið allri álagningu hennar. Þetta firma, Nathan & Olsen, hafði þá undanfarið haft einkasöluumboð frá þýsku köfnunarefnisverksmiðjunum og hafði þá nýverið náð, að menn hjeldu, einkasöluumboði hjá Norsk Hydro. Það var litið svo á, að þetta væri mjög óheppilegt og alveg utan við tilgang heiðarlegrar verslunar, að eitt sjerstakt firma gæti í þessu efni beitt álagningu eftir sínum geðþótta, án þess samkepni mætti komast að. Þetta varð þá til þess, að hv. Nd. samþykti frv. um einkasöluheimild Búnaðarfjelagi Íslands til handa til þess að versla með tilbúinn áburð. Þó var í frv. sleginn sá varnagli, að heimild þessi yrði því aðeins notuð, að þörf væri á til þess að hnekkja því, að þessi vara yrði seld of dýru verði.

Nú horfir þessu máli alt öðruvísi við en á þinginu 1926. Nú getur sjerhvert verslunarfirma, hvar sem er á landinu, fengið að selja þessa vöru og með því verði, sem verksmiðjurnar ákveða. Verksmiðjurnar í Noregi og Þýskalandi, sem þessa vöru framleiða, hafa um hana gert sölusamning sín á milli, þar sem verð vörunnar frá verksmiðju eða umboðsmanni hennar til kaupanda er ákveðið. Það er því alveg útilokað, að nokkurt verslunarfirma geti náð þeirri aðstöðu, að samkepni geti ekki jafnan átt sjer stað um verslun þessarar vöru. Þar með er þá fallin sú ástæða, er varð þess valdandi 1926, að hv. Nd. samþ. það frv., er þá lá fyrir. Og jeg get ekki nú komið auga á, að nein þörf sje fyrir slíka einkasölu sem þessa, nema ef menn líta svo á, eins og alþýðuflokksmenn gera, að einokun sje hagkvæmari tilhögun yfirleitt heldur en verslun í frjálsri samkepni. En jeg er ekki þeirrar skoðunar, að einkasalan sje þjóðinni hagkvæmari, og því síður, að jeg geti fallist á, að nokkur nauðsyn sje til að taka upp einkasölu með þessa nauðsynjavöru.

Jeg skal ekki nefna margar ástæður gegn þessari einkasölu aðrar en nauðsynina á, að varan verði sem ódýrust og fáanleg sem víðast, en þetta hvorttveggja álít jeg, að betur náist í frjálsri samkepni en með einkasölu.

Með frv. er gert ráð fyrir, að þessi nýi milliliður, sem hjer á að skjóta inn, megi leggja á vöruna 5%, en þetta verður að álítast talsvert há álagning, þegar þess er gætt, að þeir, sem um útsöluna annast, eiga eftir að leggja á fyrir sínu ómaki og fyrirhöfn.

Þessi 5% álagning mun svara til 11 kr. á tonn, eða sem svarar kr. 1,10 á hver 100 kg., og verður ekki annað sagt en að þetta sje allmikill aukakostnaður á vöru, sem seld er í heilum sekkjum á 24–25 kr. Móti þessu eiga svo kaupendur að fá ívilnun í ókeypis flutningi á þær hafnir, sem Esja og Eimskipafjelagsskipin sigla til. Nú vil jeg spyrja, hvort það sje meiningin, að skip Eimskipafjelags Íslands eigi eingöngu að flytja þessa vöru til landsins, og hvort þeir kaupendur vörunnar, sem ekki búa við þær hafnir, er þessi skip sigla til, fá ekki sömu ívilnun um flutningsgjaldið og hinir.

Jeg skal ekkert um það segja, hvað Eimskipafjelagið kunni að taka í flutningsgjald á þessari vöru. En undir eins og áburðurinn nær nokkrum hluta af þeirri útbreiðslu, sem menn gera sjer vonir um, þá er hann kominn úr flokki þeirra vara, sem fluttar eru með áætlunarskipum, og í flokk þeirra, sem nú eru fluttar í heilum skipsförmum til landsins, en það eru nú kol, trjáviður, salt og sement. Þessir vöruflokkar eru fluttir til landsins í heilum skipsförmum og fyrir lægra flutningsgjald en þau skip taka, sem hafa fastar áætlunarferðir. Jeg skal að vísu játa, að fyrir Esju og Eimskipafjelagið getur það verið styrkur að fá þennan flutning, ef greitt er þá það flutningsgjald, sem slík skip þurfa að fá. Og ef ríkiseinkasalan á að leggja 11 kr. á hvert tonn, þá ætla jeg, að lítill hagnaður verði eftir handa notendunum, þó ríkið borgi alt flutningsgjald til landsins, því að í heilum skipsförmum nemur það nú ekki nema 15–18 kr. á tonn.

Mjer sýnist því býsna varhugavert að ganga inn á þessa braut. En e. t. v. er ætlunin sú, að styrkja Eimskipafjelagið með því að láta það annast flutninginn. Væri það nokkur bót í máli. En þetta er alveg óverjandi, ef flutningsgjöldin eiga að ganga til annara.

Jeg hefi gert ráð fyrir því, að 5% álagning einkasölunnar yrði alveg aukreitis; þeir, sem versla með áburðinn, mundu selja hann með sömu álagningu og ef þeir hefðu sjálfir útvegað hann. Jeg geri ráð fyrir, að ef þeir keyptu áburðinn beina leið og hefðu tiltrú, mundu þeir fá greiðslufrest, sem fullkomlega vægi á móti hagræðinu af því að þurfa ekki að snúa sjer lengra en til einkasölunnar. Jeg verð því að halda því fram, að ríkissjóður muni leggja meira í kostnað en notendur njóta með þessu fyrirkomulagi. Og jeg hygg, að aðrar leiðir mundu reynast heppilegri, ef menn á annað borð vilja verja ríkisfje til að auka notkun áburðarins. Áður hefi jeg getið um þörfina á því að ljetta á annan hátt undir með bændum, sem búa langt fram til dala. En jeg ætla ekki að tala nánar um það mál, af því að engar till. liggja fyrir um það.

Að lokum vil jeg lýsa þeirri afstöðu minni, að þó að brtt. mín verði samþ., sem jeg tel sjálfsagt og til mikilla bóta, mun jeg samt ekki sjá mjer fært að greiða atkv. með frv. Það er af því, að jeg hefi enga trú á því, að ríkiseinkasala hafi neitt gött í för með sjer og hygg, að notendur áburðarins muni aðeins að litlu leyti njóta þess fjár, sem ríkissjóði er ætlað að leggja fram.