25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 3. landsk. hefir nú gert grein fyrir brtt. sinni á þskj. 261 og sömuleiðis talað allmikið um kostnaðarhlið málsins. Við ummæli hans ætla jeg nú að gera nokkrar athugasemdir. Um brtt. á þskj. 261 hefi jeg fáu að bæta við það, sem jeg sagði við 2. umr. Hv. frsm. minni hl. landbn. (JKr) hjelt því þá fram, að kaupmenn ættu að fá að versla með áburðinn. Jeg ljet þess þá getið, að jeg mundi ekki gera þetta ákvæði að kappsmáli. En þegar ríkið leggur fram fje til þess að ljetta mönnum áburðarkaupin, er ætlunin auðvitað ekki sú, að það renni til milliliða. Og það verður að gera mikinn greinarmun á kaupmönnum, er versla með vöruna eingöngu fyrir sjálfa sig, til þess að græða á henni, og hinsvegar bæjar- og sveitarfjelögum, sem hafa hag almennings fyrir augum, eða búnaðar- og samvinnufjelögum, sem stofnuð eru af notendunum sjálfum. Jeg vil í þessu sambandi nefna þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið vegna gaddavírskaupa fyr á tíð, sem alkunnar eru. Þrátt fyrir þetta held jeg raunar, að frv. mundi ná tilgangi sínum, þó að brtt. á þskj. 261 yrði samþ. En það er ekki til mikils að vinna að greiða henni atkv., þar sem háttv. 3. landsk. hefir lýst yfir því, að hann mundi verða á móti frv., hvort sem hún yrði samþ. eða ekki. Jeg er svo sem ekki að ámæla honum fyrir þetta, því að það sama gerði jeg í einu máli í Nd. í fyrra. Jeg bar fram brtt., en gat þess, að jeg mundi greiða atkv. móti frv., þó að hún yrði samþ. Það hafði því enga þýðingu fyrir menn að greiða atkv. með þeirri till. til þess að slægjast eftir mínu fylgi, og eins er ástatt með þessa brtt. hv. 3. landsk.

Þá gerði hv. 3. landsk. athugasemd við 3. gr. frv. Hann áleit, að það ætti að skylda einkasöluna til þess að hafa ávalt nægan áburð fyrirliggjandi. Getur verið, að þetta væri formlega rjett. En það er óþarfi. Einkasölurjettinum hlýtur auðvitað að fylgja skylda til að hafa vöruna á boðstólum, enda mundi aldrei koma annað til mála. — Um brtt. á þskj. 261 hefi jeg áður sagt það, sem nauðsynlegt er. Jeg geri ekki að kappsmáli, hvort hún verður samþ. eða ekki, en tel þó rjettlátara það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í frv.

Þá kom hv. þm. að almennum atriðum, og þó einkum sögu málsins. Á þinginu 1926 var þessi hv. þm. fylgjandi einkasölu, eins og hún var borin fram af landbn. Nd. Á þinginu næsta á undan, þ. e. 1925, hafði jeg borið frv. fram, og þá ekki með tilliti til þeirra atburða, sem gerðust í áburðarmálinu um það leyti. En þeir höfðu vafalaust áhrif á ýmsa menn í Nd. 1926. Jeg get ekki verið honum sammála um það, að nú horfi málið öðruvísi við, af því að þeir atburðir sjeu úr sögunni. Jeg veit ekki betur en að það firma, sem þá náði yfirráðum áburðarsölunnar, hafi enn sömu aðstöðu og áður. A. m. k. hefir Búnaðarfjelaginu ekki tekist að ná þeirri aðstöðu, sem það hafði.

Hv. þm. sagðist ekki sjá ástæðu til þess, að ríkið tæki nú áburðarverslunina í sínar hendur, nema út frá því sjónarmiði, að einkasala væri yfirleitt álitin betri en frjáls verslun. Þetta skýrði jeg nokkuð við 2. umr. málsins. Um þetta mál stendur svo sjerstaklega á, að tilgangi þess verður að ýmsu leyti ekki náð til fulls, ef verslunin er frjáls. Einkasalan kemst vafalaust að betri innkaupum en einstakir menn. Og það, að ríkið tekur málið á þann hátt í sínar hendur, verður mönnum hvöt til þess að nota áburðinn. Og sá er fyrst og fremst tilgangurinn. Þegar jeg bar frv. fyrst fram, gerði jeg ekki ráð fyrir einkasölu. En af áliti landbn. 1926 og af mínum eigin athugunum og sömuleiðis af því, að áburðarverslunin er nú í höndum eins firma, hefi jeg sannfærst um, að einkasala sje tryggari. Jeg vil taka það fram, að einkasöluna á ekki að stofna til þess að græða fje handa ríkissjóði, heldur til þess að lækka áburðinn í verði. Hv. þm. gerði í ræðu sinni ýmsar athugasemdir við kostnaðarhliðina. En jeg held, að alt hans mál um það, að frv. mundi verka öfugt við tilgang þess, hafi við lítil rök að styðjast. Hann sagði, að ríkið mundi kosta meiru til en sem svaraði hagnaði notenda, og einkasalan væri nýr milliliður og að áburðurinn mundi hækka, í stað þess, að hann ætti að lækka. Hvorugt er rjett hjá hv. þm. Einkasalan verður ekki nýr milliliður. Hún kemur í staðinn fyrir það firma, eða rjettara þau firmu, sem nú hafa söluna, en hún verður ódýrari milliliður en þau. Sömuleiðis verður hún ódýrari en margir smámilliliðir, m. a, af því, að hún kemst að betri kjörum um flutninga.

Þó að nefnd sje alt að 5% álagning í frv., er þar aðeins átt við hámarksálagningu. Jeg geri ekki ráð fyrir, að leggja þurfi svo mikið á áburðinn. Og ef einkasalan verður vel stæð fjárhagslega, er sjálfsagt, að ríkið lækki áburðinn í verði. Einkasalan á ekki að vera gróðafyrirtæki, en hún á ekki heldur að vera áhættufyrirtæki, og því ber að banna skuldaverslun.

Hv. þm. spurði, hvort flutningsgjald ætti að greiða eingöngu til þeirra hafna, sem skip ríkisins og Eimskipafjelagsins kæmu á. Já, það er ætlunin. En um þetta atriði vil jeg þó leyfa mjer að vísa til þeirra aths., sem hv. frsm. meiri hl. landbn. gerði í framsögu sinni við 2. umr.

Hv. þm. gat þess, að þegar notkun áburðarins færi að aukast, yrði hentugra og ódýrara að flytja hann með sjerstökum skipum, heldur en að ætla strandferðaskipunum að annast flutninginn. Þetta getur verið rjett. En ákvæðin um flutningsgjöldin eru heldur ekki sett nema til fárra ára. Verði notkun áburðarins farin að aukast að mun að þeim tíma liðnum, er tími til að athuga, hvað gera skuli. Með þeim lögum, sem nú eru sett, er ekki verið að binda ríkissjóð um aldur og æfi.

Mjer var það kært, er hv. þm. mintist á það að halda flutningunum til Eimskipafjelagsins. Hann er sjálfur í stjórn þess, og vona jeg því, að hann hafi ekkert við það að athuga, þó að það njóti góðs af frv.

Það er oft svo, að þegar menn koma fram með ný áform, byggjast þau að meira eða minna leyti á spám. Í þessu máli erum við báðir spámenn, háttv. 3. landsk. og jeg. Hann er svartsýnn á árangur frv., en jeg bjartsýnn. Það hefir litla þýðingu, að við sjeum að leiða saman hesta okkar í þessum umræðum. Rjettast er að láta atkvgr. skera úr um það, hvor ráða skuli, og reynsluna dæma um, hvor á rjettara hefir að standa um spárnar.