25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

30. mál, tilbúinn áburður

Ingvar Pálmason:

Það er gleðilegt, hve mikill áhugi er fyrir þessu máli hjá hv. þm., sem meðal annars kemur fram í því, hve umr. um það eru orðnar langar. Jeg hafði nú að vísu ekki ætlað að taka til máls, en hv. þm. Snæf. gaf mjer sjerstaklega ástæðu til að segja nokkur orð. Hv. þm. sagði, að margar till. og skoðanir hefðu komið fram í þessu máli. En sú fáránlegasta till., sem fram hefði komið, væri frá mjer og í því fólgin, að jeg hefði talið, að bændur ættu að brenna sauðataði. Þessa till. taldi hann svo fáránlega, að hún ætti ekki oftar að heyrast í sölum Alþingis. Það hefir víst átt að vera slagorð hjá hv. þm. að kalla þessa skoðun fáránlega. En sá galli var á hjá hv. þm., að þessu orði fylgdi enginn rökstuðningur. Og það, sem meira var, þá hjálpaði hv. þm. mjer sjálfur um rökstuðning í ræðu sinni fyrir þessari „fáránlegu“ kenningu. Sá rökstuðningur sýnir, að það er happasælla að nota tilbúinn áburð og brenna sauðataðinu heldur en kaupa kol og bera sauðataðið á túnin. Hv. þm. sagði, að á meðan samgöngur upp til sveita væru jafnerfiðar og nú, þá gætu bændur naumast flutt tilbúinn áburð heim til sín, þar sem heimflutningur á hverjum hestburði kostaði of fjár, eins og hann komst að orði. Þá sjá allir, hve fráleitt það er að flytja kol til eldsneytis sömu leiðir, því kolin eru margfalt dýrari í flutningi heldur en tilbúni áburðurinn. Jeg geri ráð fyrir því, að 1 tonn af kolum muni spara í sauðataði áburð, sem nemi 1½ dagsláttu. En samkvæmt reynslu minni á tilbúnum áburði, þá svarar það 1½ tunnu. Geta svo allir reiknað, um hve mikinn flutningskostnaðarmismun er að ræða. Ef þetta er fáránleg kenning og stór orð, þá er nú hætt við, að fleiri sjeu sekir um eitthvað svipað. Ef um nægan eldivið annan en sauðataðið er að ræða, kemur þetta vitanlega ekki til greina. Jeg benti aðeins á, hvort jeg teldi hagkvæmara, kaup á kolum eða tilbúnum áburði, ef um kaup á öðruhvoru væri að ræða. Jeg mun því hvorki blikna nje blána vegna staðhæfinga háttv. þm. Snæf. Jeg þarf þess ekki, þegar rök mín eru rjettilega metin.