25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Jeg vildi víkja örfáum orðum að orðastað þeirra hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. S.-M., þar sem þeir deildu um, hvort betur myndi borga sig að nota kol eða tilbúinn áburð í stað sauðataðs til eldneytis eða áburðar. Jeg vil þá geta þess, að til þess að rækta eina dagsláttu í túni er talið, að nægi sauðatað undan 20–25 kindum. Til ræktunar á sama bletti mun þurfa áburð, sem kostar á höfn 40 til 50 kr. Áburðurinn undan hverri kind nemur því að verðmæti 2 kr. Áburður undan 150 kindum nægir því til að rækta 6 dagsláttur og sparar 300 kr. í kaupum á tilbúnum áburði, að viðbættum þó flutningskostnaði frá höfn, sem getur kostað mjög mikið um langa og torfæra vegi. Talið er, að þurfa muni helmingi meira af sauðataði en kolum til að gefa sama hita. Það, sem þvingar menn til að brenna sauðataðinu, er ekki dýrleiki kolanna, heldur vöntun á vegum. Ef vegirnir væru komnir í gott horf, þá væri engin frágangssök fyrir bændur að kaupa kol og spara sauðataðið. Með kolum má brenna mjög ljelegum eldivið, sem notast betur með kolunum og eykur því notagildi hans fram yfir hitagildið. Það mundi því verða mjög happasælt fyrir ræktunina að nota sauðataðið sem mest til ræktunar og kaupa kol til eldsneytis, meðan „hvítu kolin, sem eru framtíðarinnar eldsneyti, eru ekki komin til almennrar notkunar.

Það er því sýnilegt, að þessu sama takmarki má ná á ýmsan annan hátt en frv. þetta bendir til: Bættir vegir, bættar eldstór, því eldstór, sem nú eru víða, brenna meiru en þörf er á. Nota betur heimafenginn áburð, hirða hann vel að drýgja. Og þá að lokum að nota tilbúinn áburð þar, sem það borgar sig. En vitanlega borgar það sig betur við sjó en uppi til sveita. Með frv. þessu er bændum boðið til veislu, þar sem búist er við góðum veitingum. En svo fer í þessu boði, að þeim er aðeins leyft að horfa á, meðan aðrir gæða sjer á rjettunum. Og svo eiga þeir að sjálfsögðu líka að þakka fyrir, þótt þeir fengju aðeins að horfa á. Hæstv. fors.- og atvmrh. sagði, að þetta ætti að vera tilraun. En þar sem hjer verður aðeins um einkasölu að ræða, þá verður ekki um neinn samanburð að ræða, og því ekkert svar. Jeg bjóst ekki við því, að það yrði til neins að koma fram með brtt. Taldi víst, að hún yrði ekki samþykt, og gerði það því ekki. Skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en leyfa, að málið gangi til atkv. frá minni hálfu.