25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það væri mikil ástæða til að mæla gegn frv., ef það yrði til þess, að bændur landsins keyptu minna af tilbúnum áburði en eftir till. hv. 3. landsk. En nú hefir verið sýnt fram á, að verð tilbúins áburðar verður hærra eftir uppástungu hans og verður þar af leiðandi ekki eins mikið notaður áburðurinn og eftir því fyrirkomulagi, sem hjer um ræðir.

Þá kemur það atriði, hvort allir geti ekki átt aðgang að kaupum á áburðinum. Í flestum hreppum eru búnaðarfjelög, í mörgum þeirra Samvinnufjelög, og allir eru þó í hreppsfjelaginu, svo að möguleikarnir eru margir til þess að komast að kaupunum. En þá er spurningin, hvort allir munu hafa tækifæri að afla sjer áburðarins af því að áskilin er greiðsla út í hönd við móttöku.

Þegar þarf að gera pantanir, geta menn í sama hreppi komið sjer saman um, hvað mikið á að panta, og gert ráðstafanir til þess að útvega peninga handa þeim, sem þá hafa ekki, og þeir menn síðan borgað með afurðunum á haustin. Kostnaðurinn við þetta yrði ekki annar en vextir af þessum peningum. Hv. 3. landsk. og aðrir íhaldsmenn, sem hafa svo mikla trú á lánstrausti bænda, ættu síst að vera svartsýnir um, að þetta gæti tekist, og þar að auki, ef þetta ágæta frv. þeirra um atvinnurekstrarlán nær fram að ganga, er bændum þar með borgið. Það er því ekki af þeirri ástæðu, að bændur verða tregir til að nota áburðinn, en hitt getur vel verið, að þeir verði tregir til þess fyrst í stað. En það þarf ekki nema nokkra bændur í hverjum hreppi til þess að byrja, og þegar bændur sæju, hve árangur af notkun tilbúins áburðar væri góður og betri heyfengur næðist með því móti, mundi hver bóndi klífa þrítugan hamarinn til þess að afla sjer áburðarins.