25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

30. mál, tilbúinn áburður

Ingvar Pálmason:

Það er eitt meginatriði, sem ber á milli mín og þeirra hv. 6. landsk. og hv. þm. Snæf. í þessu máli, og það er, að þessir háttv. þm. halda ekki, að notkun tilbúins áburðar sje óbrigðulasta ráðið til þess að auka ræktun í landinu, en virðast trúa, að innlendi áburðurinn sje nægilegur til þess. Þetta virðist mjer vera aðalmeiningarmunur okkar.

Jeg verð að játa, að það er sannfæring mín, að fyr en íslenskir bændur eru búnir að læra að nota tilbúinn áburð, kemst ekki verulegur skriður á ræktun í landinu. Jeg nota tilbúinn áburð sjálfur og tala hjer af reynslu. Dæmið, sem jeg tók áðan, var mjög auðskilið, Svo að jeg veit, að hv. þm. Snæf. hefir ekki viljað skilja það. Jeg gerði ráð fyrir, að á móti 1½ tonni af sauðataði þyrfti 1 tonn af kolum til eldsneytis. Til þess að spara sauðataðið, þarf því 1 tonn af kolum, en til þess að þekja jafnstóran völl og með 1½ tonni af sauðataði þarf 1½ tunnu af tilbúnum áburði. Ef borinn er saman flutningur á kolum og áburði, bitnar sá samanburður á kolunum. Ef kolin væru innlend, gæti jeg skilið, að þessir hv. þm. vildu heldur kol, en nú er ekki því að heilsa. Auk þess, sem mikið sparast á flutningnum, er enn ótalið, hve mikill vinnusparnaður er að nota tilbúinn áburð. Til þess að bera tilbúinn áburð á tún, sem er 1½ dagslátta, þarf 1–2 kl. tíma vinnu, en þeir, sem nota sauðatað til áburðar, geta reiknað, hve mikinn tíma tekur að bera á og vinna á jafnstóru túni, og geta þeir þá sjeð mismuninn. Hefði jeg gaman af, að hv. þm. Snæf. kæmi með það dæmi. (HSteins: Jeg er dauður og þetta er síðasta umr. málsins). Jeg vil geta þess, að jeg hefi notað sjávarúrgang til áburðar, og hefir hann reynst mjög góður til nýræktar, mun betur en útlendur áburður. Til áburðar á ræktaða jörð reynist hann nokkru lakari en tilbúinn áburður, og ef hann er notaður ár eftir ár, hleypir hann túni í arfa.

Tilbúinn áburð hefi jeg notað í 5 ár á sama túnið, og hefir það altaf farið batnandi. Mín reynsla er því sú, að notkun tilbúins áburðar sje eina leiðin til þess að ræktun komist í sæmilegt horf, og þetta er það, sem þarf að prjedika bændum.

Annars verð jeg að segja, að það hefir verið óþarfa þóf um þetta mál. Við þessa umr. gafst ekki annað tilefni til umræðna en till. hv. 3. landsk., og býst jeg við, að hv. deildarmenn hafi þegar tekið afstöðu til hennar, svo óhætt sje að ganga til atkv.

Um frv. er það að segja, að þótt einstakir deildarmenn hefðu heldur kosið ýms atriði þess á annan veg, þá hafa þeir ekki lagt svo mikla áherslu á þau atriði, að þeir hafi viljað bera fram brtt. — Verður því að láta ráðast, hvernig um það fer í Nd. Í þessari deild er auðsjeð, að menn eru skiftir í flokka. Vill annar flokkurinn vinna að málinu, en hinn hefir enga trú á því.