25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. minni hl. ( Jónas Kristjánsson):

Jeg vil aðeins geta þess, að þessi síðustu orð hv. 2. þm. S.-M. eru bein rangfærsla á því, sem fram hefir farið í deildinni. Það hefir enginn haft á móti tilbúnum áburði eða að hann væri ekki góður til ræktunar. Hitt er annað, að ekki er ætíð fje fyrir hendi til að kaupa og ekki gott að læra, þegar mögulegleika vantar til þess. Hv. þm. virðist ekki annað þurfa en að bændur læri að nota tilbúinn áburð; hann gætir þess ekki, að peninga þarf til að kaupa hann, og að þeir eru oft af skornum skamti hjá efnalitlum bændum. Og þar sem hv. þm. er að tala um verkasparnað, vil jeg geta þess, að til sveita eru það helst unglingar, sem eru látnir vinna á túnunum, þeir, sem ekki hafa annað fyrir stafni, og fer þá að verða lítið úr þessum verkasparnaði. Jeg legg mesta áherslu á að nota heimaáburðinn, eftir því sem hægt er, og því næst tilbúna áburðinn, eftir því sem efni og föng eru á.