15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

30. mál, tilbúinn áburður

Jón Ólafsson:

Það voru aðeins nokkur orð út af brtt. hv. 1. þm. N.-M. Það er nú svo um brtt. þessa, að í henni felst í rauninni alger breyting á framkvæmd laganna frá því, sem til er ætlast í frv., með því að dregið er úr styrk ríkisins til sjóflutninga, en hjálp ríkisins að sama skapi færð yfir á landið.

Þessi till. var mikið rædd í nefndinni, en eftir þær upplýsingar, er við höfðum fengið, vorum við allir sammála um það, að það fyrirkomulag að greiða flutningsstyrk á hvern km. væri svo örðugt og margbrotið, að framkvæmd slíkra laga myndi reynast næstum ómöguleg. Till., eins og hún lægi fyrir, væri ekki einhlít, heldur þyrfti að ákveða með sjerstakri reglugerð, hvað greiða skyldi á km. í hinum ýmsu hjeruðum landsins, því að vitanlega skiftir miklu máli, hvort vegir eru illfærir eða akfærir, og fleira, sem hjer kemur til greina. Þótt nefndin væri öll af vilja gerð, fanst henni, að hjer væru svo mörg ljón á veginum, að ekki væri tiltækilegt að ganga inn á þessa braut að svo stöddu. Hinsvegar má aðgæta, þegar farið er að framkvæma lögin, hvaða leiðir megi finna rjettlátastar til að ljetta undir með landflutninga. Má ávalt breyta lögunum í þá átt, eftir því sem hagkvæmast þykir.

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um 2. brtt. nefndarinnar, vil jeg geta þess, að jeg tel það rjett á litið, sem hv. 1. þm. Rang. hjelt fram, að bændum myndi veitast erfitt að borga áburðinn út í hönd, og væri því nauðsynlegt, að þeir gætu keypt áburðinn í þeirri verslun, sem þeir hefðu aðalviðskifti við. Og ef búnaðarfjelög hreppanna beita sjer fyrir kaupunum og semja við kaupmenn um að hafa útsölu áburðarins á hendi, þá virðast þau geta haft fullkomna stjórn á því, að álagningin fari ekki úr hófi fram.

Jeg vil endurtaka það, að það var ekki af athugaleysi, að brtt. hv. 1. þm. N.-M. var ekki tekin upp, heldur af því, að nefndin áleit, að svo mikil rekistefna myndi verða út af framkvæmd hennar, að hún sá sjer ekki fært að aðhyllast hana að svo stöddu. En ef hægt er að komast að niðurstöðu um það, hversu flutningsstyrknum skuli skift, og ef þetta yrði til þess að ýta undir notkun áburðarins, þá mun jeg fyrir mitt leyti ekki leggjast á móti því, að farið verði inn á þessa braut.