02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

1. mál, fjárlög 1929

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg get ekki þakkað hv. meiri hl. nefndarinnar fyrir undirtektirnar undir tillögur mínar. Hv. frsm. (IngB) vildi sjerstaklega benda á, að það væri slíkur aðstöðumunur milli sveitapilta og bæjarpilta, að það afsakaði, að bæjarpiltar greiddu skólagjald, en sveitapiltar ekki. En nú er ekki sagt með því, að pilturinn sje úr sveit, að hann þurfi að vera fátækur, nje með því, að pilturinn sje úr bænum, að hann hafi ráð á því að greiða þetta gjald. Það getur eins vel verið, að efnaður sveitapiltur sleppi, en fátækur bæjarpiltur verði að borga skólagjaldið. Það er aðeins hægt að veita undanþágu frá skólagjaldi þeim nemanda, sem er sjerlega vel gefinn og mjög fátækur, en ef annaðhvort er ekki, t. d. piltur vel gefinn, en hann er ekki öreigi, þó fátækur sje, eða pilturinn er bláfátækur og greindur vel, en þó ekki framúrskarandi, þá fær hann ekki slíkar undanþágur skólagjalda. Mjer er t. d. kunnugt um, að í mentaskólanum eru ýmsir piltar, sem eiga gersamlega efnalausa foreldra, sem borga þessi skólagjöld. En svo er fleira að athuga í þessu efni. Segjum t. d. að maður, sem á fleiri börn, láti 2–3 þeirra ganga í skóla; þótt hann hafi ráð á að borga fyrir eitt af þeim, þá getur það verið honum ofurefli að greiða fyrir þrjú. En það sýnist svo, sem ekki sje hægt að taka neitt tillit til þess, þótt um fleiri börn sje að ræða frá sama manni.

Í sambandi við þetta vildi jeg benda hv. þingdeild á ummæli í brjefi frá rektor mentaskólans í Reykjavík, dags. 5. nóv. f. á. Hann skýrir fyrst frá þeim mun, sem er á skipun þessara mála hjá frændþjóð vorri Dönum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Danmörku, þar sem efni fólks eru miklu meiri, er skólagjald miklu lægra en hjer og nær jafnt til nemenda úr sveitum sem úr kaupstöðum, og er það líka miðað við tekjur manna“.

Þetta er ekki gert hjer, heldur aðeins tekið tillit til þess, hvar menn búa.

„Þannig gjalda þeir, sem hafa 4050–5000 kr. í tekjur, 3 kr. á mánuði fyrir eitt barn í miðskólanum, en 4 kr. á mánuði fyrir 1 nemanda í lærdómsdeildinni. Ef menn ekki hafa þær tekjur, er skólagangan kauplaus“.

Hjer mun það vera nær sanni, að borgaðar sjeu 17 kr. á mánuði í skólagjöld, án tillits til þess, hvaða tekjur menn hafa.

Eftir þeim dæmum, sem rektor skólans tekur, eru skólagjöldin miklu minni í Danmörku, ekki nema fjórðungur á við það, sem þau eru hjá okkur, og falla niður þegar tekjurnar eru fyrir neðan 4000 kr.

Þessum órjetti og skatti á námsáhuga unga fólksins ætti að ljetta af þegar í stað. Það er hægt að gera í fjárlögum, þar sem ekki er neinn annar lagástafur fyrir þessum skatti.

Skólagjöldin eru í stjfrv. áætluð 15 þús. kr., en eftir því, sem rektor gefur upp, hafa þau orðið 24 þús. kr. í mentaskólanum einum, svo að auðsætt er, að skatturinn er æðimikið þyngri en sjest af því fjárlagafrv., sem hjer liggur fyrir.

Jeg ætla svo að láta útrætt um þetta í bili, aðeins að benda á það, sem hv. þm. er kunnugt, að skólagjöldin ná ekki eingöngu til mentaskólans, þó að þau verði mest þar, með því að nemendur þurfa að greiða þau í 6 ár samfleytt, eða 900 kr. alls, heldur líka til sjómannaskólans, Flensborgarskólans og gagnfræðaskólans á Akureyri.

Mjer þótti leitt, að hv. nefnd gat ekki fallist á hina litlu aukningu á styrknum til hjúkrunarfjelagsins Líknar, svo að styrkur ríkisins yrði í samræmi við styrkinn frá bænum. Hinsvegar skil jeg varla, að hv. deild láti sig draga um þessa litlu upphæð til hjúkrunar berklaveikra utan spítala, þar sem öllum er kunnugt um, hversu miklu fjelag þetta fær áorkað með tiltölulega litlu fje.

Þá gat háttv. frsm. þess, að fjvn. hefði rætt það nokkuð, að konungsmatan væri greidd í dönskum krónum, en ekki íslenskum, og virtist viðurkenna, að þetta væri lögleysa, enda sjest enginn lagastafur fyrir því. En vegna þess að fráfarandi stjórn hefði gert þetta líka, með venjulegu lagaleysi og heimildarleysi, þá væri sjálfsagt að halda því áfram. Jeg kann ekki við þetta. Ef það væri vilji þingsins að greiða þessa upphæð í dönskum krónum, þá ætti að breyta lögunum frá 1919, og eins að geta um það í fjárlagafrv., innan striks, að hjer væri um danskar krónur að ræða, sem þá yrðu 72000 krónur íslenskar. Jeg verð að líta svo á, að meðan ekki er til nein samþ. frá þinginu í aðra átt, sje ekki heimilt að greiða meira en 60000 íslenskar krónur.

Sama er að segja um laun sendiherra. Mörgum mundi þykja undarlegt, ef með þegjandi samþykki fjvn. mætti breyta sjerhverri upphæð í fjárlögum, jafnvel þó að ákveðin væri með sjerstökum lögum. Það væri þá jafneðlilegt, að fjvn. samþykti, að einhver af þeim upphæðum, sem hjer standa, væri greidd í sænskum, norskum eða jafnvel austurrískum krónum. Yrðu þá áætlanir fjárlaga ærið óábyggilegar — og hvað er orðið um þingræðið, ef ákvarðanir þess í lagaformi gilda ekki móti baktjaldamakki fjvn.? Jeg þarf ekki að taka það fram, að mjer fyrir mitt leyti þykir fyllilega nóg sú upphæð til konungsmötu, sem er lögákveðin.