15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Lárus Helgason):

Jeg þarf ekki langan tíma til að svara, því yfirleitt hefir ekki verið mikið ráðist á hinar einstöku greinar frv. Það hefir helst verið um andúð að ræða gegn stefnu þess — einkasölunni — einkum frá hv. 1. þm. Reykv. Hann hefir nú hafið upp sitt gamla heróp um það, að hjer væri um einokun að ræða, sem væri alveg hliðstæð þeirri gömlu einokun, sem allir kannast við. Það er nú ekkert nýtt, að gripið sje til þeirra raka, ef um eitthvert það fyrirtæki er að ræða, sem hagur gæti verið að láta ríkið hafa með höndum. Með þessu herópi er reynt að koma inn óhug meðal þjóðarinnar á fyrirtækinu.

Hv. þm. vildi halda því fram, að það mundi síst verða til þess að greiða fyrir sölu og notkun tilbúins áburðar, að ríkið tæki innkaupin í sínar hendur. Hv. þm. Mýr. hefir svarað þessu svo rækilega, að jeg þarf þar ekki við að bæta. Hann hefir sýnt fram á það, að ríkið stæði best að vígi með að ná sem hagfeldustum innkaupum á tilbúna áburðinum.

Þá hefir og sami hv. þm. svarað hv. þm. Barð. allrækilega. En jeg verð þó að segja það um ræðu þessa hv. þm. (HK), að mjer fanst skína út úr henni, að háttv. þm. hefði enga trú á ræktun landsins. Mjer heyrðist hann álíta, að landið ætti að halda áfram að vera jafnlítið ræktað og hingað til og þetta frv. um fyrirgreiðslu á notkun tilbúins áburðar væri þýðingarlaust. — Þá gerði hv. þm. ráð fyrir, að hann mundi greiða atkv. móti frv., en með brtt. landbn. Veit jeg ekki, hvernig hann fer að samrýma það. Mjer finst nú satt að segja hálfóviðfeldið, þegar bóndi stendur upp til að andmæla þessu frv. — Hann talaði um það, að einn maður hefði notað tilbúna áburðinn mest hingað til, að mjer skildist. En jeg sje ekkert athugavert við það, þó einn maður hafi skarað fram úr öðrum með notkun tilbúins áburðar. Og væri víðar hægt að sýna sama árangur og þessi maður hefir sýnt í Mosfellssveitinni, þá mætti fljótlega búast við góðum árangri af þessu frv.

Þá sagði sami hv. þm., að áburðarhirðingin væri ekki í góðu lagi ennþá. En þetta frv. stendur alls ekki í vegi fyrir bættri áburðarhirðingu, heldur einmitt hið gagnstæða. Hefir hv. þm. Mýr. rjettilega bent á það atriði, og þarf jeg ekki að endurtaka það. Það er rjett, að það er ilt til þess að vita, ef sá áburður, sem tilfellur heima fyrir, yrði framvegis látinn fara forgörðum, og ef á sama tíma væri þess í stað notaður aðkeyptur áburður. Nú er það vitanlegt, að áburðarhirðing fer mjög batnandi, enda allmikið gert til að ýta við því frá hálfu þess opinbera. Jeg sje annars ekki ástæðu til að fara frekar út í að svara hv. þm., en jeg endurtek það, að jeg var mjög hissa á hans ræðu; mjer hefði fundist eðlilegt, að hún hefði verið á annan veg.

Þá skal jeg víkja að brtt. hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 419. Jeg get sagt það frá nefndarinnar hálfu, að hún hefir enn ekki tekið hana nákvæmlega til athugunar. En eins og jeg hefi áður sagt, sjer hún mikla annmarka á því fyrirkomulagi, sem þar er stungið upp á. Annars vildi jeg, án þess að mæla beint á móti till., mælast til þess, að hv. þm. tæki hana aftur til 3. umr., svo að nefndinni gæfist kostur á að taka hana til nánari athugunar. Jeg sje ekki hv. þm. í deildinni, en þessi tilmæli mín ættu þó að geta borist til hans.